Afnám greiðslu þungaskatts á umhverfisvæn ökutæki

Fimmtudaginn 12. mars 1998, kl. 11:34:01 (4633)

1998-03-12 11:34:01# 122. lþ. 86.5 fundur 407. mál: #A afnám greiðslu þungaskatts á umhverfisvæn ökutæki# (breyting ýmissa laga) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 122. lþ.

[11:34]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Við erum svo ákaflega sammála um þetta að það er kannski hálfhlálegt að vera að ræða þetta í orðaskiptum svara og andsvara. Að sjálfsögðu er hárrétt að rafbílarnir hafa mikla kosti og fyrir því finna menn einmitt í Reykjavík að þessi mikli einkabílismi er til stórkostlegra vandræða, bæði hvað hávaða snertir og líka loftmengun. Staðreyndin er auðvitað sú, og það vita þeir sem fylgst hafa með ástandi mála á höfuðborgarsvæðinu síðustu 20 ár, að loftmengun hefur aukist ískyggilega og er umtalsverð hér eins og sjá má á góðviðrisdögum. Á góðviðrismorgnum, t.d. séð ofan úr Breiðholti eða ofan úr hærri hverfunum niður yfir lægri hverfin, liggur gul slikja langt út á sund.

Í öðru lagi er mjög jákvætt að orkugjafinn verður í þessu tilviki innlendur. Það er engin spurning að okkur ber að stefna að því. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að þar liggi okkar stærstu möguleikar gagnvart Kyoto-ákvæðunum, þ.e. að færa sem allra mest af orkunotkuninni yfir í innlenda orkugjafa í eigin orkunotkun okkar. Það er mjög rangt að einblína þar á hvaða heimildir við höfum til þess að fá inn t.d. erlendan iðnað og auka losun vegna hans ef við getum náð fram beislun og nýtingu orkunnar í eigin þágu, t.d. í umferðina. Þar er tvímælalaust stærsti notandinn íslenski flotinn. Ég hef í 15 ár, frá því að ég var að læra efnafræði uppi í háskóla hjá þeim mæta manni Braga Árnasyni, átt mér þann draum að stóra gegnumbrotið í þessum málum hjá okkur Íslendingum yrði þegar við færum að virkja fallvötnin eða háhitann til þess að framleiða vetni eða annað sambærilegt eldsneyti til að nota á íslenska flotann. Þá fyrst náum við virkilega að brjótast í gegn og beisla orkulindirnar bæði á umhverfisvænum forsendum en líka efnahagslegum eða þjóðhagslegum þannig að það muni virkilega um það. Vissulega má líta á þetta, þó í litlu sé eða væntanlega í byrjun, hvað einkabílana snertir sem ákveðna viðleitni í sömu átt.