Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 17. mars 1998, kl. 18:07:16 (4761)

1998-03-17 18:07:16# 122. lþ. 89.3 fundur 553. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (skatthlutfall fyrirtækja, arðgreiðslur o.fl.) frv., SJS
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 122. lþ.

[18:07]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það fyrsta sem kom í hug minn þegar ég fór að líta yfir frv. eftir að því hafði verið dreift fyrir fáeinum dögum og ég sá að m.a. var efni þess að lækka enn tekjuskattsprósentu fyrirtækja, þann skatt sem greiddur er af nettóhagnaði fyrirtækja eftir að öllum frádráttarmöguleikum hefur verið beitt, var að þarna væri á ferðinni einhver skilnaðargjöf frá hæstv. fjmrh. til vina sinna í atvinnulífinu. Nú ber að vísu að taka fram að þegar að samhenginu er gáð er að sjálfsögðu sú hugsun þarna á ferðinni að lægri skattprósenta komi á móti því að fyrirtækjunum verði ekki heimilt eftir breytinguna að draga útgreiddan arð frá skattskyldum tekjum eins og verið hefur. Vissulega mun það þýða íþyngingu gagnvart þeim fyrirtækjum sem hafa greitt arð að fullu miðað við heimildir skattalaga, en eingöngu þeim. Það er að sjálfsögðu alveg ljóst að lækkun á almennu tekjuskattsprósentunni mun þýða hreina skattalækkun á þeim fyrirtækjum sem hafa ekki greitt mikinn arð og í öllu falli ganga sjálfir útreikningar frv. út á að þótt beitt sé meðaltölunum og þeirri úttekt sem frv. byggir á og styðst við til að áætla tekjuáhrifin fyrir ríkissjóð, meira að segja þar kemur út að um lækkun verði að ræða að raungildi upp á um 200 millj. kr. Þegar betur er að gáð er það kannski ekki svo fráleitt, a.m.k. í gamansömum tón, að flokka megi þetta undir skilnaðargjöf frá hæstv. fjmrh., sem orðrómur hermir að hverfi senn til annarra starfa, til þessara aðila.

Nú er þetta frv. þannig saman sett að í því eru í raun og veru nokkur efnisatriði sem eru ekki öll tengd og sum þeirra þess eðlis að auðvelt er að taka undir þau. Að sjálfsögðu er eðlileg viðleitni og hefur skort á hjá okkur að fara betur yfir það að ekki sé um svokallaða efnahagslega tvísköttun að ræða og sérstaklega held ég að það hafi verið orðið nauðsynlegt að hyggja að þessu þegar í hlut á skattaleg meðferð tekna eða arðs vegna atvinnurekstrar milli landa. Við stöndum auðvitað frammi fyrir því og sjáum að það er umtalsverð þróun í gangi þar sem íslensk fyrirtæki, aðallega er það á þann veginn, eru að fjárfesta erlendis, eru að styrkja stöðu sína, t.d. í verslun og viðskiptum og vinnslu sjávarafurða erlendis, með því að koma á fót dótturfyrirtækjum eða kaupa fyrirtæki á því sviði. Að sjálfsögðu mun þá í vaxandi mæli reyna á skattalegar reglur hvað varðar flutning arðs heim, skulum við vona, að því gefnu að fjárfestingin sé skynsamleg og arður komi af fjárfestingunni heim til móðurfyrirtækjanna á Íslandi. Ég tek því undir það efni frv. að nauðsynlegt var orðið að fara yfir þessar reglur um efnahagslega tvísköttun. Í mín eyru hafa til að mynda kvartað forsvarsmenn sjávarútvegsfyrirtækja og fleiri fyrirtækja sem hafa verið að hasla sér völl vestan hafs, að þar væri um vissa erfiðleika að ræða eins og frá málum væri gengið af okkar hálfu og svo aftur í Bandaríkjunum eða annars staðar. Sömuleiðis í öðru lagi, herra forseti, hef ég ekki trú á því að nokkur maður setji sig á móti því að tilmælum þar að lútandi að koma því skýrt og skilmerkilega inn í löggjöf að mútur séu ekki réttmætur frádráttarbær kostnaður hjá fyrirtækjum, að gengið sé frá því í lögum. Ég á ekki von á að neinn standi upp á Alþingi og mótmæli því og hafi það mikla samúð með mútugreiðslum að hann vilji að fyrirtækjunum sé heimilt að draga þær frá skatti. Þótt þrálátur orðrómur gangi auðvitað um að erfitt sé að eiga viðskipti í ákveðnum heimshlutum nema beita þessum aðferðum er þetta eitthvað sem menn eru að reyna að útrýma úr siðaðra manna viðskiptum og að sjálfsögðu eigum við að vera í fararbroddi þar frekar en eftirbátar annarra í að ganga frá því í löggjöf.

