Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 17. mars 1998, kl. 15:07:47 (4718)

1998-03-17 15:07:47# 122. lþ. 89.2 fundur 524. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (vaxtabætur) frv., forsrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 122. lþ.

[15:07]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég ítreka það að þessi tvö kerfi munu ganga samhliða og samsíða um allnokkurt skeið eins og gefur að skilja þar til hið nýja kerfi tekur endanlega yfir af yfir hinu gamla. Þeir sem voru staddir í gamla kerfinu vita hvar þeir stóðu. Það er ekki verið að hafa af þeim neinn rétt. Og þeir sem fara í nýja kerfið vita hvar þeir standa og við erum að bæta rétt þeirra miðað við það sem áður var, að okkar mati, þannig að það horfir til bóta. Eins erum við að spara í margvíslegum milliliðakostnaði, eins og ég hef áður nefnt, í því kerfi sem nú er og óhagkvæmt er og þeir peningar munu auðvitað nýtast betur til húsbyggjenda og íbúðareigenda en áður var. Auðvitað má endalaust segja að það vanti frekari dæmi og útfærslur og reikninga en við getum líka búið til dæmi sem ekki fá staðist í raun. Við vitum öll að einstaklingar með 800 þús. kr. árslaun, eins og hv. þm. nefndi, hafa ekki bolmagn til að kaupa íbúð upp á 7--9 millj. kr. Við höfum séð marga tragedíuna sem hefur átt sér stað þegar fólk hefur otast út í slíkt án þess að hafa nægilegar forsendur til þess. Það hefur því ekki mikið að segja að vera að tosa íbúðarkostnaðardæmin upp úr öllu valdi og launaþáttinn niður úr öllu valdi og reyna síðan að búa til einhver dæmi sem standa hrikalega á blaði hvað það varðar. Það eru ekki efnisleg rök í málinu að mínu viti. Við vitum og það liggur fyrir að fólk með 800 þús. kr. árslaun er ekkert í færum um það, ef það á ekkert annað fé af öðrum ástæðum ... (JóhS: Með 1.900 þús. líka.) Já, það kom nú þarna í restina. En þetta fólk sem ég nefni og lögð var höfuðáhersla á hjá hv. þm. er ekki í færum um að kaupa slíkar íbúðir. Við eigum ekki að gefa í skyn að hitt kerfið, gamla kerfið, hafi auðveldað fólki með þær tekjur að kaupa slíkar íbúðir. Það gerði það ekki. Það var alls ekki fært um það og það á ekki að vera að gefa það í skyn.