Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 17. mars 1998, kl. 14:33:32 (4711)

1998-03-17 14:33:32# 122. lþ. 89.2 fundur 524. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (vaxtabætur) frv., ArnbS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 122. lþ.

[14:33]

Arnbjörg Sveinsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon fór í sögulega upprifjun á því hvernig félagslega íbúðakerfið hefði aðstoðað margt lágtekjufólk við að komast út úr moldarkofum og bröggum eins og hann sagði. Í sjálfu sér er það söguleg staðreynd að þetta kerfi hefur hjálpað mörgum til þess að komast yfir sæmilegt húsnæði. Það breytir ekki þeirri staðreynd að menn hafa fundið allverulega galla á þessu kerfi. Alþýðusamband Íslands, samtök sveitarfélaga og fleiri aðilar hafa séð ástæðu til þess að leggja í mikla vinnu við að endurskoða kerfið. Það segir nokkuð um að kerfið er ekki alveg óbrigðult.

Hann sagði einnig að það væri festa í félagslega íbúðakerfinu. Ef maður skoðar þær lagabreytingar sem gerðar hafa verið á kerfinu undanfarin ár, þá sýnir það afskaplega litla festu. Ég skil vel að menn séu hræddir um að stjórnmálamenn framtíðarinnar breyti vaxtabótakerfinu. Það er full ástæða til þess að hafa skoðanir á því en sagan segir jafnframt að ástæða hafi þótt til þess að breyta félagslega íbúðakerfinu undanfarin ár og ekki hafi verið heykst á því.

Hv. þm. nefndi síðan að kostnaðurinn við þetta kerfi mundi margfaldast. Ég vildi inna hann eftir því hvað hann eigi við með því. Menn hafa talið að kostnaðurinn við að skipta um íbúð í félagslega kerfinu hafi þótt allverulegur. Ég hef skoðað þetta mál og get ekki séð að kostnaðurinn við kerfið sem við erum að innleiða núna eigi eftir að verða meiri en sá kostnaður.