Slit á Eignarhaldsfélaginu Brunabótafélag Íslands

Fimmtudaginn 12. mars 1998, kl. 15:31:21 (4669)

1998-03-12 15:31:21# 122. lþ. 86.14 fundur 438. mál: #A slit á Eignarhaldsfélaginu Brunabótafélag Íslands# frv., LB
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 122. lþ.

[15:31]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Ég kveð mér hljóðs í þessu máli einkanlega sökum þess að ég á dálítið erfitt með að átta mig á hvað flutningsmenn frv. eru að fara. Ég hef einhvern veginn á tilfinningunni eftir að hafa skoðað þetta frv. til laga um eignarhaldsfélagið að það sé líklega fjórum árum of seint fram borið. Ef ég skildi hv. framsögumann rétt áðan, þá hefur hæstv. viðskrh. látið vinna greinargerð um lögmæti þessa frv. og um lögmæti þess að slíta félaginu með þessum hætti. (EOK: Bæði um lögmæti þessa frv. svo og hvort gengið hafi verið á rétt eiganda Brunabótafélagsins með setningu laga nr. 68/1994.) Virðulegi forseti. Það er ætlast til að menn tali úr ræðustól en ekki úr sæti en það breytir ekki neinu.

Ég hef þá skilið hv. framsögumann rétt að nauðsynlegt hafi verið að vinna greinargerð um lögmæti þessa frv. m.a. ásamt fleiru og hvort lögmætt sé að slíta félaginu með þessu móti. Það eitt út af fyrir sig hlýtur að teljast dálítið merkileg staðreynd að málum sé svona fyrir komið.

Ástæða þess, virðulegi forseti, að ég kveð mér hljóðs í þessu máli er eins og ég sagði áðan að ég átta mig ekki alveg á því hvað flutningsmenn eru að fara. Í fyrsta lagi er það mín skoðun að frv. er sennilega fjórum árum of seint fram komið vegna þess að árið 1994 var margumræddu gagnkvæmu vátryggingafélagi breytt í eignarhaldsfélag með lögum. Með lögum nr. 68/1994 var Brunabótafélagi Íslands, gagnkvæmu vátryggingafélagi breytt í eignarhaldsfélag. Það segir í 1. gr. þeirra laga. Í því ljósi hefur löggjafinn tekið um það ákvörðun að breyta gagnkvæmu tryggingafélagi í eignarhaldsfélag. Þess vegna átta ég mig ekki alveg á því af hverju öll röksemdafærslan felst í því hvernig gagnkvæmu tryggingafélagi er slitið. 1. gr. þessara laga hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Með lögum þessum er Brunabótafélagi Íslands, sem starfað hefur sem gagnkvæmt vátryggingafélag síðan 1. janúar 1917, breytt í eignarhaldsfélag og hættir félagið jafnframt beinni vátryggingastarfsemi.``

Síðan segir í 3. gr. sömu laga, virðulegi forseti, þar sem fjallað er um tilgang og starfssvið félagsins, með leyfi forseta:

,,að taka þátt í vátryggingastarfsemi með eignaraðild að vátryggingafélögum,

að stunda lánastarfsemi, m.a. til verklegra framkvæmda sveitarfélaga eftir því sem ástæður félagsins leyfa, svo og rekstur fasteigna,

að stuðla að þróun vátrygginga með fræðslu og menntun á því sviði og að taka þátt í eða veita styrki til slíkrar starfsemi.``

Þessi kafli verður ekki skilinn öðruvísi en svo að hinu gagnkvæma vátryggingafélagi hafi verið breytt í eignarhaldsfélag með nákvæmlega þessum tilgangi. Síðan er í V. kafla farið yfir það hvernig þessu eignarhaldsfélagi skuli slitið og þar er kveðið á um ákveðna aðferðafræði sem er ástæðulaust að fara yfir. Hana má finna í þessum lögum.

