Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 17. mars 1998, kl. 16:08:35 (4732)

1998-03-17 16:08:35# 122. lþ. 89.2 fundur 524. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (vaxtabætur) frv., JóhS
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 122. lþ.

[16:08]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Andsvör forsrh. áðan gáfu mér tilefni til þess að fara í frekari umræðu um þetta mál. Ég held að við þurfum að ræða frekar það sem hefur komið fram, að með útgreiðslu á vaxtabótunum á að mismuna fólki. Ég held að við verðum aðeins að skoða, fyrir utan það óréttlæti sem í því felst að mismuna fólki í útgreiðslu á vaxtabótum, hvaða áhrif það getur líka haft.

Ef fólk áttar sig á því, sem það væntanlega gerir, þeir sem eru í íbúðarhugleiðingum og kaupum núna á næstunni og næstu vikum og mánuðum og heyra að vaxtabótagreiðslur verða miklu hagstæðari fyrir þá eftir 1. janúar ef frv. þetta verður að lögum, þ.e. þeir fái greiðslurnar ársfjórðungslega ef kaupin fara fram í janúar á næsta ári en ef þeir geri kaup sín fyrir áramót, þá fái þeir vaxtabótagreiðslur kannski ári seinna --- í núverandi kerfi hefur það verið einu til einu og hálfu ári seinna --- hvað þýðir það þá, herra forseti? Gæti það ekki haft þau áhrif að margir mundu fresta sínum kaupum fram til næstu áramóta þannig að mjög margir mundu gera sín kaup í byrjun næsta árs, biðu með sín kaup? Hvað þýddi það fyrir afföll á húsbréfum ef mikið af húsbréfum færi út á markaðinn á fyrstu vikum næsta árs af því að menn væru að bíða eftir hagstæðara vaxtabótakerfi í útgreiðslum fyrir þá? Ég held að menn verði aðeins að átta sig á því. Menn verða líka að átta sig á því að þessi útgreiðsla á vaxtabótunum sem verður ársfjórðungslega frá og með næstu áramótum gildir ekki bara fyrir þá sem fá viðbótarlán eða það sem ríkisstjórnin kallar félagslega aðstoð heldur líka fyrir þá sem fara á almennan markað og fá bara húsbréfalán. Ég sé ekki annað en það sé bæði verið að mismuna fólki og taka verulega áhættu í því að margir fresti sínum kaupum og margir ráðist í kaup á sama tíma en það getur haft áhrif á ávöxtunarkröfu húsbréfa. Ég held að þetta liggi alveg fyrir.

Ég spái því, herra forseti, að sú krafa muni verða mjög hávær á næstu vikum og mánuðum og þegar fólk er farið að átta sig á þessu á næsta ári, um að allir sitji við sama borð að því er varðar útgreiðslu á vaxtabótum þannig að þegar menn eru einu sinni búnir að taka upp þetta kerfi að greiða vaxtabætur ársfjórðungslega, þá mun krafan verða mjög hávær um að allir sitji við sama borð í þessu efni. Ég hvet því hv. efh.- og viðskn. til að skoða mjög alvarlega hvað hér er á ferðinni, þ.e. að verið er að taka upp tvö vaxtabótakerfi í raun og sanni að því er útgreiðslurnar varðar.

Ég stóð ekki síður upp til þess að ræða það þegar hæstv. forsrh. sagði að með þessum breytingum væru menn að losa sig við óþarfa kostnað. Væntanlega meinti hæstv. forsrh. hjá ríkinu. En á hvern er verið að setja þennan kostnað? Það er verið að færa þennan kostnað sem ríkið hefur haft yfir á einstaklinga og yfir á sveitarfélögin. Ég held að við verðum að gera það upp við okkur, bæði gagnvart ríki og sveitarfélögum, hvort við viljum halda uppi félagslegri aðstoð við fólk í húsnæðismálum. Ef svarið við því er já, þá verðum við jafnframt að gera okkur grein fyrir því að það kostar peninga. Ég minni á í þessu sambandi að félagsleg aðstoð í húsnæðismálum, félagsleg aðstoð almennt gagnvart láglaunafólki, er miklu meiri t.d. á hinum Norðurlöndunum en hér og hér er verið að færa kostnað frá ríkinu yfir á einstaklinga og sveitarfélög.

Ég nefndi áðan greiðslubyrðina, þakið í vaxtabótakerfinu. Ég ætla líka að nefna annan kostnað af því að ég vænti þess að hæstv. forsrh. vilji gjarnan kynna sér þetta mál. Sýnt hefur verið fram á að kostnaður sem sá sem færi á annað borð inn í þetta nýja kerfi tekur á sig bara við að komast inn í kerfið er miklu meiri en í núverandi kerfi. Útreikningar sýna fram á að beinn kostnaður sem fólk þarf að taka á sig í ýmsum gjöldum, lántökugjöldum, sölulaunum, greiðslumati, þinglýsingargjöldum og stimpilgjöldum er um 56 þús. kr. í núverandi kerfi miðaður við einsætt foreldri sem kaupir sér íbúð á 5,5 millj. En líka hefur verið reiknað út að í núverandi kerfi þyrfti þessi sama einstæða móðir sem kaupir sér þessa stærð af íbúð að greiða 134 þús. kr. í kostnað bara við að komast inn í íbúðina. Það eru töluverð útgjöld fyrir fólk sem er með um eða innan við 100 þús. kr. á mánuði. Það eru nálægt því að vera ein mánaðarlaun hjá fólki bara að komast inn í íbúðina.

