Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 17. mars 1998, kl. 14:31:08 (4710)

1998-03-17 14:31:08# 122. lþ. 89.2 fundur 524. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (vaxtabætur) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 122. lþ.

[14:31]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég vek athygli á því, eins og þingtíðindi munu sýna, að ég notaði ekki orðin ,,annarleg sjónarmið``. Hæstv. forsrh. notaði þau orð og lagði þau mér í munn. Ég viðhafði engin slík orð og stend við það sem haft mun eftir mér um þessi mál frá því áðan. Umræðan um hinn framkvæmdarlega vanda sveitarfélaganna hefur af hálfu ýmissa sveitarstjórnarmanna yfirskyggt hitt sem kerfið hefur fengið áorkað.

Síðan misskildi hæstv. forsrh. mig. Ég hef líklega ekki talað nógu skýrt varðandi það að ef ég og mín skoðanasyst\-kin hefðum til þess áhrif að móta framkvæmd þessara mála, þá hugði ég að það yrði gert með lagfæringum á félagslegri húsnæðismálalöggjöf af því tagi sem gildir í dag. Ég er ekki stuðningsmaður þess að leggja niður Byggingarsjóð verkamanna eða önnur sambærileg tæki stjórnvalda til að halda stuðningi við lágtekjufólk aðgreindum frá öðrum þeim sem menn vilja veita til húsnæðisöflunar. Ég óttast að það að slengja þessu í eitt kerfi þar sem ekki verði hægt að gera greinarmun á þessum hópum, muni smátt og smátt útrýma allri félagslegri hugsun í því. Þó að menn leggi af stað með eitthvað sem þeir kalla tekjutengdar vaxtabætur sem eigi að fela í sér jöfnun eða félagsleg úrræði, þá getur það orðið mjög endasleppt og það hef ég sérstaklega gagnrýnt.

Ég mundi ekki láta mér nægja að lappa eitthvað upp á þau frumvörp sem komin eru fram af hálfu hæstv. ríkisstjórnar. Ég hallast að þeim áherslum sem verkalýðshreyfingin hefur mótað. Þær hafa yfirleitt miðað að því að gera breytingar á og bæta löggjöf um félagslegt húsnæði en hafa hana þó til staðar. Alla þessa öld hafa menn valið þá leið að halda stuðningi á grundvelli félagslegri úrræða við lágtekjufólk út af fyrir sig. Ég spái því að þegar betur verði að gáð muni það reynast farsælast.