Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 17. mars 1998, kl. 13:59:33 (4702)

1998-03-17 13:59:33# 122. lþ. 89.2 fundur 524. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (vaxtabætur) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 122. lþ.

[13:59]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Sighvatur Björgvinsson mælti hér fyrir tillögu minni sem liggur fyrir Alþingi, jafnvel þó að hún væri ekki á dagskrá og gerði það nokkuð vel. Hann sleppti nú reyndar nokkrum atriðum sem ég hefði viljað taka fram og ég áskil mér rétt til að mæla fyrir tillögunni engu að síður.

[14:00]

Hann gat um það að ég gæti ekki fjallað um þetta mál í efh.- og viðskn. vegna þess að ég væri með aðrar hugmyndir. Það er ekki rétt. Ég get tekið á þessu máli miðað við það kerfi sem er í gangi í dag og þetta mál er að mestu leyti til bóta. Þarna er verið að lækka jaðarskattaáhrifin og það er til bóta. Það er líka verið að taka upp samtímagreiðslur sem er líka til bóta. Það er því margt í þessu frv. til bóta sem ég get alveg fjallað um. Ég get alveg tekið á málinu miðað við það kerfi sem er í gangi í dag varðandi vaxtabæturnar. Hins vegar lýsti ég því yfir þegar frv. hæstv. félmrh. var til umræðu um breytingu á þessu kerfi, að vaxtabæturnar væru eini ljóðurinn á því sólarfrv., þegar sólin skein í heiði. Ég myndi vilja breyta vaxtabótunum. Mér finnst óeðlilegt, herra forseti, og vil beina þeirri spurningu til hv. þm. hvort hann telji eðlilegt að hjón sem eru með 600 þús. kr. á mánuði fái vaxtabætur. Þau geta nefnilega fengið 20 þús. kr. í vaxtabætur á mánuði ef þau skulda nógu mikið. Nálægt 20 þús. kr. á mánuði. Þetta finnst mér vera rangt kerfi. Mér finnst miklu eðlilegra að veita því fólki bætur sem raunverulega þarf á þeim að halda, þ.e. lágtekjufólkinu.