Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 17. mars 1998, kl. 15:40:27 (4726)

1998-03-17 15:40:27# 122. lþ. 89.2 fundur 524. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (vaxtabætur) frv., RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 122. lþ.

[15:40]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Það segir sína sögu þegar stjórnarliði, fulltrúi í félmn. efast um að biðlistar séu eftir því að komast í núverandi kerfi. Hver einasti maður sem áhuga hefur á að setja sig inn í þessi mál veit að það eru mjög miklir biðlistar í Reykjavík og öllum stóru sveitarfélögunum þar í kring. Það hefur komið fram í skýrslum, í blöðum og alls staðar, þannig að það er undarlegt að heyra að þingmaðurinn hafi efasemdir í þeim efnum.

Við höfum sýnt fram á að greiðslubyrðin er svipuð framan af en eykst svo í þessu nýja kerfi. En alvarlegast er hve stórir hópar lenda utan við og bráðabirgðaskoðun í nokkrum húsnæðisnefndum sýnir að einungis lítill hluti þeirra sem eru á biðlista muni komast þarna inn. Við höldum því fram að ef gera á svona mikla kerfisbreytingu í stórum samfélagsþætti eins og húsnæðiskerfi landsmanna er þá verður að bregðast við þeim þætti. Ef maður ákveður með pólitískri ákvörðun að svona stór hópur fari út úr kerfinu, þá verður að ætla honum stað annars staðar. Þessi ríkisstjórn ætlar honum ekki nokkurn stað. Hún slær hann bara af og ekkert kemur í staðinn nema 50 leiguíbúðir á tveimur árum. Virðulegi forseti, 50 íbúðir á tveimur árum eru 25 íbúðir á ári.