Ábyrgðarmenn

Fimmtudaginn 12. mars 1998, kl. 14:54:31 (4662)

1998-03-12 14:54:31# 122. lþ. 86.11 fundur 310. mál: #A ábyrgðarmenn# frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 122. lþ.

[14:54]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að draga í efa í hvaða stöðu skilningarvit hv. þm. Péturs Blöndals eru. En öll hans stutta ræða sem var kjarnyrt og mergjuð byggðist á einum grundvallarmisskilningi og hann er þessi: Ég sagði réttilega að því er ég hygg að Sjálfstfl. bæri mikla ábyrgð á því í hvaða óefni bankakerfið og nákvæmlega þetta mál er komið. En ég tók það sérstaklega fram að þessi hv. þm., Pétur Blöndal, sem er einhver mesta mannvitsbrekka sem uppi er í þinginu að því er varðar peningamál, ber enga ábyrgð á því, enga ábyrgð. Ég sagði það sérstaklega. En það getur vel verið að hv. þm. Pétur Blöndal hafi verið svo miður sín að tilheyra flokki sem ber þessa miklu sekt að hann hafi ekki hlustað á mál mitt til enda. Mér þykir afskaplega miður ef ég hef truflað og raskað sálarró hv. þm. en þessar ásakanir sem hann gerði mér upp eru einfaldlega tilhæfulausar. Ég held að hv. þm. beri ekki ábyrgð á þessu. Hann hefur öðrum fremur, eins og ég sagði, komið að því að gagnrýna bankana og leiða þennan skelfilega stjórnmálaflokk sem hann tilheyrir til betri vegar í þessum efnum. Hann ætti hins vegar að skipta um flokk.