Félagsleg aðstoð

Fimmtudaginn 12. mars 1998, kl. 12:51:53 (4645)

1998-03-12 12:51:53# 122. lþ. 86.9 fundur 352. mál: #A félagsleg aðstoð# frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 122. lþ.

[12:51]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. frsm. fyrir ágætt innlegg og raunar ágætis frv. Hún gat þess að kerfið væri ákaflega flókið og það er hárrétt. Kerfið er orðið feiknarlega flókið og það vill svo til að eftir því sem kerfin eru gerð flóknari til að ná fram réttlæti, þeim mun óréttlátari verða þau. Þeir sem virkilega þurfa á aðstoðinni að halda hafa ekki þekkingu til þess, og þannig hafa mörg af þessum kerfum sem við höfum byggt nánast orðið skattlagning á vanþekkingu. Þeir sem hafa þekkingu og hafa til þess endurskoðendur og góða sérfræðinga ná sínu fram.

Í greinargerðina með frv. vantaði ýmislegt. Það er t.d. talað um 11.737 kr. í barnabætur. Það á víst að vera barnalífeyrir. En síðan koma til, það gleymist og vonandi ekki af ásettu ráði, barnabætur samkvæmt skattalögunum sem fyrir einstæða foreldra eru, að mig minnir, 14 þús. kr. Síðan kemur til meðlag frá föður barnsins, eða móður ef öryrkinn er karlmaður, sem er um 12.500 kr. Þar eru komnar 27 þús. kr. til viðbótar.

Velflestir Íslendinga hafa verið í lífeyrissjóði og eru með örorkulífeyri þaðan. Það er orðið fátítt að fólk eigi engan rétt í lífeyrissjóði. Þá kemur til barnalífeyrir frá lífeyrissjóði um 6 þús. kr. Þarna vantar í greinargerðina 34--35 þús. kr. Það er umtalsvert og mikill ljóður á greinargerðinni að geta ekki um þessi atriði. Ef barn er undir 7 ára aldri fær það til viðbótar 4 þús. kr. í barnalífeyri samkvæmt skattalögunum.