Félagsleg aðstoð

Fimmtudaginn 12. mars 1998, kl. 12:39:36 (4644)

1998-03-12 12:39:36# 122. lþ. 86.9 fundur 352. mál: #A félagsleg aðstoð# frv., Flm. ÁRJ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 122. lþ.

[12:39]

Flm. (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um félagslega aðstoð, nr. 118/1993, með síðari breytingum.

Flutningsmenn ásamt þeirri sem hér stendur eru hv. þm. Margrét Frímannsdóttir, Guðný Guðbjörnsdóttir og Jóhanna Sigurðardóttir.

Þetta er í þriðja sinn sem ég er 1. flm. að frv. sem þessu. Það fjallar um að breyta lögunum um félagslega aðstoð en lögin um félagslega aðstoð voru fyrir 1993 hluti af almannatryggingalögunum en var skipt upp í tvenn lög við það að við gerðumst aðilar að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.

Fyrsta grein frv. felur það í sér að 1. mgr. 9. gr. laganna verði breytt á þann hátt að heimilt sé að greiða heimilisuppbót til þeirra sem búa með öðrum sé sambýlingurinn undir 20 ára aldri. Einnig er opnað fyrir það í öðrum tilvikum að greiða lífeyrisþega heimilisuppbót ef hann hefur ekki fjárhagslegt hagræði af sambýlinu við heimilismanninn.

Í dag er greinin framkvæmd þannig að aðeins er heimilt að greiða þeim sem búa einir heimilisuppbót en ekki ef þeir búa með öðrum. Heimilisuppbótin er hluti af lífeyrisgreiðslum. Eins og lífeyriskerfið er byggt upp í dag er grunnlífeyrir fyrsti flokkurinn sem greiddur er, síðan kemur tekjutryggingin, sem er reyndar tekjutengd við bæði lífeyrisgreiðslur og aðrar greiðslur, og síðan kemur heimilisuppbótin fyrir þá sem búa einir.

Eftir að almannatryggingalögunum var skipt upp árið 1993 voru félagslegu bæturnar settar í sérstakan lagabálk og þær voru allar gerðar að heimildarbótum. Ég tel, herra forseti, að það sé mikilvægt að því sé haldið til haga vegna þess að verið er að fara fram á að heimildirnar séu auknar, að víkkaðar séu heimildirnar til greiðslu heimilisuppbótar vegna þess að eins og lögin eru nú í framkvæmd eru þau geysilega óréttlát. Ég get nefnt sem dæmi, sem ég nefni reyndar í greinargerðinni, að ef einstæð móðir sem er öryrki fæðir barn, hefur það í för með sér að framfærsla hennar úr almannatryggingunum lækkar um tæpar 20 þús. kr. eða rúmar 19 þús. kr., bara við það að hún eignast barn. Henni er ætlað að framfleyta sjálfri sér á rúmum 19 þús. kr. lægri greiðslum eftir að hún eignast barnið. Reyndar fær hún greiddan barnalífeyri með barninu --- prentvilla er í greinargerðinni þar sem talað er um barnabætur en ekki um barnalífeyri --- hún fær tæpar 12 þús. kr. í barnalífeyri, en það er framfærsla barnsins sem greiðist vegna þess að móðirin er lífeyrisþegi. Það er því ekki hægt að líta á það þannig að hún hafi fjárhagslegt hagræði af því að búa með hvítvoðungi. Það sér náttúrlega hver heilvita maður að það hefur ekki nokkur maður fjárhagslegt hagræði af því að eignast barn og fara að búa með því þó að greiddur sé barnalífeyrir upp á 11.737 kr. með barninu.

Ef maður tekur saman heildargreiðslur heimilis þessa öryrkja við það að fara úr því að vera einn að verða tveir einstaklingar á heimilinu að þá lækka tekjur heimilisins um 7.313 kr. við það að barnið fæðist og heimilismönnum fjölgar í tvo. Þetta er alveg út í hött og eitt af mörgum dæmum um það hve þessi lög um almannatryggingar og félagslega aðstoð eru orðin úrelt og úr takti við það samfélag sem við búum í í dag. Þetta gerist þegar alltaf er verið að hringla í þessum lögum við fjárlagagerð á hverju ári án þess að horfa á lagasetninguna í heild.

[12:45]

Þetta gerir það að verkum að markmiðið með lögunum verður óljóst. Það lendir á þeim sem síst skyldi, þegar tekið er af hér og bætt við þar. Þetta verður eins og stagbætt flík sem alltaf er verið að rimpa í en gliðnar þá á öðrum stöðum.

