Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 17. mars 1998, kl. 15:42:15 (4727)

1998-03-17 15:42:15# 122. lþ. 89.2 fundur 524. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (vaxtabætur) frv., KHG
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 122. lþ.

[15:42]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Hér er til umræðu það bragarbótarfrv. sem ríkisstjórnin hyggur að sé til mótvægis við áhrifin af öðru frv. sem hún flytur um húsnæðismál. Málið er þannig kynnt fyrir okkur að samanlagt séu áhrifin þau að enginn standi verr en áður og einhverjir kannski betur. Jafnvel ríkissjóður stendur í sömu sporum, hann leggur ekkert meira út en hann áður gerði og sparar ekkert frá því sem nú er. (ArnbS: Bætir inn í kerfið.) Bætir inn í kerfið? Hvað miklu? (ArnbS: Nokkrum milljörðum.) Nokkrum milljörðum. Nú, það er ekkert annað. Menn ætla heldur betur að gera bragarbót ef þeir bæta slíkum fjármunum í húsnæðislánakerfið.

Ég verð þó að segja, vegna þessa framíkalls, að ég hef nú ekki getað séð þær fjárhæðir eða lesið af þeim frv. sem málið varðar eða þeim greinargerðum sem fyrir liggja frá fjmrn. um fjárhagsleg áhrif þessara frv. Það væri þá ástæða til þess fyrir hæstv. forsrh. að rekja í fáeinum orðum hve háar fjárhæðir er um að ræða til viðbótar við það sem orðið hefði að óbreyttu og til hverra þessar fjárhæðir renna.

Það er augljóst mál af umræðunni í dag og hinni löngu umræðu um húsnæðismál um daginn að ekki eru margir þingmenn þeirrar skoðunar að frv. bæti fjármunum í kerfið. Ég vil hryggja menn með því að segja að ég hef heldur ekki komið auga á að þessi sannindi sé að finna í þessum tveimur málum.

Um þetta kerfi, vaxtabótakerfið, sem byggir á því að hafa annars vegar markaðsvexti og síðan beina ríkisstuðningi til íbúðarkaupenda í gegnum vaxtabætur, vil ég fyrst segja að ég er ekki mjög hrifinn af fyrirkomulaginu. Á þessu eru miklir gallar. Ég bendi á að þetta kerfi grundvallast á því að húsnæðiskaupendur taki lán. Forsenda fyrir stuðningi er að menn steypi sér í skuldir.

[15:45]

Að mínu viti er það ekki mjög gæfulegt kerfi sem grundvallast á því að menn veiti einstaklingum stuðning ef þeir setji sig í skuldir áður. Hér er því um að ræða kerfi sem grundvallast á þeirri hugsun að menn þurfi að stofna til skulda. Það er að mínu viti ekki rétt markmið. Rétt markmið er að styðja menn til að eignast íbúðir og það á að beina þeim stuðningi beint til þessa markmiðs en ekki til einhverra hliðarmarkmiða eða annarra markmiða eins og það að koma mönnum í skuldir.

Í öðru lagi er dálítill vandi að dreifa stuðningi ríkisins réttlátt þegar svona er því að aðstæður eru mjög margbreytilegar eftir tekjum og öðrum fjölskylduaðstæðum. Það er því mjög vandasamt að miða út dreifingu fjárhæðarinnar sem ætluð er í þessu skyni þannig að hún verði eins og menn ætla.

Einfaldasta kerfið er það sem við höfum búið við, sem er einfaldlega að láta stuðninginn koma fram í lægri vöxtum. Það er miklu einfaldara og það er miklu ódýrara. Það þarf ekki að koma upp sérstöku tölvukerfi til þess að reikna út alla vextina sem íbúðarkaupendurnir hafi þurft að greiða. Þeir þurfa ekki að hafa fyrir því að draga þau gögn saman og telja það fram í skattframtali sínu og skattstofurnar að fara yfir það. Síðan tilheyrandi bréfaskriftir á milli framteljenda og skattstofu áður en ákvörðuð er vaxtafjárhæðin sem til greina kemur, og síðan er annað kerfi sem greiðir út bætur eftir þessu. Það þarf því bæði kostnað og mannafla við að koma þessum peningum út. Einfaldasta kerfið er að hafa fasta vexti.