Herra forseti. Þá er upp er talið það sem ég tel sjálfsagða hluti eða tiltölulega óumdeildar breytingar í frv. Í þriðja lagi nefni ég þetta ákvæði um að lengja heimildir til frestunar söluhagnaðar þannig að þann hagnað sé heimilt að færa yfir tvenn áramót sem getur væntanlega þýtt allt að þriggja ára frestun. Það finnst mér ansi vel í lagt, ég verð að segja alveg eins og er. Ég held að það sé orðið miklu meira en eðlilegur umþóttunartími fyrirtækja til að ákveða hvort það ræðst í beinu framhaldi af sölu sem hefur skilað hagnaði í einhverjar aðrar fjárfestingar eða framkvæmdir sem dregur af hagnaðinum. Ef menn hafa leyst til sín mikinn hagnað með sölu finnst mér ekki eðlilegt að menn geti komið honum undan skatti í svona langan tíma án nokkurra frekari skilyrða eða sértilgreindra aðstæðna. Ég tek undir það sem kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni, Ágústi Einarssyni, að þetta mun væntanlega í langflestum tilvikum þýða að slíkur hagnaður komi aldrei til skattlagningar því að þá verði möguleikar fyrirtækjanna til að koma honum fyrir á annan hátt orðnir svo miklir.

Þá að lækkun skatthlutfallsins og það tengist aftur breytingu á skattalegri meðferð arðgreiðslnanna, þ.e. að hverfa frá því að hafa greiðslurnar frádráttarbærar sem ég í sjálfu sér er sammála og tel eins og fleiri að hafi alla tíð orkað mjög tvímælis og var reyndar orðið nánast séríslenskt fyrirbæri. Þar er spurningin um hvort á móti eigi að koma þessi regla að vegna þess að arðurinn er þá skattaður sem tekjur eða hagnaður fyrirtækjanna á greiðandahliðinni í þeim tilvikum að menn eru þá jafnframt að borga tekjuskatt, sem þarf ekki endilega að vera, fyrirtæki geta að sjálfsögðu verið að greiða út arð, jafnvel á einstökum árum þegar afkoma þeirra er ekki slík að þau greiði tekjuskatt þannig að ekki er sjálfkrafa samhengi þar á milli en á móti verði arðtekjurnar hjá viðtakandanum skattfrjálsar. Með þessu er rökstudd 3% lækkun á almenna skatthlutfallinu í tekjuskatti af hagnaði fyrirtækja.

[18:15]

Þar segi ég í fyrsta lagi að sú áætlun sem þarna er lögð til grundvallar þýðir með þeim takmörkunum sem nauðsynlegt er að hafa á henni að um raunlækkun skatta sé að ræða. Í öðru lagi er hún auðvitað áætlun. Það er alveg ljóst að þarna er verið að áætla á tiltölulega óvissum forsendum hver verði nettóáhrifin af þessu fyrirtæki. Ég fyrir mitt leyti hef sterka tilfinningu fyrir því að óvissan liggi fyrirtækjunum í vil. Ég held að yfirgnæfandi líkur séu á því að þessi almenna lækkun skattprósentunnar muni nýtast fleiri fyrirtækjum en sú breyting hvað varðar skattalega meðferð arðgreiðslnanna. Og það muni sýna sig á komandi árum að þarna sé enn verið að ívilna þeim, þó að það standi ekki til samkvæmt forsendum frv. eða það er a.m.k. ekki yfirlýstur tilgangur þar heldur er þetta sett upp sem tæknileg breyting í raun og veru.

