Afnám greiðslu þungaskatts á umhverfisvæn ökutæki

Fimmtudaginn 12. mars 1998, kl. 11:31:45 (4632)

1998-03-12 11:31:45# 122. lþ. 86.5 fundur 407. mál: #A afnám greiðslu þungaskatts á umhverfisvæn ökutæki# (breyting ýmissa laga) frv., Flm. HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 122. lþ.

[11:31]

Flm. (Hjálmar Árnason) (andsvar):

Herra forseti. Ég fagna þessari afdráttarlausu afstöðu hv. þm. enda hefði annað komið mér á óvart. Hvað varðar kostnaðinn get ég tekið undir hugleiðingar hv. þm. að stýringin getur verið með tvennum hætti, þ.e. að gera bíla ódýrari í innkaupum og síðan með nokkurs konar mengunarskatti. En ég ítreka það sem ég nefndi áðan að það er mikilvægt að stíga fyrstu skrefin strax af því að þau eru raunhæf, verkefnið bíður okkar, það blasir við í dag, eins og ég nefndi.

En ég tel einnig að við þurfum að hafa í huga, varðandi rafbíla og í framhaldi af hugleiðingum hv. þm., að það eru aðrir þættir sem verða e.t.v. ekki metnir til fjár ef og þegar rafbílar verða orðnir nokkuð algengir á götum. Hugsanlega kunna þeir að valda umferðarstíflum, en af þeim er engin hávaðamengun. Eins og við þekkum hér, sérstaklega í höfuðborginni, þá hefur verið óskað eftir eyrnaaðgerð til þess að losna við að heyra hávaða af tilteknum götum.

Hins vegar er ljóst að í fyllingu tímans, og ég gerði skýra grein fyrir því þegar ég mælti fyrir frv., þarf að endurskoða tekjuöflun vegna vegagerðar, bílar geta sem sagt ekki endalaust verið undanþegnir þungaskattinum, ríkissjóður þarf þá að ná þeim tekjum á annan hátt. En það er í fyllingu tímans og þar höfum við samkvæmt frv. fimm ár til þess að endurskoða það ákvæði.

Þá er líka hægt að benda á það að við erum að tala um vistvæna orkugjafa og innlenda orkugjafa sem hefur óbein efnahagsleg áhrif, við framleiðum orkuna í stað þess að kaupa hana dýra og draga þar með fé út úr efnahagskerfi okkar þannig að það er líka ávinningur sem skilar óbeinum tekjum og beinum tekjum í ríkissjóð.