Þjónustu- og endurhæfingarstöð sjónskertra

Fimmtudaginn 12. mars 1998, kl. 12:03:22 (4638)

1998-03-12 12:03:22# 122. lþ. 86.6 fundur 342. mál: #A Þjónustu- og endurhæfingarstöð sjónskertra# (þjónusta við börn) frv., ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 122. lþ.

[12:03]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur fyrir að hafa átt frumkvæði að frv. sem við þrír þingmenn jafnaðarmanna erum flytjendur að. En eins og kom mjög skýrt fram í máli hennar er þetta mikið réttlætis- og sanngirnismál. Mig langar aðeins til að koma með smáinnlegg til að benda á hversu áríðandi það er að jafna rétt þeirra sem þurfa að nota gleraugu, sérstaklega barna undir 18 ára aldri, eins og tekið er til í frv. Ég veit ekki hversu oft, meðan ég var í starfi hjá Tryggingastofnun, að foreldrar komu til mín vegna útgjalda við gleraugnakaup barna. Eins og kemur fram í greinargerðinni er sjónskerðing mjög oft ættgeng, og leggst þess vegna mjög þungt á barnafjölskyldur þar sem mörg börn í fjölskyldu eru sjónskert og þurfa gleraugu.

Kona hringdi í mig fyrir nokkrum vikum og var að ræða við mig um þrjú börn sín sem öll þurfa mjög dýr gleraugu og var þetta mikil byrði á fjölskyldunni. Hún var að leita ráða um hvernig væri hægt að fá aðstoð í slíkum tilvikum. Það voru ekki eingöngu mikil útgjöld vegna gleraugna barnanna heldur fylgdi einnig mikill kostnaður því að þurfa að keyra þau og vera með þeim, þetta eru börn sem þurftu sterk gleraugu en féllu ekki inn í þau lög sem eru nú fyrir hendi um aðstoð. Ef börn hennar hefðu verið heyrnarskert eða þurft á öðrum hjálpartækjum að halda vegna annarrar fötlunar hefðu þau nánast undantekningarlaust fengið aðstoð frá velferðarkerfinu við kaup á hjálpartækjum.

Við þekkjum líka hvernig það er með börn meðan þau eru lítil, þau eru gjörn á að missa gleraugu, brjóta þau, það þarf sífellt að kaupa ný gleraugu. Það eru því mjög mikil útgjöld hjá þessum fjölskyldum og því mikið sanngirnismál að komið verði til móts við þau frá samhjálpinni þannig að þau beri ekki skarðan hlut frá borði hvað það varðar.

Ég minnist þess líka að til mín kom móðir sem er lífeyrisþegi og hún sagði mér að hún gæti ekki keypt gleraugu fyrir barnið sitt vegna þess að þau kostuðu meira en mánaðarlegur lífeyrir hennar. Menn sjá náttúrlega í hvaða stöðu fólk er sem á börn sem búa við þessa fötlun. Síðan er það auðvitað fólkið sjálft sem þarf líka að standa í þessum útgjöldum, það er ekki verið að gera ráð fyrir því að verið sé að greiða fyrir það, þó svo að víða sé tekið tillit til þess í velferðarkerfum í nágrannalöndum okkar að taka þátt í útgjöldum þeirra sem þurfa að nota gleraugu að staðaldri og það kannski dýr gler.

Ég mun því leggja þessu máli lið þegar það kemur í heilbr.- og trn. Þetta er mikið sanngirnismál. Við vitum líka hvernig það er með börn, það er algengt að sjónin breytist hratt, það þarf sífellt að skipta um gler hjá börnum sem eru að vaxa úr grasi og þar eru viðbótarútgjöld. Eins og hv. frummælandi benti á í ræðu sinni vill það oft dragast þegar um er að ræða mikil útgjöld vegna hjálpartækja eins og gleraugu eru, að keypt séu nauðsynleg ný gleraugu fyrir börnin. Ég legg því ríka áherslu á að farið verði í þessa lagabreytingu og frv. verði samþykkt þannig að sá hópur barna, sem býr við þá fötlun að sjá ekki eins og aðrir, standi jafnfætis öðrum börnum sem þurfa á hjálpartækjum að halda til þess að njóta lífsins á við aðra.