Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 17. mars 1998, kl. 14:05:42 (4706)

1998-03-17 14:05:42# 122. lþ. 89.2 fundur 524. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (vaxtabætur) frv., SJS
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 122. lþ.

[14:05]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Frv. þetta um breytingar á vissum ákvæðum laga um tekju- og eignarskatt, þ.e. 69. gr. þeirra laga sem fjallar um svonefndar vaxtabætur, er fylgifrv. með og í raun óaðskiljanlegur hluti af frv. hæstv. félmrh. til laga um húsnæðismál. Þó má segja að þetta sé á hinn veginn, þ.e. að frv. hæstv. félmrh. sé fylgifrv. með þessu vaxtabótafrv. því fyrirheitin sem gefin eru í því frv. hvað húsnæðismálin snertir standa og falla með efndunum í frv. að lögum um vaxtabætur. Sérstaklega hvað það snertir að breytingin verði ekki íþyngjandi eða komi út í grófum dráttum á sléttu hvað greiðslubyrði þeirra varðar sem hafa verið í félagslega íbúðalánakerfinu og notið hagsbóta af lágum vöxtum eða hagstæðum lánskjörum þar.

Í fyrsta lagi, herra forseti, væri náttúrlega eðlilegt að ræða við hæstv. forsrh. hvort það sé virkilega ætlun hæstv. ríkisstjórnar að knýja á um afgreiðslu þessara mála hér. Þegar við ræddum við 1. umr. frv. til laga um húsnæðismál hélt hæstv. félmrh. því fram að þetta væri meira og minna unnið í samráði við eða í anda fulltrúa verkalýðshreyfingarinnar. Síðan hefur það gerst að heildarsamtök launamanna hafa fundað og mótað sameiginlega áherslur í þessu sambandi. Þar kemur m.a. tvennt sérstaklega fram. Það fyrra er að þar lýsir verkalýðshreyfingin því afdráttarlaust yfir að við hana var ekkert samráð haft um undirbúning þessara mála og aðdraganda þeirra og í öðru lagi telur verkalýðshreyfingin fráleitt að stefna að afgreiðslu stórmála af þessu tagi á fáeinum vikum á vorþinginu nema þá að mjög víðtæk samstaða takist um breytingar á frumvörpunum og góð sátt ríki um afgreiðslu málsins. Það var þar af leiðandi eðlilegt að hv. þm. Sighvatur Björgvinsson beindi sinni fyrstu spurningu til hæstv. forsrh. hvort ekki væri í boði af hálfu hæstv. ríkisstjórnar samráð um þetta stórmál með hliðstæðum hætti og tókst sem betur fer að knýja fram hvað varðaði afgreiðslu laganna um lífeyrissjóðina. Ég held að öllum hljóti að vera ljóst að náist slíkt samstarf um málin er það mjög til farsældar og líklegra að sæmilegur friður, ekki bara í núinu heldur og til framtíðar ríki um það fyrirkomulag sem þar er komið á.

Það sem einkennir nálgun hæstv. ríkisstjórnar í húsnæðismálum og með tengingu yfir í frv. um vaxtabætur er sú staðreynd, mér liggur við að segja, herra forseti, sú ótrúlega staðreynd að ríkisstjórnin er að leggja niður félagslega húsnæðiskerfið á Íslandi og vísar öllu sem heitir stuðningur við lágtekjufólk um húsnæðisöflun yfir í einfalda ákvörðun vaxtabóta samkvæmt fjárlögum eða álagningu tekjuskatts hverju sinni. Okkur er síðan birt línurit, herra forseti, til skýringar á áhrifum slíkra breytinga, m.a. í fskj. með frv. félmrh. Vísað er í grg. frv. hæstv. fjmrh. yfir í grg. frv. félmrh. um nánari umfjöllun um greiðslubyrði. Hvað er okkur sýnt þar, herra forseti? Okkur eru sýnd línurit til 40 ára. Það er sem sagt verið að reyna að telja fólki trú um að sá stuðningur sé í hendi við lágtekjufólk hvað húsnæðisöflun snertir og útkoma þeirra samkvæmt greiðslubyrði 40 ár fram í tímann. Samkvæmt hverju? Samkvæmt álagningu skatta og afgreiðslu fjárlagafrv. í hvert einasta skipti á þessum 40 árum verður opinn til breytinga eða skerðingar sá endi málsins sem snýr að stuðningnum við lágtekjufólkið. Hvað segir reynslan okkur, herra forseti, um líkurnar á því að vilyrði um vaxtabætur á árinu 1998 séu líkleg til að standa óhögguð í 40 ár, eða 41 frá og með gildistöku um næstu áramót 1999, þ.e. rétt fram yfir miðja 21. öldina? Er það líklegt í ljósi reynslunnar þótt ekki sé litið nema bara til allra síðustu ára að svo verði, að aldrei komi þannig árferði eða aldrei þannig stjórnmálamenn að þeir freistist til að krukka eitthvað í vaxtabæturnar? Nei, herra forseti, það er auðvitað ekki svo.

