Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 17. mars 1998, kl. 16:03:32 (4729)

1998-03-17 16:03:32# 122. lþ. 89.2 fundur 524. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (vaxtabætur) frv., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 122. lþ.

[16:03]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Það stendur í þessu fylgiskjali fjmrn. svo ekki verður misskilið að áformað er að fella niður 275 millj. kr. framlag til Byggingarsjóðs verkamanna strax. Það er ekki boðað í þessari umsögn að þessar 275 millj. eigi að vera árlegt framlag ríkissjóðs meðan núverandi kerfi endist. Nei. Það er boðað að það eigi að fella þessa greiðslu niður strax. Hún mun leiða af sér enn verri fjárhagsstöðu byggingarsjóðanna en nú er (Forsrh.: Þetta er ekki rétt. Þetta er misskilningur.) Nei, þetta er enginn misskilningur, herra forseti. Það vantar inn í báða byggingarsjóðina framlög til þess að þeir standi undir sér. Það er gert ráð fyrir því að þeir séu reknir með verulegu tapi á þessu ári, Byggingarsjóður verkamanna 800 millj. kr. og Byggingarsjóður ríkisins 874 millj. kr. Tap þýðir einfaldlega að gengið er á eigið fé og ef ekki koma til peningar inn í þessa sjóði á næstu árum, þá heldur áfram að ganga á eigið fé. Þetta var einu sinni fyrir mörgum árum kallað að safna upp fortíðarvanda, herra forseti, og var þekkt hugtak í stjórnmálaumræðunni.

Ég vil svo segja varðandi hitt atriðið sem hæstv. forsrh. nefndi að sjóðurinn ætti að verða það sterkur að hann þyrfti ekki ríkisábyrgð og gæti þess vegna tekið skakkaföllum af eigin rammleik. En við eigum eftir að sjá, herra forseti, hvernig sjóðurinn ætlar þá að komast hjá skakkaföllunum. Hann mun auðvitað gera það, ef ég met málið rétt, með því að draga úr áhættulánum, með því að lækka lánin út á land.