Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 17. mars 1998, kl. 17:31:42 (4756)

1998-03-17 17:31:42# 122. lþ. 89.2 fundur 524. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (vaxtabætur) frv., SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 122. lþ.

[17:31]

Svavar Gestsson (andsvar):

Herra forseti. Ég spái því að menn komi alveg eins til með að vilja úr nýja kerfinu í það gamla. Ég spyr hæstv. ráðherra að því hvort hann treysti sér til þess að heimila að menn geti valið á milli kerfa, a.m.k. hluta þess tíma sem þessi kerfisbreyting yrði á, t.d. í 10 eða 20 ár. Ég spái því að óskirnar um tilflutning verði fremur á þann veginn en eins og ráðherra gerði ráð fyrir áðan.

Varðandi málið í heild verð ég að endurtaka það sem ég sagði áðan. Bersýnilegt er að málið er mjög losaralegt og margt óljóst enn þá. Við verðum auðvitað að ætlast til að verkið verði unnið aðeins betur, bæði varðandi þennan fortíðarvanda, sem við höfum verið að skiptast á skoðunum um, en þó alveg sérstaklega um stöðu fólksins sem á kaupa þetta húsnæði. Ég giska á að það séu 10--20 meira og minna opin heimildarákvæði í báðum þessum frv. Í raun og veru geta menn ekkert sagt til um hvar þær heimildir lenda. Mér liggur við að segja að það sé siðlaust, a.m.k. fráleitt, að afgreiða þessi mál öðruvísi en að fækka heimildarákvæðunum og festa ákvæðin skýrar í lög.