Afnám greiðslu þungaskatts á umhverfisvæn ökutæki

Fimmtudaginn 12. mars 1998, kl. 11:36:23 (4634)

1998-03-12 11:36:23# 122. lþ. 86.5 fundur 407. mál: #A afnám greiðslu þungaskatts á umhverfisvæn ökutæki# (breyting ýmissa laga) frv., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 122. lþ.

[11:36]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ég hygg að ég sé ekki mjög ósammála hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni í þeim aðgerðum sem hugsaðar eru samkvæmt frv. um að fella niður skatta til þess að gera notkun á umhverfisvænum ökutækjum meira afgerandi. Við erum báðir áhugamenn um það og eins hv. þm. Hjálmar Árnason.

Það sem ég var fyrst og fremst að velta fyrir mér varðandi ummæli hv. þm. áðan var um Kyoto-ráðstefnuna þar sem hv. þm. taldi að íslensk stjórnvöld hefðu verið illa undirbúin og við hefðum í raun ekki gert þar það sem kannski hefði verið ætlast til. Ég vil segja það um Kyoto-ráðstefnuna og þátt okkar í henni að sú ráðstefna hefur í rauninni ýtt undir allt öðruvísi umræðu á Íslandi en áður. Menn hafa farið að meta þá stöðu sem er á landinu, hvernig við getum mætt kröfum um að draga úr umhverfismengun, með hvaða aðferðum og hugmyndir eins og komið hafa fram frá hv. þm. Hjálmari Árnasyni og mér og fleirum eru að fá einhverja vigt sem hefur áður ekki verið. Ég mundi vilja þakka það þeim áhuga sem skapaðist á landinu eftir Kyoto-ráðstefnuna. Ég held líka að samningamenn okkar hafi náð verulegum árangri á Kyoto-ráðstefnunni með því að fá viðurkennda þá sérstöðu Íslendinga að umhverfisvinna okkar fram að því skapaði okkur möguleika til þess að geta aukið útblástur koltvíoxíðs um 10% umfram það sem almennt var álitið hjá öðrum þjóðum.

Ég tek svo undir ýmislegt sem kom fram hjá hv. þm. eins og um það að slíkar niðurfellingar eins og rætt er um geti ekki gengið endalaust. Auðvitað ætti að reyna að stýra þungaflutningum á þjóðvegum landsmanna með umhverfissköttum þannig að mengun af þeim væri minni.