Stofnun hlutafélags um síldarútvegsnefnd

Mánudaginn 16. mars 1998, kl. 15:55:13 (4691)

1998-03-16 15:55:13# 122. lþ. 88.20 fundur 558. mál: #A stofnun hlutafélags um síldarútvegsnefnd# frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 88. fundur, 122. lþ.

[15:55]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir skýr svör við fyrri spurningu minni og þeirri seinni. Varðandi seinni spurninguna segir hæstv. ráðherra efnislega að eiginlega sé niðurstaða ríkisstjórnarinnar sú að leggja til að bráðabirgðaskipan verði höfð á stjórn veiðanna þar til í ljós kemur hvort stofninn, norsk-íslenski síldarstofninn, breytir núverandi göngumynstri sínu. Þar er væntanlega haft í huga að stofninn leggi leið sína í ríkari mæli inn í íslensku efnahagslögsöguna.

Er það þá rétt skilið hjá mér að hæstv. ráðherra hafi velt fyrir sér eða að komin sé niðurstaða um tiltekna skipan frábrugðinni þeirri sem verið hefur? Mun hæstv. ráðherra leggja það fyrir hér á næstunni eða kynna opinberlega? Sömuleiðis vonaðist ég eftir því að hæstv. ráðherra skýrði út fyrir mér hvort líklegt sé að sú skipan mála verði við lýði, jafnvel þó hann kalli hana bráðbirgðaskipan, meðan stofninn heldur óbreyttu göngumynstri.