Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 17. mars 1998, kl. 13:57:20 (4701)

1998-03-17 13:57:20# 122. lþ. 89.2 fundur 524. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (vaxtabætur) frv., SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 122. lþ.

[13:57]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Herra forseti. Það er auðvitað ljóst að þegar lagt er út í þá kerfisbreytingu að afnema félagslega niðurgreiðslu á lánum til íbúða fyrir fátækt fólk en flytja kerfið þess í stað að einhverju leyti eða öllu yfir í tekjutengt vaxtabótakerfi, þá eru menn að auka jaðarskattaáhrif en ekki að draga úr þeim. Þá fjarlægjast menn það að nýta tekjuskattinn fyrst og fremst sem tekjuöflunartæki.

Í öðru lagi er ekkert nýtt að þingmenn Sjálfstfl. tali öðru máli en hæstv. ráðherrar úr þeirra eigin flokki. Það hefur mjög iðulega komið fyrir. Sjálfstfl. vill hafa meira en eina skoðun á hverju máli. Mér finnst það nokkuð langt sótt, jafnvel þó að menn orði það við kristilegt líferni. Mér finnst það undarlegt að á sama degi og formaður Sjálfstfl. mælir fyrir frv. á Alþingi, þá komi tveir flokksbræður hans, annar formaður þeirrar nefndar sem á að vinna úr máli hæstv. forsrh. og hinn nefndarmaður í sömu nefnd, og flytji tillögur á Alþingi sem eru algjörlega andstæðar því frv. sem formaður flokksins og forsrh. mælir fyrir. Það getur vel verið að þetta sé dæmi um kristilegt líferni. Þetta er ekkert einsdæmi hjá Sjálfstfl. Ég vona þó að mér fyrirgefist að segja þetta hvorki eðlilega né æskilega framkomu.