Ætli fólkið út úr þessum íbúðum, þá borgar það í dag --- við skulum segja þessi sama einstæða móðir --- 27.500 kr. En nú þarf hún að borga fasteignasölum sem kætast mjög þessa dagana og hún þarf að setja í vasa þeirra 110 þús. kr. þegar hún selur þessa íbúð þannig að verið er að velta kostnaði yfir á einstaklingana.

Ég vil aðeins ræða nánar um þessi dæmi sem ég nefndi af því að hæstv. forsrh. vildi greinilega meina að ég væri að nefna dæmi sem væru ekki raunhæf. Í þessari athugun sem ég hef látið gera á kaupum, þ.e. fyrir fyrstu tíu árin, þá er alveg sama hvort skoðaður er einstaklingur sem hefur 800 þús. kr. í tekjur og allt fram undir 1.900 þús. kr. því þeir sem eru á þessu tekjubili reka sig allir á þetta vaxtabótaþak. Síðan þurfa þeir að taka á sig þann mismun sem er á núverandi niðurgreiðslukerfi og því sem er í vaxtabótunum og það eru 3.000--63.000 kr. eftir því á hvaða tekjubili viðkomandi einstaklingur er ef hann er að kaupa sér íbúð, segjum fyrir 7,3 millj. Ég býst við, ef við erum að tala um einstæða móður með þrjú börn, að það kosti 7,3 millj. kr. að fá íbúð, kannski þriggja herbergja, sem hún þarf á að halda og þá borgar hún 52 þús. kr. minna á ári í núverandi kerfi en ef hún færi inn í vaxtabótakerfið.

[16:15]

Ég sé ekki annað en að verið sé að beina öllum einstaklingum, öllum einstæðum foreldrum sem á annað borð fá aðgang inn í kerfið, inn í mjög ódýrar íbúðir upp á 5--6 millj. kr. þar sem er þá er verið að draga mjög verulega úr gæðum á þeim íbúðum sem fólk hefur og fyrir utan það að draga úr því að fólk geti valið um íbúðir vegna þess að það er ekki víða í bænum sem hægt er að fá tveggja til þriggja herbergja íbúðir á 5--6 millj. kr. og a.m.k. ekki nýjar íbúðir. Ég nefndi það og vil halda því til haga að af 313 einstæðum foreldrum sem fengu úthlutað hjá Húsnæðisnefnd Reykjavíkur á síðasta ári voru 196 eða milli 60 og 70% sem fengu íbúðir sem kostuðu um 6 millj. kr. Allir útreikningar sem ég er með sýna að vaxtabótakerfið hefði verið þessum einstæðu foreldrum óhagstæðara en núverandi niðurgreiðslukerfi.

Þess vegna spyr ég hæstv. forsrh. að því, herra forseti: Er hæstv. forsrh. tilbúinn að beita sér fyrir því að þakið verði hækkað varðandi einstæða foreldra, sem núna er 185 þús., þ.e. hámark vaxtabóta sem má greiða og hámark vaxtabóta hjá einstakling er 144 þús., ef í ljós kemur að þetta er miklu óhagstæðara fyrir þessa einstaklinga og einstæða foreldra en í núverandi niðurgreiðslukerfi? Ég held að mjög mikilvægt sé, herra forseti, að fá það fram vegna þess að útreikningarnir sýna að það sé nauðsynlegt.

Að því er varðar hjónin er hámark vaxtabóta miklu meira og útreikningar sýna að þakið í vaxtabótum er allt öðruvísi gagnvart hjónum en einstaklingum og einstæðum foreldrum. Þar fyrir utan, herra forseti, hefur verið sýnt fram á að á síðari hluta lánstímans hækkar árleg greiðslubyrði hjá fólki um 100--150 þús. kr. og það er ekkert smáræði, herra forseti. Fyrir utan það þarf fólk að taka á sig 3,5% af íbúðaverði sem sveitarfélögin hafa greitt fyrir fólk fram til þessa dags. Þarna er um verulega breytingu að ræða.

Herra forseti. Af því að ég veit að hæstv. forsrh. er mikill áhugamaður um hag sveitarfélaganna hefði ég viljað ræða ítarlega um einstök áhrif af frv. félmrh. á sveitarfélögin. Það er verið að færa verulegan kostnað yfir á sveitarfélögin. Það er verið að færa niðurgreiðslu sem verið hefur hjá ríkinu yfir til sveitarfélaganna í formi verulegra útgjaldaaukningar hjá sveitarfélögum gegnum húsaleigubótakerfið og uppbyggingu á leiguíbúðum af því að stór fjöldi fólks, hundruð fjölskyldna á ári hverju, fær ekki aðgang að þessu kerfi ásamt ýmsum fleiri atriðum sem er verið að setja á sveitarfélögin sem ég hef ekki tíma til að gera grein fyrir.

Ég spyr hæstv. forsrh. sérstaklega um hámark vaxtabóta. Kemur til greina að breyta þakinu varðandi einstaklinga og einstæða foreldra?