Í frv. er miðað við að sá sem býr með barni sínu uns það hefur náð tvítugsaldri skuli fá heimilisuppbót ef menn telja ástæðu til þess. 20 ára aldursviðmiðun er sambærileg við menntunarbarnalífeyri sem er greiddur til tvítugs. Verið getur ástæða sé til að miða þetta við 18 ár, þannig að samræmi sé milli laga varðandi aldursmörk, samanber sjálfræðisaldurinn.

Ég vil geta þess að frá því ég flutti þetta mál síðast hafa þær breytingar orðið á almannatryggingalögunum að réttur mæðra, einstæðra mæðra og feðra sem búa með börnum sínum, hefur verið skertur. Mæðralaun fást ekki lengur greidd með einu barni, herra forseti. Það var tekið af í tíð þessarar ríkisstjórnar. Ástæða þótti til að finna matarholu hjá einstæðum foreldrum þannig að ekki er lengur greitt með einu barni. Sömuleiðis voru við eina fjárlagagerðina gerðar þær breytingar að ákveðin hlunnindi sem lífeyrisþegar með heimilisuppbót nutu voru tekin af en heimilisuppbót hækkuð á móti. Skerðingin er því meiri en áður og þeim mun mikilvægara að gera þá lagabreytingu sem þetta frv. leggur til. Ég gæti auðvitað talað hér lengi um þau vitlausu lög sem í gildi eru um almannatryggingarnar. Ég hafði reyndar bundið miklar vonir við að einhver bragarbót yrði gerð við endurskoðun almannatrygginganna. Það átti að eiga sér stað á þessu kjörtímabili og á laggirnar var sett nefnd til að sinna því verkefni. Sú nefnd hefur verið kölluð saman tvisvar sinnum á kjörtímabilinu. Síðast var hún kölluð saman í desember fyrir rúmu ári. Fyrir einu ári og fjórum mánuðum. Ég get því ekki séð að mikill vilji sé hjá þessari ríkisstjórn til að leiðrétta þær vitleysur sem viðgangast í þessu kerfi og það óréttlæti sem þar á sér stað.

Eins og ég nefndi í upphafi máls míns er ég að leggja þetta frv. fram í þriðja sinn. Maður auðvitað veltir því fyrir sér hvað það hafi upp á sig að leggja til breytingar á lögum til að fá leiðréttingu á ósanngjörnum reglum í velferðarkerfinu. Við vitum alveg hvernig þessi mál fara. Þau fara í nefnd og þar leggst stjórnarliðið á málin og þau fá ekki framgöngu út úr nefndinni. Ég læt það þó ekki þreyta mig í því að taka upp ósanngjörn lög eins og þessi og reyna að fá þeim breytt til betri vegar.

Ég mun leggja þetta mál fram aftur og aftur þar til menn sjá að það er ekki nokkur hemja að láta þetta standa í lögunum áfram. Þetta bitnar á þeim sem síst skyldi. Þetta ákvæði er til að sundra fjölskyldum. Það gerir það að verkum að börn eru send að heiman fyrr en annars hefði verið. Lífeyrisþegar sem hefðu stuðning af því að búa með börnum sínum áfram verða einir vegna þess að þeir tapa rúmum 19 þús. kr. við að leyfa barni sínu að búa heima. Auðvitað er fjárhagslegt hagræði af því fyrir samfélagið að leiðrétta þetta, laga og auka heimildina þannig að fólk geti búið með börnum sínum þótt það sé komið á lífeyri.

Einnig ætti að opna fyrir þá heimild í lögunum að menn geti fengið heimilisuppbótina greidda þegar ekki sé fjárhagslegt hagræði af sambýlinu. Við þekkjum fjölda dæma um það að fólk flytji til aldraðra foreldra sinna til að hugsa um þá. Núna í vikunni hringdi til mín kona sem tók upp heimili sitt og flutti til aldraðra tengdaforeldra sinna svo hún gæti sinnt þeim. Þeir voru algerlega ófærir um að búa einir, báðir orðnir sjúklingar. Við það lækkar greiðsla lífeyrisþegans, sérstaklega til einstæðinga. Þar fyrir utan er ekki einu sinni greitt fyrir þá aðstoð sem þetta fólk veitir sínum nánustu svo þeir geti verið eins lengi heima og unnt er. Því er orðið mjög mikilvægt að leiðrétta þetta. Ég gæti auðvitað tekið mörg fleiri dæmi sem lýsa því óréttlæti sem þarna viðgengst en mun koma að málinu í heilbr.- og trn. Þar get ég lagt fram dæmi um það hvernig þessum málum er háttað undir gildandi lögum.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta lengra, en að lokinni þessari umræðu um frv. legg ég til að því verði vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn.