Afnám greiðslu þungaskatts á umhverfisvæn ökutæki

Fimmtudaginn 12. mars 1998, kl. 11:41:25 (4636)

1998-03-12 11:41:25# 122. lþ. 86.5 fundur 407. mál: #A afnám greiðslu þungaskatts á umhverfisvæn ökutæki# (breyting ýmissa laga) frv., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 122. lþ.

[11:41]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ég held að einmitt á þennan hátt, inn á við, séu menn á réttri leið eins og þeir sem eru að flytja tillögur í þinginu um að gera áhugaverðari notkun á umhverfisvænum bílum, nýta innlenda orku með þeim hætti að hægt sé að knýja áfram þessa bíla, og það sé sú umræða sem hafi fengið vigt að nýju umfram það sem hún hafði áður, og það vil ég þakka Kyoto-ráðstefnunni. Það er margt sem gerist reyndar í kringum Kyoto-ráðstefnuna sem menn eiga eftir að velta fyrir sér á næstu mánuðum eins og það hvernig menn ætla sér að flytja mengunarkvóta á milli landa, hvernig þjóðir sem eru í nálægð hver við aðra, eins og Evrópuþjóðirnar, ætla sér að nýta kvóta hver annarrar, annars vegar sem Evrópusambandsríki og hins vegar sem sjálfstæð ríki. Það er svo margt sem kom upp á ráðstefnunni sem á eftir að fara ofan í og menn eiga eftir að átta sig á hér á Íslandi hvernig þeir koma til með að nýta sér.

Að lokum þakka ég fyrir umræðuna. Mér finnst hún hafa verið áhugaverð og á von á því að hv. efh.- og viðskn. muni taka af alvöru á þeim tillögum sem þar liggja fyrir um umhverfisvæna skattastefnu sem kemur þá þeim tillögum til góða sem við hv. þm. höfum flutt og eru til afgreiðslu í nefndinni.