Slit á Eignarhaldsfélaginu Brunabótafélag Íslands

Fimmtudaginn 12. mars 1998, kl. 15:48:57 (4671)

1998-03-12 15:48:57# 122. lþ. 86.14 fundur 438. mál: #A slit á Eignarhaldsfélaginu Brunabótafélag Íslands# frv., LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 122. lþ.

[15:48]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil segja það strax sem mína skoðun að ég er alveg sannfærður um að löggjafinn getur slitið félaginu með lögum enda snerist gagnrýni mín ekki um það. Hún laut fyrst og fremst að því að frv. gerir ráð fyrir að slíta félagi sem ekki er lengur til vegna þess að árið 1994 var þessu margumrædda gagnkvæma tryggingarfélagi breytt í annars konar félag með annars konar tilgang. Það er nákvæmlega kjarni málsins. Sá tilgangur kemur fram í 3. gr. þar sem segir: ,,Tilgangur og starfssvið félagsins er einkum:`` sem ég hef túlkað sem svo að þar sé ekki um tæmandi talningu að ræða. Þess vegna, virðulegi forseti, hef ég verið að velta því fyrir mér af hvaða hvötum eða hvers vegna menn koma fram með frv. af þessu tagi með röksemdafærslu sem hreinlega stenst ekki núgildandi lög.

Hér er verið að slíta félagi og vitnað til tilvistar þess fyrir fyrir 1994. Þetta varð allt annað félag eftir 1994 með allt aðra starfsemi eins og fram kemur í 3. gr., allt aðra starfsemi heldur en fyrir 1994. Þess vegna, virðulegi forseti, set ég það fram sem mína skoðun að frv. byggi á staðreyndum eða aðstæðum sem voru til staðar fyrir 1994 en eru í dag, með leyfi forseta, eins og út úr kú. Þau eru ekki í neinu samræmi við þá stöðu sem nú er uppi. Hér er um að ræða eignarhaldsfélag með ákveðinn tilgang. Það hefur alls ekki verið dregið í efa að félagið uppfylli a.m.k. tvo þætti þess megintilgangs sem tekinn er fram í lögunum. Um þriðja tilganginn má deila sökum þess að félagið á enn þá, eftir því sem ég best veit, eignarhlut í vátryggingarfélaginu því að það tók einhver ár að gera þetta upp. Þess vegna segi ég, virðulegi forseti: Ég er engu nær í raun og veru af hverju þetta frv. kemur fram.