Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 17. mars 1998, kl. 15:09:47 (4719)

1998-03-17 15:09:47# 122. lþ. 89.2 fundur 524. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (vaxtabætur) frv., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 122. lþ.

[15:09]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst málflutningur forsrh. afar sérstæður og mér finnst að hæstv. forsrh. þurfi að kynna sér miklu betur tölulegar staðreyndir á bak við bæði þetta frv. og frv. hæstv. félmrh., kynna sér vanskil, eins og ég var að nefna, útlánatöp o.s.frv. Vissulega er það svo í þessu kerfi sem og mörgum öðrum að sumum gengur ekki vel en þeir eru ekkert voðalega margir. Útlánatöp sýna það. Vanskil fólks sýna það, 0,9% af 49 milljörðum eru ekki mikil útlánatöp, ekki til þess að kollvarpa kerfinu og kollvarpa allri félagslegri aðstoð á Íslandi.

Ég sýndi fram á miðað við tekjuviðmiðun í félagslega kerfinu sem er frá 800--1.900 þús. kr., að ef þetta fólk, t.d. einstæðir foreldrar, þó það sé með 1.500 þús.--1.700 þús. kr. í tekjur, kaupir íbúðir yfir 5--6 millj. þá er það verr statt með vaxtabótunum en núverandi niðurgreiðslum. Það munar mismunandi miklu, allt frá nokkrum þúsundum upp í 63 þús., jafnvel þó það sé með 1.500 þús. kr. í tekjur. Og það er út af þessu þaki. Það má ekki greiða hærri vaxtabætur en 184 þús. jafnvel þó að fólk sé með þessar tekjur þannig að mér finnst að forsrh. þurfi að skoða málið miklu betur.