Ábyrgðarmenn

Fimmtudaginn 12. mars 1998, kl. 14:17:24 (4653)

1998-03-12 14:17:24# 122. lþ. 86.11 fundur 310. mál: #A ábyrgðarmenn# frv., GE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 122. lþ.

[14:17]

Gísli S. Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég sé ástæðu til að hafa nokkur orð um þetta mál í örstuttu andsvari. Ég get auðvitað tekið undir orð hv. síðasta ræðumanns að nauðsynlegt er að taka alvarlega á þessum málum. Það sem ég vildi koma hér að og fá svör við hjá hv. síðasta ræðumanni er hvort við ættum ekki að leggjast á eitt um það að koma á fræðslu í skólum og í þjóðfélaginu um hvað það þýðir þegar einstaklingar skrifa upp á og veita ábyrgð og koma sér kannski á kaldan klaka í langan tíma. Þetta hefur gerst þannig árum saman að bankar og lánastofnanir, ef þeir telja sig hafa fengið ábyrgðaraðila til að láta nafn sitt af hendi, vitandi það að þar sé einhverja fjármuni að hafa, hafa ekki skoðað nafn eða greiðslugetu lántakanda. Þess vegna finnst mér ástæða til að við skoðum það um leið og ég vil segja að það mál sem við erum hér að ræða er eitthvert merkasta mál af þessu tagi, vil ég segja, sem hefur komið fram á þingi í langan tíma. Ég vil þakka hv. 1. flm. fyrir að leggja þá mikla vinnu sem greinilega er í þetta mál. Ég tel að leggja eigi mikla áherslu á að málið fái framgang og það nú í vetur.

Og þessi aðgerð um að breyta til í bönkunum er --- ja, ég vil kalla hana málamyndaaðgerð. En ég kalla eftir því hvort hv. síðasti ræðumaður er ekki sammála mér um að á þessum málum þurfi að taka og taka þau inn í menntakerfið.