Slit á Eignarhaldsfélaginu Brunabótafélag Íslands

Fimmtudaginn 12. mars 1998, kl. 16:14:39 (4679)

1998-03-12 16:14:39# 122. lþ. 86.14 fundur 438. mál: #A slit á Eignarhaldsfélaginu Brunabótafélag Íslands# frv., PHB
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 122. lþ.

[16:14]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Í ræðu hv. flm., Einars Odds Kristjánssonar, kom margt fram sem ég get tekið undir og lýsti málinu nokkuð vel en það vantaði kannski nokkuð og þar er ég með skoðun sem gengur öllu lengra en það sem hv. þm. gat um.

Það er í fyrsta lagi að skv. 15. gr. gildandi laga stendur svo, með leyfi hæstv. forseta:

[16:15]

,,Við andlát sameiganda og þegar lögaðili, sem er sameigandi, er ekki lengur skráður sem lögaðili falla eignarréttindi sameiganda skv. 5. gr. niður og eignarréttindin falla þá til sameignarsjóðs félagsins.``

Þetta þýðir, herra forseti, að sameignarsjóður félagsins erfir fólkið og það leiðir hugann að því hvers lags eignir það eru sem fólk lætur eftir sig. Í stjórnarskránni er ekki talað um fyrstu eða annarrar gráðu eign, það er bara talað um eign og eignarréttindi og stjórnarskráin stendur vörð um eignarréttinn. Hér er allt í einu talað um það að einhverjir aðrir en lögbundnir erfingjar erfi fólk, þ.e. sameignarsjóður félagsins. Að þessu leyti tel ég að þessi lagasetning frá 1994 hafi ekki staðist stjórnarskrána. Það er mín skoðun. Ef hér hefði verið stjórnlagadómstóll þá hefði hann ekki samþykkt þessa lagasetningu vegna þess að í henni er talað um eignir og að einhverjir eigi þetta félag, en þegar þeir falla frá þá erfi þá einhverjir aðrir en lögvarðir erfingjar. Þess vegna tel ég að þessi lagasetning frá 1994 sé ákaflega vafasöm og byggi á hæpnum grunni, enda kom fram í ræðu hv. framsögumanns að menn könnuðu hvort ríkissjóður gæti átt þessa peninga, menn könnuðu líka hvort sveitarfélögin gætu átt þessa peninga, en í ljós kom að hvorki sveitarfélögin né ríkissjóður áttu þessa peninga. Það voru hinir tryggðu sem áttu peningana vegna þess að þeir höfðu borgað of hátt iðgjald inn í félag sem er gagnkvæmt tryggingafélag og þess vegna áttu þeir eignina sem myndaðist vegna of hárra iðgjalda. Það er eðli gagnkvæmra tryggingafélaga. Sveitarfélögin eiga að sjálfsögðu í þessu félagi sem vátryggingatakar eins og aðrir.

Herra forseti. Í þessu dæmi hér kristallast það sem ég hef verið að benda á aftur og aftur, þ.e. að mikill munur er á þjóð og ríki. Það er mikill munur á íbúum í sveitarfélagi og sveitarfélaginu sjálfu. Hér kemur nefnilega í ljós að eigendur Eignarhaldsfélagsins Brunabótafélags Íslands eru íbúar í sveitarfélögum, fyrirtæki í sveitarfélögum og í litlum mæli sveitarfélögin sjálf. En sveitarfélögin ætla sér að hirða þennan eignarhlut sinna eigin íbúa og það lagaákvæði sem ég var að lesa upp áðan, 15. gr., segir beinlínis að sameignarsjóðurinn sem er í vörslu og eign sveitarfélaganna á að erfa borgarana. Samkvæmt þessum lögum erfa sveitarfélögin sína eigin borgara og fyrirtæki með tímanum. Það gæti orðið áhugavert mál ef einhver erfingi manns sem hefur fallið frá og átt innstæðu í Eignarhaldsfélaginu Brunabótafélagi Íslands, færi í mál og vildi fá sína eign sem erfingi með vísan í stjórnarskrána. Þetta mál sem hér er komið upp sýnir okkur því einmitt að það er ekki hægt að setja samasemmerki á milli sveitarfélags og íbúa í sveitarfélagi.