Við vitum að þessi þáttur er svo viðkvæmur fyrir ekki bara heildarútgjöldunum sem ríkissjóður á hverjum tíma ákveður að verja til vaxtabóta heldur líka fyrir útfærslunni að smávægilegar breytingar t.d. á viðmiðunarmörkum geta skipt sköpum um afkomu hópsins sem hér á allt sitt undir. Og það er langur vegur frá föstum lánskjörum, ákvörðuðum með því móti sem verið hefur í félagslega húsnæðiskerfinu, og yfir í það sem verið er að bjóða mönnum upp á hér. Þar er langur vegur á milli. Það er auðvitað svakalegt, herra forseti, að búið er að undirbúa jarðveginn í þessu máli, eins og reyndar hefur oft og iðulega verið gert í öðrum tilvikum, að meira og minna síðustu missirin og árin hefur verið haldið uppi stanslausum rógi um félagslega íbúðalánakerfið, félagslega húsnæðiskerfið. Það verður að segjast eins og er, því miður, að sveitarstjórnarmenn sem eru stundum dálítið uppteknir af sjálfum sér og sínum nærmálum hafa oft tekið undir þennan kór. Menn hafa gert það að meira máli í þessari umræðu að einhvers staðar á landinu stæðu nokkrar íbúðir tómar eða að einstöku sveitarstjórnir hefðu e.t.v. farið full\-glannalega í sambandi við skuldbindingar sínar, heldur en hitt að lágtekjufólk ætti með sómasamlegum hætti kost á þaki yfir höfuðið. Það hefur af einhverjum undarlegum ástæðum týnst úr þessari umræðu að félagslega húsnæðiskerfið hefur á þessari öld komið tugum þúsunda lágtekjufólks inn í öruggt og gott húsnæði í staðinn fyrir heilsuspillandi bragga og moldarkofa sem það bjó í áður þúsundum saman og ekki er fyrirséð að sá vandi hefði verið leystur með öðrum hætti. Er það þá orðið aukaatriði? Er megintilgangur kerfisins að tryggja lágtekjufólki í landinu öruggt húsnæði orðið aukaatriði? Það virðist vera svo miðað við þessa umræðu. Og hverjir hafa svo gengið í kórinn aðrir en til að mynda núv. hæstv. félmrh., því miður, og haldið á lofti stundum villandi upplýsingum um dýrar íbúðir í þessu kerfi o.s.frv. Síðast en ekki síst hefur hæstv. ríkisstjórn undirbúið jarðveginn með því að svelta Byggingarsjóð verkamanna með því að veita langtum lægri fjárhæðir til hans til að standa straum af vaxtaniðurgreiðslunum en skýrslur hafa sýnt fram á og legið hefur fyrir að þyrfti að gera. Staðreyndin er sú að hefðu menn staðið við það sem úttektir á stöðu Byggingarsjóðs verkamanna um og upp úr 1990 sýndu trekk í trekk, að leggja honum til fjármuni sem svaraði 1 milljarði til 1.200 millj. kr. á ári væri ekki við neinn vanda að glíma annan en þann að gera smávægilegar breytingar til að lagfæra ágalla í þessu kerfi sem auðvitað eru fyrir hendi og ekkert vandamál er að taka á, t.d. eins og það að auka möguleika manna til að velja sér íbúðir í staðinn fyrir að geta eingöngu sótt um að fá inni í þeim sem úthlutað er. Það er ekkert því til fyrirstöðu að gera þá breytingu innan ramma kerfisins um Byggingarsjóð verkamanna eins og hann er. Ekki nokkur skapaður hlutur. Það hefur verkalýðshreyfingin m.a. ályktað um.

[14:15]

Herra forseti. Betra er að taka það með mjög miklum fyrirvara þegar sett er upp ræfilslegt dæmi eins og þetta á bls. 3 í fskj. með frv. um útkomuna fyrir þá sem í hlut eiga. Eitt dæmi er látið nægja í frv. Satt best að segja er vaxtabótafrv. merkilega rýr pappír, og framsöguræða hæstv. forsrh. var stutt í samræmi við það þegar höfð er hliðsjón af því hversu mikilvægt málið er.

Hvað vantar m.a. inn í þetta til að nokkur leið sé að meta hvernig þetta kemur út á komandi árum, ekki bara fyrir ríkissjóð sem hér er verið að meta, heldur líka fyrir fólkið í landinu? Eitt atriði sem hangir algjörlega í lausu lofti, og hæstv. félmrh. hefur verið svo vinsamlegur að upplýsa mig um skiptir algjörlega sköpum um útkomu málsins, eru reglurnar um greiðslumatið. Það er hversu strangar kröfur verða settar fyrir því að menn komist yfir höfuð inn í kerfið, fái viðbótarlánin, verði taldir borgunarmenn fyrir nokkrum einasta húskofa og þá hversu merkilegt það húsnæði verður sem menn verða taldir hafa ráð á að borga.

Það er betra að menn hyggi að því áður en breytingarnar eru gerðar að menn eru að fara út í þá grundvallarbreytingu að í staðinn fyrir að félagslega íbúðakerfið bauð yfirleitt upp á vandaðar íbúðir í góðu standi --- og var fyrir vikið skammað fyrir að vera dýrt --- og yfir í hitt að tilhneigingin verður auðvitað sú að þeim mun tekjulægra sem fólkið er þeim mun lægra greiðslumat hefur það og þeim mun lélegra verður húsnæðið sem það verður talið ráða við. Auðvitað hlýtur þetta að verka þannig.

Greiðslumatið og reglurnar sem settar verða um það, sem hæstv. félmrh. upplýsir að sé enn til skoðunar, skipta algjörlega sköpum um hverjir munu yfir höfuð komast inn undir reglurnar og hverjir verða þar út undan, og hverju menn verða þá taldir borgunarmenn fyrir.

Herra forseti. Án þess að ég hafi haft nægan tíma til að fara rækilega ofan í saumana á þessum dæmum, og þá á ég sérstaklega við dæmin sem birt eru í formi línurita í fskj. með frv. hæstv. félmrh. um greiðslubyrðina, þá eru þau auðvitað háð öllum þeim forsendum sem menn þurfa að gefa sér til þess að eitthvert vit sé í því. Útreikningarnir segja í sjálfu sér ekki neitt um það sem gæti verið í vændum þegar búið verður að móta reglurnar um greiðslubyrðina og margar fleiri óvissar breytur sem heyra þarna undir. Gott dæmi, herra forseti, um þá óvissu sem verið er að búa til með þessu fyrirkomulagi liggur á borðum þingmanna í formi tveggja ef ekki þriggja frv. frá hv. þm. Pétri Blöndal og ekki minni spámanni en hv. þm. Vilhjálmi Egilssyni að auki, sjálfum nestornum, formanni efh.- og viðskn., framkvæmdastjóra Verslunarráðsins og heimsfrægum áhrifamanni í Sjálfstfl. Við skulum ætla að það sé ekki út í loftið að slíkir menn leggi fram svona frv., að það viti á það að þeir hafa eitthvað á bak við sig í þeim efnum.

Til marks um hvað eru þá þessi frv. annað en óvissuna sem er verið að búa til með því að vísa þessu öllu í vaxtabæturnar? Ef það færi svo að þeir næðu meiri hluta á þingi svo svakalega, þeir hv. þm. Pétur H. Blöndal og Vilhjálmur Egilsson með sjónarmiðum sínum, hvað gerist þá á næsta kjörtímabili? Vaxtabótakerfinu verður hent. Hvað stendur þá eftir af fínu útreikningunum í frv. félmrh. til fjörutíu ára? (Gripið fram í.) Já, en hver segir að útfærslan á þeim verði eins og þarna er verið að leggja upp með? Ætli einn og einn mann gruni ekki að það yrði kannski frekar flatt kerfi í anda grundvallarhugmynda hv. þm. um að leggja sama skatt á allt landið og miðin sem fyrst og fremst ívilnar hátekjufólkinu eins og allir vita?

Herra forseti. Ég ætla ekki að blanda öllum dagskrármálum inn í umræðuna en ég leyfi mér að taka þetta til marks um að auðvitað er óvissa sett inn í þetta með því að vísa þessu öllu eins og það leggur sig, öllu sem á að heita félagsleg hugsun í húsnæðismálum á landinu yfir í einfaldar ákvarðanir um vaxtabætur í fjárlögum hverju sinni. Reynslan og sporin hræða í því efni svo ekki sé meira sagt.

Herra forseti. Auðvitað er ljóst að ýmsir kostir hafa þrátt fyrir allt, hvað sem hver segir, fylgt félagslega lánakerfinu, t.d. þeir að reynt hefur verið að hafa það eins ódýrt og kostur er fyrir þá sem þar fá inni að ganga frá pappírum sínum og koma þeim málum í höfn, og kostnaði hefur verið haldið þar í lágmarki. Hvað er nú verið að gera? Nú er verið að henda mönnum út á markaðinn í þeim efnum þannig að kostnaðurinn við að skipta um íbúð eða kaupa íbúð margfaldast, tvöfaldast og þrefaldast með þessum breytingum. Það þarf að muna eftir þessu þegar farið er út í þessi dæmi.

