Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 17. mars 1998, kl. 14:02:21 (4704)

1998-03-17 14:02:21# 122. lþ. 89.2 fundur 524. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (vaxtabætur) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 122. lþ.

[14:02]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Menn geta fjallað um kerfi og breytingar á kerfum þótt þeir séu ekki sáttir við kerfið. Hafi þeir ekki þingmeirihluta til að breyta kerfinu vinna þeir að sjálfsögðu með kerfið og vinna að góðum breytingum á því kerfi sem til staðar er. Það er því ekkert sem hindrar mig í því að taka afstöðu til þessa frv. miðað við vaxtabótakerfið eins og það er, þó að ég leggi hins vegar til og skírskoti til skynsemi manna, að þeir breyti þessu sama vaxtabótakerfi vegna þess að það er bæði mjög dýrt og er auk þess fyrir fólk sem er með tiltölulega háar tekjur. Ég minni á að nærri 50 þús. manns fá vaxtabætur, þ.e. stór hluti þjóðarinnar er að borga stórum hluta þjóðarinnar þessar bætur. Ég sé enga skynsemi í því.

Það að ég sé helsti andstæðingur hæstv. forsrh. er auðvitað alrangt. Það gengur varla hnífurinn á milli okkar í skoðunum. Ég styð hann í öllum hans verkum þannig að ég er á engan hátt andstæðingur hans, þótt ég leyfi mér að velta upp öðrum hugmyndum og öðrum sjónarhornum á málum. (Samgrh.: Þingmaðurinn er vonandi ekki sammála þingmanni Vestf.?) Um? (Samgrh.: Svona yfirleitt.) Ég er yfirleitt ekki sammála hv. þm. Sighvati Björgvinssyni í flestum málum en það byggir ekki á því að hann hafi rangt fyrir sér eða ég hafi rétt fyrir mér, heldur vegna þess að hv. þm. hefur aðra heimssýn. Hann er vinstri maður og ég er hægri maður.