Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 17. mars 1998, kl. 14:37:56 (4713)

1998-03-17 14:37:56# 122. lþ. 89.2 fundur 524. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (vaxtabætur) frv., ArnbS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 122. lþ.

[14:37]

Arnbjörg Sveinsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. nefndi að valkostum hefði verið fjölgað. Það er vissulega svo. Því miður voru þeir ekki nýttir sem skyldi. Þeir sem voru í kerfinu töldu valkostina ekki nothæfa fyrir þá.

Hv. þm. nefndi áðan að ekki væri vitað hvernig greiðslumatið yrði þróað. Ef við lítum á greiðslumatið sem tæki til þess að mæla greiðslugetu fólks, þá er það sérkennileg staða að í almenna kerfinu skuli miðað við 18% af tekjum en í félagslega kerfinu, sem ætlað er lágtekjufólki, skuli miðað við 28%. Samkvæmt þessum reglum mætti ætla að lágtekjufólk geti borið þyngri greiðslubyrði en þeir sem hafa hærri tekjur. Þetta finnst mér afar sérkennilegt og full ástæða er til að skoða það.

Síðan væri kannski rétt að minna á að miðað við það að þessar breytingar taki gildi, þá verður greiðslubyrði fyrir lágtekjufólk og aðra mun minni fyrri hluta tímabilsins en hún er nú í félagslega kerfinu.