Þá er rétt að snúa sér að því frv. sem hér liggur fyrir og langar mig þá að vitna í greinargerðina. Þar segir:

,,Samkvæmt 3. gr. laga nr. 68/1994 er einn megintilgangur Eignarhaldsfélagsins Brunabótafélag Íslands að taka þátt í vátryggingastarfsemi með eignaraðild að vátryggingafélögum. Með nýlegri sölu á hlut sínum í Vátryggingafélagi Íslands hf. til Landsbankans hefur félagið snúið frá þessum lögbundna aðaltilgangi sínum. Því er hér lagt til að félagið verði gert upp og eignum þess, umfram skuldir, skipt á milli eigenda.``

Ég skil þetta sem meginröksemdafærsluna fyrir því að slíta skuli eignarhaldsfélaginu.

Ég dreg í efa í ljósi laga nr. 68/1994 að hægt sé að skilgreina hlutina með þeim hætti að hér sé um megintilgang að ræða og um leið og hann er ekki lengur til staðar, ef hann er ekki lengur til staðar, þá beri að slíta félaginu þrátt fyrir að í lögum sé kveðið skýrt á um hvernig félaginu skuli slitið því að hér er talað í a.m.k. þremur töluliðum um hvað félaginu beri að gera. Og ef draga megi í efa að 1. tölul. í 3. gr., ef svo má að orði komast, sé til staðar, þá beri að slíta félaginu.

Ég veit ekki betur, virðulegi forseti, en í umfjöllun um þessi kaup fyrir ári eða svo hafi m.a. komið fram að kaupsamningur sá sem gerður var milli Landsbankans, --- virðulegi forseti, hvað hef ég langan tíma?

(Forseti (StB): Hv. þm. hefur 15 mínútur til umráða.)

Ég var að tala um það sem fram kemur í greinargerð með frv. og ég álít sem svo að sé meginforsendan fyrir þessu frv. Ég hef verið að reyna að bera þetta saman við 3. gr. núgildandi laga og fæ ekki betur séð en megintilgangur með tilvist félagsins sé a.m.k. tvíþættur eftir til viðbótar þannig að bara í því ljósi einu verð ég að segja alveg eins og er að þetta kemur mér á óvart.

Enn fremur vitnaði ég áðan til blaðaskrifa, blaðaummæla og fjölmiðlaumræðu almennt þegar þessi kaup áttu sér stað. Þar kom fram að Landsbankinn ætlaði að greiða þennan hlut á nokkuð löngum tíma. Gott ef það var ekki á tveimur eða þremur árum. Hv. flm. getur kannski upplýst mig um það á eftir en það er a.m.k. ljóst að sá tími er ekki liðinn þannig að það má draga mjög í efa að Eignarhaldsfélagið Brunabótafélag Íslands hafi ekki eignaraðild að vátryggingafélagi vegna þess að félagið á enn þá og hefur ekki fengið greitt samkvæmt kaupsamningi hlut í VÍS. Ég held því að draga megi þessa fullyrðingu mjög í efa.

Enn fremur vil ég vitna til þess, virðulegi forseti, sem ég sagði áðan að það er tvíþættur megintilgangur til viðbótar. Þess vegna vil ég ítreka það sem ég sagði í upphafi máls míns. Ég átta mig satt best að segja ekki alveg á því hvað flutningsmenn eru að fara. Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson flutti ágæta ræðu um eignarrétt og nauðsyn þess að hver fái það sem honum ber o.s.frv. og ég get tekið undir það. En ég sé ekki betur þegar maður ber saman það frv. sem hér liggur fyrir og þau lög sem nú gilda en að einhvers staðar séu einhverjir á villigötum. Ég fæ ekki betur séð. En ég vænti þess að hv. þm. leiðrétti mig þá ef ég er á villigötum. A.m.k. er ég að gera heiðarlega tilraun til að leiðrétta hv. þm. því að þetta frv. hefði þurft að koma fram 1994. Ég held að það sé alveg kristaltært.

Ég get vel ímyndað mér að á árinu 1994 --- þá sat ég reyndar ekki á þingi --- hafi verið uppi umræður og efasemdir um réttmæti þeirra laga sem nú eru í gildi, en löggjafinn samþykkti þetta og ég heyrði ekki betur en hv. framsögumaður hafi sagt áðan að hann drægi ekki réttmæti þeirra í efa, það hefði mátt setja þau. Ég skildi hann a.m.k. þannig og taki ég hans orð og geri þau að mínum, þá er mér enn frekar fyrirmunað að skilja tilvist þessa frv.

