Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 17. mars 1998, kl. 14:35:54 (4712)

1998-03-17 14:35:54# 122. lþ. 89.2 fundur 524. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (vaxtabætur) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 122. lþ.

[14:35]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Mér þykir vænt um að það skuli þó viðurkennt af hv. þm. að þetta kerfi hafi ekki verið rekið til einskis. Það hefur skilað því að þúsundir manna hafa fengið gott húsnæði. Það er nú einu sinni eitt mikilvægasta undirstöðuatriði hverrar fjölskyldu að hafa mannsæmandi þak yfir höfuðið, ekki síst á köldu landi eins og Íslandi.

Hitt er ljóst og um það er engin deila hér að félagslega húsnæðiskerfið er ekki gallalaust og á því mætti gera breytingar. Ég hef a.m.k. ekki haldið öðru fram og hef ekki heyrt aðra gera það. Mér er það alveg hulið til hvers verið er að vísa. Enginn hefur haldið öðru fram en að ástæða væri til þess að gera þarna ýmsar breytingar. Menn hafa af og til verið að breyta þessum lögum eins og eðlilegt er. Þær breytingar hafa að vísu á undanförnum árum verið viðleitni til þess að fjölga valkostunum.

Í tíð fyrrv. hæstv. félmrh. var t.d. fjölgað möguleikum til þess að innleiða kaupleiguíbúðir eða húsnæðissamvinnufélög. Þar komu til fleiri leiðir sem betur gætu hentað fólki í mismunandi stöðu fremur en hin gamla aðgreining í eignaríbúðir og leiguíbúðir sem fyrir var í kerfinu. Að sjálfsögðu þarf að halda áfram að þróa þetta kerfi og reyna að sníða af því agnúa.

Allir eru sammála um að ástæða hafi verið til að fara yfir stöðu sveitarfélaganna og þær skuldbindingar sem þau hafa samþykkt innan þessa kerfis, enginn deilir um það. En það má á milli vera hvort málin eru skoðuð út frá þeim sjónarhóli að gera lagfæringar á kerfinu og hinu að slátra því algerlega þannig að það hverfi af yfirborði jarðar frá og með næstu áramótum þannig að eftir standi ekkert nema vaxtabætur.