Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 17. mars 1998, kl. 18:02:47 (4759)

1998-03-17 18:02:47# 122. lþ. 89.3 fundur 553. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (skatthlutfall fyrirtækja, arðgreiðslur o.fl.) frv., forsrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 122. lþ.

[18:02]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef ekki setið í stjórn jafnmargra fyrirtækja og hv. þm. svo að ég áttaði mig ekki á að þau eru eins illa rekin og hv. þm. nefnir. Hann hefur kannski verið óheppinn að þessi fjölmörgu fyrirtæki sem hann setið í stjórn hjá séu óvenjulega illa rekin fyrirtæki, það má vel vera. Ég hef ekki þá reynslu sem hann hefur í þeim efnum. Ég bendi hins vegar á að hér var skattur á fyrirtækjum 50% og það hefur sjálfsagt glatt hv. þm. En sú skattprósenta skilaði ekki miklum skatti til ríkisins, fjarri því, og flestir sem til þekktu töldu að svo há skattprósenta ýtti undir skattsvik hjá fyrirtækjum en ekki hið gagnstæða. Flestum skynsamari mönnum þótti skynsamlegt að lækka þá skattprósentu í þágu fyrirtækjanna, í þágu þeirra starfsmanna sem þurftu að fá vinnu því að atvinnuleysi var í landinu og í þágu ríkisins líka enda skilar þessi skattur núna meira fjármagni til ríkissjóðs en 50% skattur áður.

Hv. þm. nefndi fyrirtæki til sögunnar til að draga fram dæmi. Hann sagði jafnframt: Þegar núverandi ríkisstjórn setti á fjármagnstekjuskattinn gekk hún gegn sjónarmiðum okkar jafnaðarmanna. Svo við nefnum sem dæmi: Ef hv. þm. fær sendan heim til sín tékka, kannski 3,5 millj. kr. á ári af arði hlutabréfa --- Frjáls verslun telur það reyndar vera þrefalt hærra --- áður en ríkisstjórnin lagði á fjármagnstekjuskatt borgaði hv. þm. engan skatt af þessum fjármunum. Eftir að ríkisstjórnin lagði hins vegar fram tillögu sína um fjármagnstekjuskatt varð hv. þm. þó að borga 350 þús. kr. skatt. Er þingmaðurinn að segja að þetta sé í andstöðu við stefnu jafnaðarmanna? Fyrir fjármagnstekjuskatt ríkisstjórnarinnar borgaði hv. þm. engan skatt af þessari tölu sem Frjáls verslun segir reyndar að sé allt of lág tala. Hann getur sjálfsagt svarað þessu skiljanlegar en hann gerði áðan.

En þetta er ekki meginatriði málsins. Meginatriði frv. eru þau að verið er að taka af tvísköttun, hér er verið að samræma hlutina við það sem gerist annars staðar og hafa það í samræmi við viðskiptalegt umhverfi sem menn þekkja annars staðar.