Slit á Eignarhaldsfélaginu Brunabótafélag Íslands

Fimmtudaginn 12. mars 1998, kl. 15:53:22 (4673)

1998-03-12 15:53:22# 122. lþ. 86.14 fundur 438. mál: #A slit á Eignarhaldsfélaginu Brunabótafélag Íslands# frv., LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 122. lþ.

[15:53]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er farinn að fá á tilfinninguna að ég sé farinn að endurtaka mig nokkrum sinnum. Ég vil aðeins ítreka það sem ég sagði hér áðan að þessu gagnkvæma vátryggingafélagi var breytt í eignarhaldsfélag 1994. Samkvæmt þessum lögum hefur það félag ákveðinn tilgang eins og fram kemur í 3. gr. Það er ekki deilt um hverjir eru eigendur. Árið 1994 var ákveðið hvernig þessu félagi skuli slitið. Það kemur fram í þessum lögum.

Í greinargerð með frv. er aðeins vitnað til einhvers eins megin- eða aðaltilgangs. Það er einfaldlega ekki rétt, virðulegi forseti, vegna þess að lögin kveða mjög skýrt á um það hver sé tilgangur félagsins. Það hefur enginn deilt um það að félagið uppfyllir a.m.k. tvo af þessum þremur þáttum og ég fæ ekki betur séð en það uppfylli líka þann þriðja. Þess vegna vitna ég til rökstuðningsins í greinargerðinni. Hann er ekki réttur. Ég vil segja það, virðulegi forseti. Hann er ekki réttur. Löggjafinn hefur ákveðið hvernig þessu félagi skuli slitið.

Virðulegi forseti. Á þeim sat hv. þm. Einar K. Guðfinnsson hér á þingi. Ég skal ekki um það segja hvort hann hafi greitt atkvæði í þessu máli. Hv. þm. Árni Ragnar Árnason sat þá á þingi. Hafi þeir á þeim tíma greitt því atkvæði að þetta félag skyldi verða stofnað og því síðan slitið með ákveðnum hætti, þá er mér alveg fyrirmunað að skilja af hverju þeir breyta svona gersamlega um skoðun núna. Ég held að það þurfi miklu meiri rökstuðning en fram kemur í greinargerðinni og eftir þeim rökstuðningi er ég að kalla. Því miður hefur hann ekki komið fram en kannski á hv. flm. á eitthvað uppi í erminni sem hann hefur legið á og kemur kannski ekki fram fyrr en síðar í umræðunni og það er þá vel.