Ef við trúum því sem ríkisstjórnin segir að hún ætli að gera breytingar sem kosta 1.200 millj. kr. öðrum megin og koma síðan með mótvægisaðgerðir sem kosta 1.200 millj. hinum megin þannig að nettótalan sé núll í breytingunni, hver er þá tilgangurinn? Ef allir eru jafnsettir eftir breytingu eins og þeir voru fyrir breytingu, hver er þá tilgangurinn, herra forseti? Ef við breytum kerfi með föstum vöxtum yfir í annað kerfi með markaðsvöxtum og endurgreiðum hluta af vöxtunum, hver er tilgangurinn?

Herra forseti. Ég trúi því bara ekki að það sé tilgangur ríkisstjórnarinnar að útkoman úr dæminu verði núll.

Ég held að tilgangur ríkisstjórnarinnar sé sá að einhverjir fái minna eftir breytinguna en þeir fá núna fyrir breytingu. Ég segi það fullum fetum, herra forseti, að ég legg ekki trúnað á þetta markmið. Menn eru ekki að gera þessa breytingu með þeim kostnaði sem því tilheyrir bæði í rekstri og þeirri fyrirhöfn að koma henni á nema fyrir ríkisstjórninni vaki það markmið að einhverjir þeirra sem í dag búa við fasta vexti eigi að vera verr settir eftir breytingu en núna. Það getur ekkert annað markmið verið með því fyrirkomulagi.

Ég vil, herra forseti, aðeins forvitnast nánar um hvernig ríkisstjórnin hyggst leysa fjárhagslega stöðu byggingarsjóðanna eftir breytingu. Það kemur fram í grg. fjmrn. með frv. að framlag ríkissjóðs til Byggingarsjóðs verkamanna sem nemur 275 millj. kr. eigi að falla niður þegar í stað. Það hefur verið rifjað upp að fjárhagsstaða þess sjóðs var stillt af, miðað við tilteknar forsendur árið 1993, um fjölda framkvæmdalána ár hvert, um vexti á útlánum sjóðsins og um greiðslur úr ríkissjóði til þess að núllstilla sjóðinn. Það var niðurstaða þáv. ríkisstjórnar og þáv. fjmrh., sem enn er sá sami, að það þyrfti, á verðlagi í dag, að greiða um 1.300 millj. kr. ár hvert úr ríkissjóði til Byggingarsjóðs verkamanna til að ganga ekki á eigið fé þess sjóðs.

Þetta hefur verið skert, ekki bara einu sinni síðan 1993, heldur hvert einasta ár síðan 1993. Skerðingin á þessu ári er um liðlega 1 milljarður króna, enda gera fjárlög íslenska ríkisins ráð fyrir því að um 800 millj. kr. halli verði á rekstri Byggingarsjóðs verkamanna á þessu ári.

