Ábyrgðarmenn

Fimmtudaginn 12. mars 1998, kl. 14:10:15 (4652)

1998-03-12 14:10:15# 122. lþ. 86.11 fundur 310. mál: #A ábyrgðarmenn# frv., PHB
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 122. lþ.

[14:10]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Hér er hreyft mjög þörfu máli. Við höfum öll væntanlega kynnst mjög slæmum málum sem upp hafa komið þegar fólk hefur skrifað upp á fyrir vini, vandamenn og jafnvel kunningja sem þeir rétt þekkja í sjón og af þessu hafa hlotist miklir harmleikir, persónulegir harmleikir, harmleikir fjölskyldna sem eru allt of algengir.

Fjármál Íslendinga hafa verið dálítið sérstök af því að bankar og lánastofnanir hafa í mjög miklum mæli gripið til þess að fá einstaklinga, sérstaklega þá sem eiga fasteignir, til þess að skrifa upp á skuldbindingar sem einhver þriðji aðili er að taka í bankanum. Þetta er eiginlega vegna þess hvað lánamarkaðurinn er vanþróaður og forn. Til þess að þurfa ekki að taka þátt í rekstrinum og skoða rekstur fyrirtækja, þá hafa menn tekið ábyrgð í steinsteypu og ábyrgð þriðja aðila. Þetta er ekkert annað en slæmur dómur um bankakerfið eins og það hefur verið. Oft og tíðum eru bankar að bjarga gjaldþroti sem þeir sjá fyrir sér með því að fá saklaust fólk úti í bæ til þess að skrifa upp á.

Fyrir um það bil 20 árum varaði ég eindregið við því að fenginni reynslu í bæklingi sem ég stóð að því að gefa út, varaði fólk við því að skrifa upp á og sagði fólki að ef einhver skrifaði upp á, þá skyldi hann reikna með því að greiða af viðkomandi láni og vera undir það búinn. Það felst nefnilega í því að skrifa upp á. Þetta er búið að vera mjög lengi við líði og þess vegna er þetta mál mjög þarft.

Herra forseti. Sérhver takmörkun á uppáskrift eða ábyrgðarveitingu rekst á það að við viljum að einstaklingurinn sé fjárhagslega sjálfstæður og við viljum ekki hafa forsjárhyggju og hafa vit fyrir honum eins og smábörnum heldur reiknum við með því að menn séu vel upplýstir. Þess vegna lenda menn strax í því ef þeir ætla að fara að takmarka uppáskriftir, að þeir eru um leið á einhvern máta að takmarka fjárhagslega ábyrgð einstaklinga. Þarna takast á sjónarmiðin um neytendavernd einstaklingsins og svo forsjárhyggjuna þar sem stóri bróðir er að hafa vit fyrir einstaklingnum og passa að hann geri ekkert af sér. Þetta er því mjög vandmeðfarið.

Þetta frv. sem hér liggur fyrir fellur nokkuð að þeim hugmyndum sem ég hef haft um að hægt sé að taka upp án þess að skerða fjárhagslegt sjálfstæði einstaklinganna. Það er fyrst og fremst fólgið í því að skylda menn til upplýsinga, þ.e. skylda lánastofnunina til að upplýsa manninn um allar skuldir eins og kemur fram í 5. gr. Ég vil ganga öllu lengra. Ég vil skylda alla aðila sem telja sig eiga ábyrgð hjá einhverjum að upplýsa hann um það einu sinni á ári. Það mundi laga stöðuna umtalsvert því að margur Íslendingurinn yrði hissa þegar hann kemst að því að hann er í ábyrgð t.d. hjá Lánasjóði ísl. námsmanna fyrir einhvern námsmann sem sat við hliðina á honum í kennslustofunni uppi í háskóla þar sem nemendur hafa verið að skiptast á ábyrgðum þótt þeir þekktu varla hinn aðilann. Ég er viss um að margur yrði hissa ef öllum lánastofnunum yrði gert skylt að tilkynna ábyrgðir.

Þetta yrði náttúrlega töluverð vinna hjá lánastofnunum sem eru með þessar ábyrgðir en um leið er mjög þarft að fá á hreint í hverju ábyrgðirnar felast því að oft og tíðum er um að ræða miklar ábyrgðir þvers og kruss.

Herra forseti. Í 4. gr., sem er ein veigamesta greinin, er að mínu mati gengið fulllangt og sérstaklega þar sem stendur að ekki megi gera aðför að fasteign þar sem ábyrgðarmaður býr eða fjölskylda hans. Þetta getur leitt til þess að fólk víkur sér auðveldlega undan ábyrgðinni með því að kaupa nógu dýra eign og flytja í hana þannig að menn geta þannig komið sér undan þessu. Ekkert í greininni kveður á um þetta. Þeir geta komið eignum sínum yfir á eina íbúðareign sem er t.d. heljarinnar einbýlishús og þannig komið sér hjá því að borga skuldina.

Síðan sé ég heldur ekki muninn á því að ef fjárráða maður skrifar upp á skuldabréf með veði í eigninni sinni þá eigi hann að vera ábyrgur gerða sinna en ef hann skrifar upp á skuldabréf fyrir vin sinn eða dóttur sína t.d., þá eigi hann ekki að vera ábyrgur. Ég vil því að þetta ákvæði verði skoðað mjög nákvæmlega til að ekki fari svo að ráðin verði tekin af fólki.

[14:15]

Síðan sé ég heldur ekki muninn á því að ef fjárráða maður skrifar upp á skuldabréf með veði í eigninni sinni eigi þá að vera ábyrgur gerða sinna en ef hann skrifar upp á skuldabréf fyrir vin sinn eða dóttur sína eða eitthvað slíkt, þá eigi hann ekki að vera ábyrgur. Ég vil þess vegna að þetta ákvæði verði skoðað mjög nákvæmlega til þess að völd verði ekki tekin af fólki.

Hv. þm. gat um samkomulag sem bankarnir hafa gert. Þegar þetta mál kemur til hv. efh.- og viðskn. þar sem ég á sæti, þá vil ég að það samkomulag verði skoðað mjög nákvæmlega og grannt hvort það nær því sem menn vilja ná eða hvort eitthvað vanti upp á og hvort þörf sé á þessari lagasetningu. En ég vil líka ganga lengra en kemur fram í 5. gr. um að upplýsa eigi um skuldir hjá viðkomandi lánastofnun. Ég vil heldur að upplýst verði hjá nánast öllum lánastofnunum. Að sá sem óskar eftir uppáskrift gefi um leið heimild til að upplýsa um stöðu sína hjá þeim lánastofnunum sem ábyrgðarmaður óskar eftir.

Að lokum, herra forseti, vil ég segja að þetta er mjög þarft mál og ég vænti þess að það verði skoðað mjög gaumgæfilega í hv. efh.- og viðskn. og ég mun ekki liggja á liði mínu að taka á þessu máli. Þetta er mjög slæmt mál og er svartur blettur á efnahagslífinu. Þetta er oft og tíðum óþarfi. Það á ekki að vera svo að verið sé að fá saklaust fólk til að skrifa upp á og leiða það í rauninni í gildru. Ég vil gjarnan leggja mitt af mörkum til að hægt sé að minnka þetta og við komum upp heilbrigðum viðskiptaháttum.