Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 17. mars 1998, kl. 16:46:26 (4738)

1998-03-17 16:46:26# 122. lþ. 89.2 fundur 524. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (vaxtabætur) frv., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 122. lþ.

[16:46]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Núverandi hámark á vaxtabótum segir ekkert til um það, eins og ráðherrann heldur fram, að íbúðirnar séu of dýrar. Það segir okkur einfaldlega að ráðherrann ætlar ekki að standa við það sem hann hefur sagt, að fólk verði jafnsett með vaxtabótum eins og niðurgreiðslum í núverandi kerfi. Ég harma það, herra forseti, að ráðherrann vilji ekki einu sinni skoða það að beita sér fyrir því að breyta hámarkinu á vaxtabótunum, jafnvel þó að sýnt sé fram á að einstaklingar og einstæðir foreldrar verða verr úti í vaxtabótakerfinu. Hæstv. ráðherra viðurkennir að hið nýja greiðslumat geti leitt til þrengingar og enn fleiri verði á götunni en við höfum nefnt. Hann nefnir að ekkert verði vitað um þetta fyrr en ný stjórn Íbúðalánasjóðs tekur við. Alþingi á að afgreiða málið frá sér án þess að vita hvernig þetta nýja greiðslumat verður og niðurstöðuna um hve margar félagslegar leiguíbúðir verða eigum við ekkert að vita fyrr en við næstu fjárlagaafgreiðslu. Raunverulega eigum við ekki að vita neitt um framhaldið fyrr en búið er að semja við sveitarfélögin í árslok 2000. Þetta er ekki bjóðandi þinginu, herra forseti.