Nú á ekki að leggja neitt framlag í sjóðinn í framtíðinni, engar 275 milljónir eins og á þessu ári. Það á ekki, segir hæstv. forsrh., að breyta vöxtum á þeim lánum sem þegar eru útistandandi, þannig að sjóðurinn á ekki að fá inn meiri tekjur í gegnum hærri vexti. Þá spyr ég: Hvernig ætlar ríkisstjórnin að komast hjá því að Byggingarsjóður verkamanna verði gjaldþrota á fáeinum árum eftir þessa breytingu? Hvar eru peningarnir sem þarf til þess að standa undir skuldbindingum sjóðsins? (Gripið fram í.) Hér segir hinn spakvitri utanflokkaþingmaður, formaður félmn.: Taka þá úr Byggingarsjóði ríkisins. (Gripið fram í: Það á að sameina sjóðina.) Minni ég þingmanninn á að samkvæmt fjárlögum íslenska ríkisins fyrir þetta ár er gert ráð fyrir að tap af rekstri Byggingarsjóðs ríkisins verði 874 millj. kr. á þessu ári. Ég segi nú, herra forseti, að þangað er ekki mikla peninga að sækja til að borga tapið á Byggingarsjóði verkamanna. Þegar báðir sjóðirnir eru reknir með miklu tapi sem nemur 1.674 millj. kr. á þessu ári, og verða það á næstu árum að óbreyttu vaxtastigi á útlánum sjóðsins, þá spyr ég hæstv. forsrh.: Hvernig ætlar ríkisstjórnin að koma í veg fyrir það að þessir sjóðir verði gjaldþrota á fáeinum árum? Ég sé ekki betur en að í þessi frv. vanti að gera grein fyrir þeim fjármunum. Hver á að borga þessa fjármuni?

Ég vil líka segja, herra forseti, um það sem fram kemur í grg. eða fskj. með þessu frv. um kostnaðaráhrif af breytingunni, að mér finnst það þurfa frekari skýringa við. Mér er það ljóst að þegar menn gera breytingu á þann veg að vaxtabætur verða greiddar fyrir fram, sem kallað er, þá flýtir það greiðslum, ríkissjóður verður fyrr fyrir útgjöldum en annars hefði orðið. En ég fæ ekki séð að ríkissjóður verði fyrir meiri útgjöldum, það dreifir bara útgjöldunum öðruvísi en annars hefði verið. Ég spyr því hvernig hæstv. fjmrh. fær það út í sinni umsögn að þessi flýting þýði allt að 500 millj. kr. á ársgrundvelli í aukin útgjöld ríkissjóðs. Einhvern tímann hljóta útgjöld ríkisins að minnka á móti breytingunni. Ég óska því eftir, herra forseti, að reynt verði að varpa ljósi á þá fullyrðingu um kostnaðaráhrif af breytingunni sem rakin er í fskj.

Ég gleymdi því áðan þegar ég var að ræða um fjárhagsstöðu byggingarsjóðanna --- og það er kannski rétt að ég minnist á það núna svo það falli ekki alveg niður --- að mér sýnist alveg einsýnt að miðað við þetta upplegg málsins sé fjárhagsstaða beggja byggingarsjóðanna í uppnámi og gildir einu þó að þeir verði sameinaðir og skipt um nafn. Það verður stórfellt tap ár hvert á næstu árum miðað við þessa framsetningu málsins. Ég spyr því hæstv. forsrh.: Getur verið að ríkisstjórnin hugsi sér að brúa þetta gat eða bil með því að hækka vexti á þeim lánum sem eru í dag í byggingarsjóðunum? Er það yfirvofandi að ríkisstjórnin muni taka ákvörðun á næstunni um að hækka vextina á lánum Byggingarsjóðs ríkisins og lánum Byggingarsjóðs verkamanna? Það er eina leiðin sem ég sé að ríkisstjórnin hafi til að loka því fjárhagsgati sem er hjá byggingarsjóðunum, og gerð er grein fyrir í fjárlögum íslenska ríkisins sem ríkisstjórnin lagði fram.

Vextir á lánum, útlánum Byggingarsjóðs verkamanna, eru um þessar mundir 2,4%. Hvað eiga þeir vextir að hækka mikið, herra forseti? Það er alveg nauðsynlegt að hæstv. forsrh. geri grein fyrir áformum ríkisstjórnarinnar í þessum efnum.