Varðandi þá stærðargráðu sem menn hafa verið að tala um, þ.e. að það sé ekki neitt neitt sem hver einstakur eigi, má segja að ef menn deila 3.500 millj. á 60 þúsund manns sem mun vera fjöldi þeirra sem eiga í félaginu, þá kemur út 50 þús. kr. á mann og það er ekki lítill peningur. Auðvitað er þessu mjög misskipt. Ég geri ráð fyrir að ýmis fyrirtæki eigi stóran hlut, jafnvel nokkur 100 þúsund eða milljón. Þetta eru engu að síður stórar upphæðir á hvern mann. Þetta skiptir miklu máli. En ég sé þetta fyrst og fremst sem ásælni sveitarfélaganna í eignir sinna eigin borgara.

Hv. þm. Lúðvík Bergvinsson sagði að þetta frv. kæmi of seint fram og þar af leiðandi sæi hann ekki rök fyrir því. Þetta er eins og að segja að réttlæti fyrnist með tímanum, að þær eignir sem menn áttu 1994 séu bara fyrndar. Það er ekki gert ráð fyrir því í stjórnarskránni að eignarrétturinn fyrnist. Hann stendur á meðan maðurinn lifir og ef hann fellur frá, þá rennur hann til lögmætra erfingja, barna og annarra ættingja o.s.frv. Þetta frv. er því ekkert of seint fram komið. Það verður aldrei of seint fram komið. Það sem mætti kannski setja út á er að sambærilegt frv. frá því fyrir ári síðan hafi ekki verið samþykkt þannig að hægt væri að borga fólkinu út það sem það raunverulega á.

Varðandi samsæriskenningar um að menn sjái ofsjónum yfir því að þarna séu miklir peningar sem þetta félag gæti hugsanlega notað til að kaupa í öðrum fjármálastofnunum, þá sé ég ekki þá hættu og það er ekki þess vegna sem ég er flutningsmaður að þessu frv. heldur er það fyrst og fremst til að gæta hagsmuna einstaklinga sem eiga þarna eign í félagi sem sveitarfélögin ætla sér að erfa. Ef sveitarfélögin bíða nógu lengi, svo sem í 70 til 100 ár, þá munu þau eignast alla þessa eign sem fólkið á með þessum lögum. Þess vegna set mikið spurningarmerki við þetta og held að þessi lög fái hreinlega ekki staðist, þ.e. lögin um Eignarhaldsfélagið Brunabótafélag Íslands, nr. 68/1994. Það er ekki hægt samkvæmt stjórnarskránni að taka eignir manna og flytja þær eitthvað annað við dauðsfall. Og stjórnarskráin talar ekkert um fyrstu eða annarrar gráðu eign. Það er ekki til nema ein eign og hún er varin með stjórnarskránni.

Herra forseti. Ég vonast til að þetta frv. fari til efh.- og viðskn. og fái þar góða umfjöllun og að upplýst verði ýmis atriði sem eru enn óupplýst eins og t.d. kaupsamningur Landsbankans við félagið þegar hann keypti VÍS af félaginu. Það verði enn fremur upplýst eftir hvaða lagaákvæðum félagið greiddi út 110 millj. í arð, þ.e. hvar heimild sé til þess í þessum lögum. Ég er búinn að lesa þau aftur og aftur og ég get hvergi nokkurs staðar séð að heimilt sé að borga arð út úr þessu félagi. Og ef það er gert, þá verður að sjálfsögðu að greiða til allra eigendanna, ekki bara sumra þannig að þar er enn eitt dæmi sem þyrfti að skoða. Ég geri ráð fyrir því að þetta verði allt saman skoðað í hv. efh.- og viðskn. þar sem ég á sæti og ég vonast til að þetta frv. verði samþykkt.