Slit á Eignarhaldsfélaginu Brunabótafélag Íslands

Fimmtudaginn 12. mars 1998, kl. 15:55:39 (4674)

1998-03-12 15:55:39# 122. lþ. 86.14 fundur 438. mál: #A slit á Eignarhaldsfélaginu Brunabótafélag Íslands# frv., EKG
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 122. lþ.

[15:55]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Ég þarf ekki að hafa mjög mörg orð um þetta frv. Ég fjallaði nokkuð um það þegar það á sínum tíma var lagt fram. Í raun og veru er hér um að ræða ákaflega einfalt mál. Það er hins vegar þannig að menn hafa kosið að þyrla í kringum það talsverðu moldviðri, séð sér hagsmuni í því til þess fyrst og fremst að reyna að gera okkur flutningsmenn tortryggilega og þetta mál tortryggilegt, en til þess er auðvitað engin ástæða. Þetta er eins og ég sagði áðan tiltölulega einfalt mál.

Það er í fyrsta lagi þetta: Hver á þetta félag? Látið hefur verið í veðri vaka í umræðunni upp á síðkastið að þetta sé félag sveitarfélaganna, að sveitarfélögin í landinu eigi Eignarhaldsfélagið Brunabótafélag Íslands og þess vegna séu allar hugmyndir um að slíta félaginu og afhenda eignir þess sameigendum félagsins, árás á sveitarfélögin. Þetta er alger grundvallarmisskilningur.

Í lögunum um Eignarhaldsfélagið Brunabótafélag Íslands er mjög skýrt tekið fram hverjir eru eigendur þess. Það eru ekki sveitarfélögin sérstaklega, það er ekki ríkið sérstaklega, það eru tryggingatakarnir eins og kemur hér glögglega fram í 5. gr. laganna. Stundum ríkir óvissa um það hverjir eigi einstök fyrirtæki og félög. Það á við um ýmislegt í okkar þjóðfélagi. En það á ekki við um Eignarhaldsfélagið Brunabótafélag Íslands. Það er engin óvissa um það.

Hins vegar er ákaflega sérkennilegt atriði í V. kafla laganna sem fjallar um breytingar, félagsslit og brottfall réttinda þar sem segir í 15. gr., með leyfi forseta :

,,Við andlát sameiganda og þegar lögaðili, sem er sameigandi, er ekki lengur skráður sem lögaðili falla eignarréttindi sameiganda skv. 5. gr. niður og eignarréttindin falla þá til sameignarsjóðs félagsins.``

Þetta þýðir á mæltu máli að þegar menn fara inn á hinar eilífu veiðilendur, brottkallast af þessum heimi, þá eignast sveitarfélögin hlutinn í Brunabótafélaginu. Þetta er dálítið skrýtið í ljósi þess að almenna reglan er sú að þegar menn falla frá, þá ráðstafa þeir sínum eignarhlut sjálfir og láta hann falla til þeirra sem þeir kjósa að fái arfinn. En í þessu tilviki er löggjöfin þannig að gert er ráð fyrir því að smám saman safnist hinar efnislegu eigur manna í þessu félagi til sameignarsjóðsins sem varðveittur er af sveitarfélögunum. Þannig mun það auðvitað gerast smám saman að sveitarfélögin eignast æ stærri hluta af þessu félagi.

Ég vil aðeins víkja að því að það hefur vakið mikla athygli að tekin var um það ákvörðun á fulltrúaráðsfundi Brunabótafélagsins að greiða út 100 millj. kr. til sveitarfélaganna. Þetta er athyglisvert í ljósi þess að sveitarstjórnarmenn sem ég hef rætt við minnast þess ekki að hafa fengið slíkar arðgreiðslur fyrr frá þessu félagi. Ég hef sagt við þessa ágætu félaga mína sem hafa gagnrýnt það að við skulum vera að leggja fram frv. af þessu taginu að það hefur þó a.m.k. haft þau áhrif að 100 millj. kr. liggja núna á bankabókum og tékkheftum sveitarfélaganna sem ekki voru þar til staðar áður. Það var ekki fyrr en þetta frv. kom fram og aðstæður breyttust, að þessar greiðslur voru inntar af hendi. Með öðrum orðum, þessi eignarhlutur upp á 3,5 milljarða kr. gaf ekki arð þó að vissulega hafi hann ávaxtast bærilega að því er manni sýnist í þessari fjárfestingu í þessu tiltekna tryggingafélagi, fyrst Brunabótafélagi Íslands og síðan sem þátttakandi í Vátryggingafélagi Íslands. Út af fyrir sig held ég því að það sé talsverður árangur fyrir sveitarfélögin í landinu að þetta frv. sé komið fram og að þessar greiðslur hafi þá verið inntar af hendi.

