Stofnun hlutafélags um síldarútvegsnefnd

Mánudaginn 16. mars 1998, kl. 15:40:46 (4687)

1998-03-16 15:40:46# 122. lþ. 88.20 fundur 558. mál: #A stofnun hlutafélags um síldarútvegsnefnd# frv., SJS
[prenta uppsett í dálka] 88. fundur, 122. lþ.

[15:40]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég vil láta það sjónarmið koma fram að ég held að að mörgu leyti sé eðlilegt og í samræmi við aðdraganda málsins, og kom fram í framsöguræðu hæstv. ráðherra, að síldarútvegsnefnd verði sett á sambærilegan grunn hvað rekstrarfyrirkomulag varðar og orðin er staðreynd hvað snertir öll helstu sölufyrirtæki sjávarafurða héðan frá landinu. Hér er um að ræða fyrirkomulag sem var barn síns tíma og enginn vafi á því að nýttist Íslendingum að mörgu leyti mjög vel til þess að halda utan um sameiginleg hagsmunamál sín á mörkuðum. Ekki síst átti það við þegar gerðir voru stórir samningar fyrir fram um svo til allar afurðirnar, jafnvel á svo gott sem einu bretti á meðan viðskiptin voru þannig, en nú eru að sjálfsögðu mjög breyttir tímar, bæði hvað markaðsaðstæðurnar snertir og eins fyrirkomulag á rekstri af þessu tagi.

Sjálfsagt má lengi deila um það hvernig ráðstafa á þessum eignum. Hitt tel ég að sé þó tæplega umdeilanlegt að þeir sem lagt hafa mest af mörkum og byggt upp þær eignir sem til skipta eru í síldarútvegsnefnd séu framleiðendur eða viðskiptaaðilar nefndarinnar á liðnum tíma. Það er þá frekar að menn mundu velta fyrir sér þeim hlutföllum sem eru þarna sett upp hvað varðar annars vegar eigendur eða framleiðendur liðins tíma og hins vegar þann hlut sem fyrirtækið sjálft, Íslandssíld hf., á að eignast til endursölu.

Varðandi sjóðina verkar það kannski fljótt á litið svolítið flókið að það skuli þurfa að stofna til tveggja sjóða í þessu skyni, annan til að styrkja rannsóknir á vegum Hafrannsóknastofnunar og hinn til að efla vöruþróun síldarafurða en sjálfsagt eru fyrir því rök að menn hafi talið heppilegra að halda þessu tvennu aðgreindu.

Ég minni á, herra forseti, að önnur af tveimur þáltill. sem er stofn að þeirri samþykkt Alþingis sem síðan hefur verið unnið að og leitt til þessa frumvarpsflutnings fjallaði um að mikil nauðsyn væri á því að gera ráðstafanir til að auka nýtingu síldar til manneldis og nýta betur, eins og stendur í tillögunni, þá möguleika til atvinnusköpunar og gjaldeyrisöflunar sem felast í veiðum og vinnslu síldar. Nú hefur reyndar sem betur fer verið umtalsverð þróun á þessum árum, jafnvel síðan samþykktin var gerð og er þá ekki langt síðan eða tæp fjögur ár, og á síðasta ári og það sem af er þessu hefur t.d. verið mun meira unnið til manneldis bæði af loðnu og síld heldur en á öðrum sambærilegum vertíðum. Munar þar mestu um þá miklu markaði sem opnast hafa fyrir frystar afurðir af þessum toga til Rússlands og Austur-Evrópu. Því má segja að sá markaður sé að opnast á nýjan leik en þó öðruvísi en áður var þegar útflutningurinn þangað var fyrst og fremst í formi saltaðra afurða.

Enn má án efa gera betur og ég tel þess vegna að það sé ekki síður mikilvægur þáttur málsins sem er að hluta til undir í frv. að halda þannig á spöðunum að okkur verði meira úr þessum stóru stofnum uppsjávarfiska sem hafa að langmestu hafa farið í bræðslu hingað til. Það er reyndar nokkuð einfalt, herra forseti, að reikna út að á fáum sviðum í íslenskum sjávarútvegi eru jafnmiklir margföldunarmöguleikar á ferðinni hvað verðmæti snertir og með því að stórauka það hlutfall veiða af þessum stofnum sem fer í manneldisvinnslu.

[15:45]

Herra forseti. Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til þess að fara um þetta mál mörgum orðum. Það er í samræmi við og í eðlilegu framhaldi af þegar gerðum samþykktum Alþingis um þetta mál og fær því væntanlega viðtökur í samræmi við það.