Félagsleg aðstoð

Fimmtudaginn 12. mars 1998, kl. 12:59:28 (4649)

1998-03-12 12:59:28# 122. lþ. 86.9 fundur 352. mál: #A félagsleg aðstoð# frv., JóhS
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 122. lþ.

[12:59]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Þetta verður örstutt hjá mér. Ég þakka hv. 1. flm. þessa frv. fyrir að leggja þetta mál fram í þriðja sinn og ötula baráttu hennar fyrir því að bæta almannatryggingakerfið sem hún réttilega kom inn á að er orðið mjög götótt og þarf að breyta. Kerfið er flókið, fáir þekkja rétt sinn o.s. frv. Ég held að það mál sem hv. þm. mælti fyrir sé sýnilegasta ranglætið í þessu kerfi, og er þó af þó nokkru að taka, ásamt því að tekjur maka valda skerðingu á bótum lífeyrisþega. Öryrkjar hafa mikið látið heyra í sér út af þessum málum.

Það vill svo til að sami hv. þm., Ásta R. Jóhannesdóttir, sem hvað best þekkir tryggingalöggjöfina, hefur einnig lagt fram frv. um síðarnefnda atriðið. Þessi tvö atriði, herra forseti, eru mjög sýnileg og skera mjög í augu og þau þarf að leiðrétta. Þar fyrir utan þarf að ráðast í það verk að fara í heildarendurskoðun og einföldun á tryggingalöggjöfinni.

[13:00]

Ég hygg að það sé alveg rétt sem hv. þm. nefndi hér áðan, að ástæðan fyrir því hvernig komið er fyrir tryggingalöggjöfinni er að það vantar alltaf heildaryfirsýn þegar menn eru að ganga til verka í niðurskurði í ríkisstjórninni. Þetta eru handahófskenndar tillögur þar sem reynt er að finna einhverjar matarholur hér og þar og menn gera sér aldrei grein fyrir því fyrr en um seinan hvaða áhrif það getur haft.

Varðandi frv. sem við ræðum þá er þetta auðvitað öfugmæli sem er í þessari löggjöf, þ.e. að talað er um það að greiða einhleypingi sem nýtur óskertrar tekjutryggingar og sér einn um heimilisrekstur án þess að njóta fjárhagslegs hagræðis af sambýli eða samlögun við aðra um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað.

Hvað er fjárhagslegt hagræði? Er það fjárhagslegt hagræði ef barn innan við 20 ára aldur er í heimili með viðkomandi? Nei, auðvitað eru það útgjöld. Það hefur í för með sér útgjöld og meiri kostnað. Ef einhleypingur er með barn undir 20 ára aldri á heimilinu, þá veldur það auknum útgjöldum en ekki hagræðingu vegna þess að í flestum tilvikum er þessi unglingur undir tvítugu í skóla og það kallar á ýmis aukin útgjöld. Ég man að Félag einstæðra foreldra reiknaði út útgjöld einstæðra foreldra vegna unglinga. Mig minnir á sínum tíma og er nú orðið langt síðan, að það hafi verið um 500 þús. kr. sérstaklega á ári sem getur oft verið hátt í tekjur einstæðra foreldra. Svo er því haldið fram, sem ég segi að sé öfugmæli, að þetta hafi fjárhagslegt hagræði í för með sér.

Þetta er auðvitað sláandi dæmi sem hv. þm. nefnir um einstæða móður sem verður öryrki. Hún fær ekki heimilisuppbót þar sem hún býr með barni sínu. Öryrki sem eignast barn missir við það heimilisuppbótina og sérstöku heimilisuppbótina og örorkulífeyrir hans lækkar um 19 þúsund. Það ætti frekar að auka lífeyrinn þegar um aukin útgjöld er að ræða.

Ég skal ekki hafa fleiri orð um þetta en ég vil bara minna á það, og á það vel við í þessari umræðu, að í svari sem ég fékk á þessu þingi kom fram að 40% aldraðra og öryrkja eru með tekjur undir lágmarkslaunum. Þannig er að 10 þúsund af rúmlega 27 þúsund öldruðum eru með tekjur undir lágmarkslaunum, með tekjur á bilinu 40--60 þús. kr. Og af 7.900 öryrkjum búa 3.400 öryrkjar við það að vera með tekjur langt undir lágmarkslaunum, 40--60 þúsund á mánuði. Við erum því með það fyrir framan okkur að helmingur öryrkja í þjóðfélaginu þarf að búa við það að hafa sér til framfærslu 40--60 þús. kr. á mánuði. Svo eru þessar tekjur kannski skertar ef öryrkinn á maka sem er með einhverjar tekjur. Rúmlega þriðjungur aldraðra er með tekjur á bilinu 40--60 þúsund. Og við öryrkjann segjum við að ef hann er með barn á sínu heimili þá fái hann ekki heimilisuppbót eða frekari uppbót. Þetta eru því öfugmæli, herra forseti.

Ég vona það satt að segja, herra forseti, og það skulu vera mín lokaorð, að hv. þm. Ásta R. Jóhannesdóttir þurfi ekki að standa hér á næsta þingi í fjórða sinn og mæla fyrir þessu sjálfsagða réttlætismáli, heldur manni þingið sig upp í það að samþykkja þetta frv.