Ég vil svo víkja að einu atriði sem ég rak augun í þegar ég var að lesa frv. áðan, sem ekki kom fram í umræðunni um húsnæðismál eða því frv. að gert er ráð fyrir því að hinn nýi sjóður sem á að verða til, Íbúðalánasjóður, eigi að vera rekinn á markaðsforsendum. Það vissum við út af fyrir sig. En það kemur líka fram að gert er ráð fyrir því að afnema ríkisábyrgð á lánveitingum sjóðsins. Það er stórmál, herra forseti, sem ég held að hæstv. félmrh. verði að segja nokkur orð um, því að það vitum við að ef ríkisábyrgðin verður afnumin þá munu vextir hækka, þá munu vextir sjóðsins hækka. Ef menn afnema ríkisábyrgðina af húsbréfunum munu vextir í húsbréfakerfinu hækka. Er það markmið ríkisstjórnarinnar að afnema ríkisábyrgðina, eins og getið er um í athugasemdum, og hefur ríkisstjórnin tekið þá ákvörðun að vaxtahækkunin sem af því leiði eigi að ganga yfir þá sem taka munu lán þarna?

Annað atriði leiðir af því þegar ríkisábyrgð er afnumin. Hvernig ætlar ríkisstjórnin þá að tryggja jafnrétti þeirra sem taka lán hjá sjóðnum hvað varðar veð fyrir lánum sjóðsins? En það er einn af stóru kostunum í núverandi húsnæðislánakerfi að það skiptir ekki máli hvar menn búa. Íbúðirnar eru teknar gildar sem veð fyrir lánunum eftir ákveðnum reglum, og það er ríkisábyrgðin sem gerir það kleift að svona er. Ef menn afnema hana sé ég ekki annað en að þeir sem búa austur á Höfn í Hornafirði eða annars staðar megi sæta því að sjóðurinn muni neita að lána þeim, hann muni neita að lána þeim vegna skorts á veðum. Eru það markmið hæstv. félmrh. að þeir sem eiga eftir að taka lán á komandi árum og búa úti á landi megi búast við að þeim verði synjað um lán eða bara boðinn hluti af láni miðað við ef íbúðir þeirra væru á höfuðborgarsvæðinu? Ég fæ ekki betur séð, herra forseti, en að þetta sé yfirvofandi í kjölfar þess markmiðs sem hér er lýst, að það eigi að afnema ríkisábyrgð á lántökum sjóðsins. Það leiði annars vegar til hærri vaxta og hins vegar til lægri lána úti á landi. Nauðsynlegt er að ríkisstjórnin taki af skarið um það hver áform hennar eru í þessum efnum svo að menn búi ekki við óvissu hvað það varðar, eða viti það þá fyrir víst ef þetta er það sem að er stefnt.

Ég vil að lokum segja, herra forseti, varðandi áhrifin af þessari stefnu um markaðsvexti á útlánum, að ég fæ ekki betur séð en að það muni leiða til þess að íbúðum sem verða í boði til leigu muni fækka. Það verði færri íbúðir í boði sem leiguíbúðir eftir þessa lagabreytingu en fyrir. Af þeirri einföldu ástæðu að dýrara verður að eiga þessar íbúðir þegar búið er að hækka vextina, og það verður óarðbærara fyrir þann sem á íbúðina að leigja hana út. Hann fær engar vaxtabætur af því. Ég fæ því ekki betur séð, herra forseti, en að sú aðferð um markaðsvexti á útlánahliðinni leiði til þess að leiguíbúðamarkaðurinn hlýtur að dragast saman. Ekki eru það þau áhrif sem þarf til að mæta því að óhjákvæmilega verða þeir færri sem munu uppfylla skilyrði um lánveitingar en nú er. Þar af leiðandi þyrfti að vera meira framboð á leiguhúsnæði eftir þessa lagabreytingu en er í dag.

Herra forseti. Ég hef þá í fáeinum orðum farið yfir þau helstu atriði sem ég vildi gera að umfjöllunarefni við þessa umræðu málsins.