Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 17. mars 1998, kl. 15:05:31 (4717)

1998-03-17 15:05:31# 122. lþ. 89.2 fundur 524. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (vaxtabætur) frv., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 122. lþ.

[15:05]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Mér heyrist forsrh. staðfesta að hér eigi að vera tvö vaxtabótakerfi í gangi, annars vegar fyrir þá sem eru fyrir í kerfinu og þá sem koma nýir inn á þessu ári. Þeir eiga að búa við það að vaxtabætur þeirra komi ekki fyrr en einu til einu og hálfu ári seinna. En hinir sem bíða til fyrsta mánaðar á næsta ári fá vaxtabótagreiðslur strax eftir þrjá mánuði. Allir sem eru í húsnæðishugleiðingum í dag hljóta því auðvitað að bíða til næstu áramóta til þess að fá vaxtabótagreiðslurnar greiddar samtímis. (SvG: Loka fasteignasölunum.)

Og ég skil ekki orð hæstv. forsrh. um að verið sé að gera þetta til þess að ,,losa sig við óþarfa kostnað`` svo hann tapist ekki. Hver eru vanskilin hjá Byggingarsjóði verkamanna? Þau voru árið 1998 0,9% af útlánum sem eru upp á 49 milljarða, 0,9%. Hver voru útlánatöpin hjá sjóðum fyrirtækjanna sem mæld voru á árunum 1992--96? Þau voru 22 milljarðar. En sjóðir fólksins töpuðu 65 millj. Þetta eru því engin rök, herra forseti. Og vanskil hjá þeim sem hafa fengið 100% lán, sem mikið er nú gert með, voru ekki nema 17%. Og af 600 lánum sem eru í gangi hjá þeim sem hafa fengið 100% lán þá hafa 15 íbúðir farið á uppboð.

En hæstv. ráðherra hann svaraði ekki meginspurningu minni og því sem aðallega kom fram í máli mínu: Telur ráðherrann að það komi til greina að hækka þakið á vaxtabótunum hjá einstaklingum eða einstæðum foreldrum ef í ljós kemur að útreikningar, sem ég hef hér sýnt fram á og sýna verulega aukningu á greiðslubyrði hjá þessu fólki miðað við nýtt niðurgreiðslukerfi, þ.e. bæturnar, eru réttir? Er hann tilbúinn að beita sér fyrir því að þetta þak verði hækkað þannig að einstaklingarnir og einstæðu foreldrarnir verði jafnsettir eftir sem áður, eins og hæstv. félmrh. heldur fram?