Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 17. mars 1998, kl. 16:19:18 (4733)

1998-03-17 16:19:18# 122. lþ. 89.2 fundur 524. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (vaxtabætur) frv., forsrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 122. lþ.

[16:19]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég vek athygli á því að meðal sveitarstjórnarmanna og sveitarfélaga er víðtækur stuðningur með þeim kerfisbreytingum og þeirri skipan sem hæstv. félmrh. hefur kynnt á þessum málum þessum þannig að ég held að við ættum að taka mark á sjónarmiðum þeirra sem starfa á vettvangi.

Í annan stað vil ég segja að auðvitað er ég þeirrar skoðunar eins og við flest inni í þessu húsi að það þarf að koma til víðtækur samfélagslegur stuðningur til þess að stuðla að því að fólk geti eignast þak yfir höfuðið. Um það er þokkaleg sátt í þjóðfélaginu sem betur fer. Þess vegna ætti líka að geta verið sátt um það að þegar koma fram tillögur sem draga úr þeim kostnaði sem ríkið hefur af því að ná þeim markmiðum, kostnaði sem er ekki velt yfir á einstaklinga, það er verið að gera hagkvæmara kerfi, skilvirkara, markvissara sem dregur úr kostnaði og þess vegna verður meira aflögu til þess að beina þeim markmiðum sem við viljum sjá til að hjálpa fólki að koma sér þaki yfir höfuðið. Þetta er megininntakið í þeim frv. sem hæstv. félmrh. hefur lagt fram og því frv. sem ég hef mælt fyrir fyrir hönd fjmrh.

Varðandi hina beinu spurningu tel ég ekki efni til þess að breyta þeirri skipan sem við höfum gert ráð fyrir miðað við þau rök sem fram hafa komið eins og staðan er núna.