Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 17. mars 1998, kl. 16:52:55 (4742)

1998-03-17 16:52:55# 122. lþ. 89.2 fundur 524. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (vaxtabætur) frv., RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 122. lþ.

[16:52]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegur forseti. Við vorum reyndar ekki að tala um endurgreiðslur eða innlausnir heldur greiðslubyrðina þar sem ég notaði ekki rétt orð. En um það sem hæstv. ráðherra segir að nú sé rétti tíminn til að eiga viðræður við verkalýðshreyfinguna og hann sé fús að taka tillit til sjónarmiða sem fram kunna að koma, þá geri ég mér fyllilega grein fyrir því að hin snarpa umræða sem hefur átt sér stað í þessum sal hefur auðvitað bæði opnað augu ráðherrans sem og annarra stjórnarliða fyrir því að mjög mikilvægt er að breyta því frv. sem hér hefur verið lagt fram. Það breytir því ekki að ef virðing væri fyrir Alþingi og þingmönnum sem hér starfa, þá væri auðvitað farið í þá forvinnu sem hver ráðherra telur mikilvæga fyrir fram og síðan komið inn með frv. og staðið við það. En hér eru einhvers konar handarbaksvinnubrögð að bægslast með frv. inn eins og hæstv. ráðherra á vanda til og síðan á að fara í viðræður um hvaða bætur sé hugsanlegt að gera á því til að eiga möguleika á að ná því fram með einhverju móti.