[16:00]

Hér var varpað fram þeirri spurningu hvort í raun og veru hafi átt sér stað sala á þessu félagi að fullu, sala á eignarhlut Brunabótafélagsins í VÍS, og vísað til þess að mjög undarlegur gjörningur fór fram á milli kaupandans, þ.e. Landsbankans, og seljandans. Það var gert, eins og menn vita, til þess að Landsbankinn gæti uppfyllt eiginfjárkröfur þær sem alþjóðlegar skuldbindingar krefjast, CAD-skyldan og annað þess háttar. Þá var búið til þetta greiðsluform sem kallað hefur verið upp frá því VÍS-raðgreiðslur og fela það í sér að Landsbankinn borgar smám saman og eignast þannig smám saman eignarhlutinn í Vátryggingafélaginu. En allir vita að í raun og veru hefur salan farið fram. Þetta voru bara bókhaldsæfingar til þess að komast fram hjá því að Landsbanki Íslands hafði það veika stöðu að hann mátti ekki samkvæmt bókhaldsreglum færa kaupin á félaginu að fullu og það er þess vegna sem þetta gerist, það er ekki flóknara en svo. Við skulum því ekki vera að horfa fram hjá því að auðvitað er það svo að með því að salan hefur farið fram er nú um stundir ekki lengur til staðar það sem talað er um að hafi verið aðalstarfssvið Brunabótafélagsins, þ.e. að taka þátt í tryggingastarfsemi.

Ég skal að vísu viðurkenna að auðvitað er mjög merkilegt viðfangsefni sem kemur fram í þriðja lið þegar lesið er yfir hlutverk og tilgang þessa félags og það er að stuðla að þróun vátrygginga með fræðslu og menntun á því sviði og taka þátt í eða veita styrki til slíkrar starfsemi. Ef við höfum það í huga að um er að ræða 3.500 millj. kr. sem menn hafa til þess að styrkja efnilega námsmenn getur maður séð það fyrir að þessi þáttur menntunar í landinu á sér mikla framtíð --- og hér gengur fram fyrir mig sá eini úr þinginu, hv. þm. Pétur H. Blöndal, sem er menntaður á þessu sviði. Ég veit að það hefði náttúrlega verið mikill hvalreki fyrir hv. þm. á sínum tíma ef hann hefði getað notið fyrirgreiðslu úr þessum myndarlega námsstyrkjasjóði sem er í uppsiglingu upp á 3.500 millj. kr.

Ég vil hins vegar segja það út af því sem kom fram hjá hv. 6. þm. Suðurl. að ég tel að í raun og veru væri hægt að segja sem svo að það hefði verið heppilegt að frv. hefði komið fram fyrr því að þetta er prýðilegt frv. Hins vegar tel ég fráleitt að ætla að það sé of seint fram komið og ég er ekki í nokkrum vafa um að í fyrsta lagi hefur þingið heimild til þess að taka ákvörðun eins og þá sem verið er að leggja til. Í öðru lagi er hitt að það er auðvitað svo að þegar félagið varð eignarhaldsfélag breyttist ekki neitt með eigendur. Þetta er eingöngu tilraun til þess að færa lögmætum eigendum Brunabótafélags Íslands eignarhlut sinn þannig að það gerist ekki samkvæmt gildandi lögum að smám saman tæmist þessi eign til annarra aðila.

Virðulegi forseti. Ég sagði áðan að ég sæi ekki tilgang í því að ræða málið mjög ítarlega. Ég tel að efnislega séu þessir þættir ákaflega skýrir. Ég ítreka að ég hef mjög mikla trú og traust á þeim mönnum sem halda um stjórnartauma Eignarhaldsfélagsins Brunabótafélags Íslands. Ég held að þetta séu menn sem eru miklum vanda vaxnir og þeim vanda vaxnir að stjórna félagi. Það snýst ekkert um það. Frv. snýst heldur ekki um það hvort sveitarfélögin séu vel að því komin að eiga peninga. Málið er ekki um það. Það snýst einfaldlega um það eins og hér er sagt að nú þegar það liggur fyrir að það sem hefur verið megintilgangur félagsins, þ.e. að taka þátt í vátryggingastarfsemi, fyrst beint og síðan með eignaraðild, er horfið í raun og veru þegar ekki er verið að sinna því meginhlutverki lengur. Þá er ástæða til þess að flytja frv. af þessu taginu eins og verið er að gera.