Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 17. mars 1998, kl. 16:01:01 (4728)

1998-03-17 16:01:01# 122. lþ. 89.2 fundur 524. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (vaxtabætur) frv., forsrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 122. lþ.

[16:01]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. gerði athugasemdir við tvö, þrjú atriði sem hann vildi ræða og fá frekari skýringar á. Ég taldi mig hafa svarað þessu áður í umræðum við aðra hv. þm. varðandi umsögn fjmrn. og þann sparnað sem þar er nefndur eins og segir, með leyfi forseta:

,,Í þessu sambandi skal bent á að samhliða þessu fellur niður 275 millj. kr. framlag til Byggingarsjóðs verkamanna sem veitt hefur verið í fjárlögum til að mæta vaxtamun veittra og tekinna lána sjóðsins.``

Þarna er verið að vísa til þess að við hina breyttu skipan þarf ekki í hvert sinn á hverju ári í framtíðinni að veita til sjóðsins fjármuni til að dekka hina niðurgreiddu vexti. Ríkissjóður ber auðvitað áfram ábyrgð hér eftir sem hingað til á öðrum skuldbindingum sínum. Það breytist ekki með þessu frv. Þess vegna er það ekki tekið sérstaklega fram í frv. Þetta liggur nokkurn veginn alveg ljóst fyrir hygg ég ef menn athuga það.

Hv. þm. gerði einnig athugasemd við það að menn væru að tala um að þessi fyrirframgreiðsla eða flýting vaxtabótanna gæti aukið árleg útgjöld ríkissjóðs um allt að 500 millj. kr. Það var tekið fram sérstaklega að þetta væri tímabundið, að þetta gæti gerst á næstu 5--8 árum en síðan mundi þetta jafnast út í framtíðinni. Þarna er um flýtikostnað að ræða sem ríkissjóður ber kostnað af.

Varðandi það hvaða afleiðingar það hefði að taka ríkis\-ábyrgðina af þessum lánum þá er sérstaklega gerð grein fyrir því að menn gerðu ráð fyrir því að Íbúðalánasjóðurinn yrði í framtíðinni svo öflugur og sjálfstæður fjárhagslegur sjóður eða fjárhagslega sjálfstæð stofnun að hún stæði undir því án nokkurra skakkafalla að ábyrgð yrði tekin af þannig að ekki þyrfti af þeim ástæðum að koma til neinna vaxtahækkana.