Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 17. mars 1998, kl. 15:33:04 (4722)

1998-03-17 15:33:04# 122. lþ. 89.2 fundur 524. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (vaxtabætur) frv., RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 122. lþ.

[15:33]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Það eru töfluverk í frv. félmrh. og þau eru í tölum. Hins vegar eru þar einnig línurit sem sýna gífurlega hækkun á greiðslubyrði eftir nokkur ár. Strikið fer bara hátt upp fyrir þá línu sem hér má sjá. Það er alveg sama hvaða línurit er tekið. Alls staðar hækkar greiðslubyrðin gífurlega, ýmist fyrr eða síðar eftir því hvernig dæmi er tekið. Sumir segja: Þetta er kannski ekki svo alvarlegt vegna þess að það er svo algengt að fólk flytji sig úr félagslegu íbúðinni áður en það hefur búið í henni meira en 8, 10 eða 12 ár. En þarna er ekki verið að koma á félagslegum íbúðum. Nú á að setja á félagsleg lán, þ.e. félagsleg lán í andhverfu sinni, vegna þess að þetta eru bara markaðslán með hefðbundnum niðurgreiðslum vaxta. Þess vegna hlýtur það að vera þannig að þau lán muni fylgja fólkinu jafnvel þótt það skipti um íbúð eins og við gerum einhvern tímann á lífsleiðinni. Fólk fer ekki úr íbúð í kerfi. Það hefur tekið lán, 90% af einhverri upphæð og flytur sig e.t.v. yfir í stærri íbúð. Það flytur þá væntanlega lánið með sér, ef kjörin bjóða upp á það. Ég bendi því forsrh. á að þetta er sama taflan og línuritin eru mjög skuggaleg.

Varðandi það hvort nefndir þingsins geti skoðað málin þá veit ég allt um það. Ég hef löngum setið í nefnd og skoðað bæði mál og dæmi.

Í félmn. eru nú stærstu mál þingsins. Það eru hálendisfrv., sveitarstjórnarfrv. með bráðabirgðaákvæði um sveitarfélög alveg upp á jökla. Það er mjög stórt mál og stendur til að halda aukafundi um það. Síðan á þetta mál að bætast við auk máls sem mér finnst mjög stórt, þ.e. framkvæmdaáætlunar í jafnréttismálum sem bíður þess að vera unnin.