Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 17. mars 1998, kl. 15:35:29 (4723)

1998-03-17 15:35:29# 122. lþ. 89.2 fundur 524. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (vaxtabætur) frv., ArnbS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 122. lþ.

[15:35]

Arnbjörg Sveinsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir sagði að það fólk sem væri með lán í félagslega kerfinu spennti bogann til hins ýtrasta. Það spannst út frá umræðunni um það að greiðslumat þar væri 28% og því þyngri greiðslubyrði hjá því fólki. Það mun vera alveg rétt. Ég vitna í skýrslu nefndar um félagslegar íbúðir sveitarfélaga, en þar stendur m.a. á bls. 11, með leyfi forseta: ,,Á árinu 1996 voru 30% af öllum uppboðsíbúðum Húsnæðisstofnunar félagslegar eignaríbúðir. Sambærilegar hlutfallstölur fyrir árið 1995 eru 23% og árið 1994 um 21%. Miðað við að hlutfall félagslegra eignaríbúða er um 8% af íbúðum landsmanna er augljóst að greiðsluvandi íbúa í félagslegum eignaríbúðum er mikill. Þetta sést einnig á umsóknum til Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna en eins og áður var vikið að voru á fyrsta starfsári stofunnar 23,5% afgreiddra umsókna vegna eigenda félagslegra eignaríbúða.``

Þetta sýnir, hæstv. forseti, að vandi þessa fólks er mjög mikill. Benda mætti á að kröfulýsingar Húsnæðisstofnunar vegna íbúða hjá Byggingarsjóði verkamanna voru árið 1996 vegna 181 íbúðar.