Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 17. mars 1998, kl. 17:27:25 (4753)

1998-03-17 17:27:25# 122. lþ. 89.2 fundur 524. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (vaxtabætur) frv., félmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 122. lþ.

[17:27]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. 8. þm. Reykv. fyrir málefnalega ræðu. ,,Hvaða galdrar?``, spurði hann. Einn þátturinn er sá að lánasamsetningin verður önnur. Lánasamsetningin er ekki hagstæð hjá byggingarsjóðunum eins og þeir eru. Þegar þeir eru orðnir að einum byggingarsjóði eiga þeir kost á bestu lánskjörum og geta skuldbreytt og hagrætt hjá sér. Þetta er svona á sinn máta eins og þegar fátæklingur fær sér ríkt kvonfang. Þá getur vel verið að sameiginlega ávaxtist þetta allt og verði að gróðabúskap.

Ég hef allan tímann skoðað þessi mál frá sjónarhorni tekjulágra og það er einmitt tilgangurinn með þessari breytingu númer eitt að reyna að koma upp kerfi sem er hentugt og farsælt fyrir hina tekjulágu í þjóðfélaginu. Það er akkúrat lykilorðið. Og jafnframt bærilegt fyrir ríkissjóð, bærilegt fyrir sveitarfélögin og að ríkissjóður sé a.m.k. jafnsettur og áður. Þetta held ég að hafi tekist. Ég tel að hið nýja kerfi sé betra fyrir notendur, betra fyrir sveitarfélögin og áþekkt fyrir ríkissjóð.