Línuritin segja okkur líka, ef eitthvert mark verður á þeim takandi, að talsverð tilhneiging verði til þess hjá fólki að velja sér heppilegan tíma til að skipta um íbúð og sleppa þannig sem best út úr kerfinu en þá verður líka mikill kostnaður því samfara.

Herra forseti. Ég held að ástæða sé til að undirstrika eitt enn frekar í þessu efni og það er spurningin um framboð af húsnæði á komandi árum verði þessar breytingar gerðar, og það fyrirkomulag, samstarf sveitarfélaga og ríkis í gegnum fjármögnun úr opinberum sjóði til að standa straum af uppbyggingu félagslegs íbúðarhúsnæðis, sem verið hefur, verður lagt af. Menn geta auðvitað talað sig endalaust hása um að gallar hafi verið á því kerfi og að einstöku sveitarstjórnir hafi gengið of langt, byggt meira en þörf var fyrir en þær hafa ekki allar gert það. Mjög margar þeirra hefðu viljað byggja meira og hafa fulla þörf fyrir það.

Hvað hefur kerfið þá í öllu falli tryggt? Það hefur tryggt að a.m.k. nokkur hundruð íbúðir hafa bæst við á hverju einasta ári, háðar þannig kjörum að lágtekjufólkið komst inn í þær. Þær hafa þýtt að nokkur hundruð láglaunafjölskyldur á Íslandi hafa getað flutt inn í nýtt húsnæði á hverju einasta ári. Er það einskis virði? Er mönnum alveg sama um það?

Hvað á að koma í staðinn? Óljós fyrirheit um hugsanlega aukningu á framboði leiguhúsnæðis? En fyrst og fremst er verið að vísa þessum hópi yfir á notaða íbúðamarkaðinn, lesist: í kjallarana. Ég er sannfærður um það, herra forseti, að sjálfseignarstefnan sem hæstv. forsrh. talaði áðan svo fallega fyrir er sjálfseignarstefna ríka fólksins. Ekki er verið að boða með þessum frv. sjálfseignarstefnu fyrir láglaunafólk á landinu nema þá ef vera skyldi sjálfseignarstefnu á kjallaraíbúðum. Það verður þá í besta falli það, farandi þó eftir því hvernig reglurnar um greiðslumatið og önnur slík útfærsluatriði verða hjá hæstv. félmrh.

Að mínu mati er langmesta hættan sú að framboð á húsnæði verði ónógt á næstu árum. Það bætist of lítið við því að sú fáránlega fullyrðing kemur fram í frv. félmrh. að nóg framboð sé af íbúðarhúsnæði í landinu. Hverjar verða svo afleiðingar þess innan fárra ára ef dregur úr framboði á húsnæði sem þetta fólk á kost á og getur klofið að komast inn í? Þær hljóta að verða hækkun á leigumarkaði og enn verri staða þess fólks sem verið er að fjalla um og henda út úr félagslega íbúðalánakerfinu. Það verða þá enn þá lélegri kjallaraholur sem menn komast inn í og mesta hættan er þó sú að sá tekjuhópurinn sem kemst alls ekki upp fyrir greiðslumörkin á engan kost nema leigumarkaðinn, hann mun engan kost eiga nema leigumarkaðinn og ég er ekki viss um að það verði í öllum tilvikum merkilegt húsnæði sem þá verður boðið upp á enda veit ég um eina stétt manna í landinu sem kætist mjög í væntingum um þessar breytingar, voninni um þessar breytingar. Það eru þeir sem eiga mikið húsnæði og græða á því að leigja það út. Þeir eru með glöðustu mönnum í borginni þessa dagana. Það er engin tilviljun. Í þessu máli liggja augljóslega hættur af því tagi að það verði þeir sem hagnast ef framboðið á húsnæði verður lítið eða ónógt á komandi árum. Það veldur spennu á leigumarkaði og sá hópur stækkar í landinu sem sér engan veginn fram úr því að koma sér upp eigin þaki yfir höfuðið og er ofurseldur leigumarkaðnum. Það er það sem ég óttast að muni gerast, því miður.

Herra forseti. Ég endurtek því að lokum það sem ég sagði í upphafi: Ég skora á hæstv. forsrh. að taka til alvarlegrar íhugunar að fresta afgreiðslu þessara frv. Það er ljóst að hæstv. forsrh. hefur væntanlega mest um það mál að segja þar sem hér eru á ferðinni frv. flutt af fleirum en einum ráðherra í ríkisstjórn hans. Ég held að það væri mjög skynsamlegt ef það tækist að koma þessum málum í sambærilegan vinnufarveg og lífeyrissjóðafrv. var í síðasta sumar og þá fullyrði ég að ekkert væri til fyrirstöðu að afgreiða jafngreiðlega það frv. var afgreitt, fyrir jólaleyfi á næsta vetri, húsnæðismálalöggjöf sem gæti þá vonandi orðið góð samstaða um.