Ég ætla ekki að gera mönnum upp neinar hvatir í þeim efnum af hverju menn eru að leggja þetta fram, af hverju hv. þm. virða ekki einungis það sem segir í 1. mgr. 16. gr. V. kafla núgildandi laga, með leyfi forseta:

,,Ákvörðun um slit á félaginu skal tekin á lögmætum aðalfundi eða aukafundi fulltrúaráðsins og þarf atkvæði minnst 3/4 fulltrúaráðsmanna til að slík samþykkt sé gild.

Ákveði fulltrúaráð að slíta félaginu skal fyrst inna af hendi allar skuldbindingar þess hverju nafni sem nefnast eða setja tryggingar fyrir greiðslu þeirra. Síðan skal greiða þeim sem eiga réttindi hjá félaginu á grundvelli 5. gr. en það sem eftir er rennur til sameignarsjóðs. Taki annað félag ekki við hlutverki eignarhaldsfélagsins við slit þess skal hrein eign sameignarsjóðsins renna til þeirra sveitarfélaga sem eiga aðild að fulltrúaráðinu í hlutfalli við brunatryggingariðgjöld fasteigna samkvæmt samningum sveitarfélaganna á vátryggingarárinu 15. október 1992 til 14. október 1993.``

Hér segir reyndar sérstaklega um það hvort rétt eða lögmætt hafi verið að setja þessi lög, í 4. tölul. sem er fskj. með því frv. sem við ræðum hér:

,,Með hliðsjón af því hversu óvirkt og óvisst hugsanlegt tilkall félagsmanna BÍ er`` --- hér er verið að vísa til greinargerðar sem er lögð fram áður en lögin 1994 eru upp sett --- ,,til eigna BÍ verður að telja líkur á að löggjafinn geti án þess að það fari í bága við ákvæði 67. gr. stjórnarskrárinnar mælt fyrir um ráðstöfun á eignum BÍ í þágu þeirra markmiða, sem lög um BÍ hafa verið byggð á, enda séu uppfyllt ýmis almenn skilyrði slíkrar lagasetningar.``

Í mínum huga stendur þetta mál þannig að á árinu 1994 var tekin um það ákvörðun af löggjafanum að breyta gagnkvæmu tryggingafélagi í eignarhaldsfélag. Það eignarhaldsfélag hefur ákveðinn tilgang eins og fram kemur í 3. gr. Í 3. gr. kemur ekkert fram um það hver sé megintilgangur eða aðaltilgangur eða neitt í þá veruna. Hér er aðeins vitnað til þess hver tilgangur starfssviðs félagsins er einkum sem meira að segja bendir til þess að hér sé ekki um tæmandi talningu á tilgangi félagsins að ræða. Það bendir a.m.k. til þess. Þess vegna, virðulegi forseti, verð ég að fá betri skýringu á því af hverju þetta frv. er fram komið vegna þess að röksemdafærslan virðist mér byggja á staðreyndum eða stöðu sem uppi var fyrir setningu þessara laga. Ég fæ það ekki betur skilið en svo.

Ég ætla ekki að orðlengja þetta meira, virðulegi forseti, en ég vænti þess að hv. framsögumaður fjalli um þetta hér á eftir og kannski takist að skýra fyrir mér það sem ég hef alla vega eins langt og það nær ekki skilið við samlestur á þessu frv. og þeim lögum sem nú eru í gildi. Af þeim samlestri hefur mér ekki orðið ljóst hvers vegna frv. af þessum toga er sett fram. Ég hefði skilið það ef það hefði komið fram á árinu 1993. Þá hefði ég talið að þetta frv. væri ofur eðlilegt og kannski má segja sem svo að það hefði verið skynsamlegasta niðurstaðan 1993. En löggjafinn fór aðra leið. Hann valdi þá leið sem birtist í lögum nr. 68/1994 og með hliðsjón af þeirri staðreynd er þeim sem hér stendur gersamlega fyrirmunað að skilja af hverju þetta frv. er flutt.