Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 17. mars 1998, kl. 16:06:57 (4731)

1998-03-17 16:06:57# 122. lþ. 89.2 fundur 524. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (vaxtabætur) frv., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 122. lþ.

[16:06]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Það mætti kannski segja að það væri betra ef þetta væri misskilningur en hæstv. forsrh. hefur ekki sannfært mig um að þetta sé neinn misskilningur. Það er nefnilega svo að það er mismunur á lánum Byggingarsjóðs verkamanna þannig að þau lán sem sjóðurinn tekur bera hærri vexti en þau lán sem sjóðurinn veitir sem nemur umtalsverðum fjármunum á hverju ári. Þess vegna þarf á hverju ári, á meðan þessi lán eru til, að gera ráð fyrir að mismunurinn komi úr ríkissjóði, (Gripið fram í.) eiganda sjóðsins. Það er ekki hægt að fella niður framlag ríkissjóðs á næsta ári og segja að eftir það standi þessi vaxtamismunur ... (Forsrh.: ... nýjum lánum.) Það er allt annað mál. Gömlu lánin eru til (Forsrh.: Já, já.) og þau eiga sinn líftíma, bæði þau lán sem sjóðurinn á útistandandi og þau sem hann skuldar öðrum. (Gripið fram í.) Þar er vaxtamunur og þar eru óframkomin útgjöld sem ríkissjóður verður að gera ráð fyrir að þurfi að borga. (Forsrh.: ... og í ár og minnkar og minnkar smám saman á árinu þannig að við þurfum ekki að ....) Til þess að ríkissjóður stæði undir þessum mismun hefði hann þurft að leggja 1.300 millj. kr. á þessu ári til Byggingarsjóðs verkamanna. Það gerir hann ekki heldur 275 millj. Þess vegna gengur á eigið fé sjóðsins. Og þegar hann hættir líka að leggja til þessar 275 millj. þá heldur áfram að ganga á eigið féð sjóðsins þannig að ég verð að segja, herra forseti, að hæstv. forsrh. verður að gefa sér betri tíma til þess að reyna að sannfæra mig um þessar reiknikúnstir hans og ríkisstjórnar hans.