Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 17. mars 1998, kl. 18:05:02 (4760)

1998-03-17 18:05:02# 122. lþ. 89.3 fundur 553. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (skatthlutfall fyrirtækja, arðgreiðslur o.fl.) frv., ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 122. lþ.

[18:05]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Þetta var náttúrlega eins og við var að búast, afskaplega ómálefnalegt af hálfu hæstv. forsrh. en ég átti svo sem ekki von á neinu öðru. Ég vil einungis taka fram og ítreka það sem ég sagði áðan um stöðu í stjórnun íslenskra fyrirtækja að ég vitna í alþjóðlega úttekt svissnesks fyrirtækis sem Þjóðhagsstofnun er aðili að, og ef ég man rétt tengist Þjóðhagsstofnun eitthvað forsrn. þannig að ekki er verið að tala um neinn reynsluheim, hvorki minn né annarra, heldur blákaldar staðreyndir um íslenskt fyrirtækjaumhverfi.

Hæstv. forsrh. var ekki í þeirri umræðu þegar fjármagnstekjuskattur var lögfestur fyrir tveimur árum og kannski ekki von að hann muni þau orðaskipti sem voru þá í gangi milli okkar jafnaðarmanna og hæstv. fjmrh. Formenn stjórnarandstöðuflokkanna lögðu fram frv. þar sem tekið var almennt á fjármagnstekjum og skattlagt eins og aðrar tekjur í landinu. Í stað þess lögfesti ríkisstjórnin þá ívilnandi útfærslu sem er enn í gildi. Þessi umræða skar mjög á milli sjónarmiða í málum og þegar ég er að draga fram andstöðu okkar við fjármagnstekjuskattinn þá lá hún mjög skýrt fyrir í þeirri hörðu umræðu um lögfestingu þess frv. á sínum tíma og við höfum margoft bent á galla þess. Ég endurtek enn og aftur að skattprósenta upp á 30% hjá íslenskum fyrirtækjum er ein sú lægsta í öllum þessum löndum sem ég taldi upp og menn eiga ekki að hrósa sér af slíku.