Ég hafði sömuleiðs, eins og hv. síðasti ræðumaður, aflað mér yfirlitsupplýsinga um það hvernig skatthlutföllin standa um þessar mundir og þá kemur það í ljós, eins og hv. þm. Ágúst Einarsson fór rækilega yfir, að við erum nú þegar í hópi allra lægstu ríkja hvað varðar almenna skattlagningu eða tekjuskattsgreiðslur fyrirtækja. Fyrirtæki á Íslandi greiða eins og kunnugt er engan tekjuskatt til sveitarfélaga, af þeim var létt aðstöðugjöldum upp á 4--5 milljarða, á núgildi sjálfsagt, fyrir nokkru síðan og engir skattar teknir upp í staðinn. Ekki var farin sú leið að leita leiða til að taka a.m.k. í einhverjum mæli upp á móti afkomutengda skatta eða umhverfisgjöld eða annað slíkt, sem sums staðar hefur verið gert í nágrannalöndunum. Þarna var um nánast hreina tilfærslu á skattbyrði af þessari stærðargráðu að ræða, frá skatti á lögaðila eða fyrirtæki og yfir í skatt á launamenn. Og svo kemur það til viðbótar, herra forseti, að launatengd gjöld fyrirtækja á Íslandi eru með því lægsta sem þekkist. Þannig að þegar upp er staðið er augljóslega búið að búa hér til skattalegt umhverfi sem er orðið fyrirtækjunum mjög hagstætt, nánast skattaleg paradís.

Ég var á ráðstefnu fyrir tveimur eða þremur árum á Norðurlöndunum þar sem farið var yfir þessi mál öll, Norðurlöndin skoðuð og borin saman við afganginn af Evrópu. Það sem kom mér hvað mest á óvart af öllu var sú staðreynd að Norðurlöndin eru sem slík nánast lágskattaparadís fyrirtækja. Því ætlaði ég ekki að trúa fyrir mitt litla líf en staðreyndin er nú samt sú. Og auðvitað veit maður að til að mynda í tilviki Svía hafa verið í gangi aðgerðir hreinlega til að sporna við því að sænsk stórfyrirtæki flyttu starfsemi úr landi. Það skilur maður út af fyrir sig.

En menn verða náttúrlega einhvers staðar að draga mörkin. Við ætlum væntanlega ekki að búa hérna til einhverja Karíbahafs-lágskattaparadís fyrir atvinnulíf en halda áfram með skatta á launamenn sem eru með því hæsta sem þekkist.

Þegar almenna tekjuskattsprósentan hér verður komin niður í 30%, sem þýðir raunskattprósentu ef maður tekur mark á útreikningum frv. um útkomuna þegar arðprósentan eða skattaleg meðferð arðs er komin inn í myndina, sem mun þá þýða að raunveruleg, nettó meðaltalsskattprósenta þegar arðurinn er þarna tekinn með er komin enn neðar eða í u.þ.b. 29%, þá er þetta auðvitað orðið mjög lágt. Og með hliðsjón af því að launatengd gjöld eru hér óvenju lág er niðurstaðan af því bara ósköp einfaldlega sú, að skattbyrðinni er dreift þannig á Íslandi að hún er mjög lág á fyrirtækjunum, jafnvel af nettóhagnaði þeirra, en mjög há á launamönnum. Við erum með næsthæstu skattprósentu í heimi, ef ég man rétt, á óbeinum skatti eða virðisaukaskatti. Mig minnir að á einhverju hinna Norðurlandanna sé skattur hálfu prósentustigi hærri. Við erum sem sagt nánast með heimsmet í því og við erum með tiltölulega háan tekjuskatt, lág skattleysismörk o.s.frv.

Herra forseti. Menn hafa einmitt rætt það mikið á undanförnum árum hversu hlutfallslega litlu atvinnulífið eða fyrirtækin á Íslandi skila inn í tekjuöflun ríkissjóðs. Hv. síðasti ræðumaður nefndi prósentur í því sambandi. Það á sér ákveðnar skýringar sem við þekkjum. Það á sér m.a. þær skýringar að frá óstjórnar- og vitleysisárum þegar hér var bullandi verðbólga og óviðunandi afkoma í ýmsum höfuðgreinum atvinnulífs t.d. sjávarútveginum, mynduðust töp upp á stórar fjárhæðir sem að viðbættum mjög rúmum reglum til að færa þau töp milli fyrirtækja, jafnvel milli óskyldra atvinnugreina, þýddu að tekjuskattsgreiðslugrunnur fyrirtækjanna var einfaldlega með þeim hætti. Um árabil var nánast ekki finnanlegt eitt einasta fyrirtæki í sjávarútvegi á Íslandi sem borgaði nokkurn einasta tekjuskatt af því að þau áttu yfirleitt miklu meira en nóg töp. Sum af fínu fyrirtækjunum í öðrum atvinnugreinum voru svo dugleg við að kaupa sér töp, jafnvel af misgáfulegri blaðaútgáfu og guð má vita hvað, að þau borguðu ekki eða ætluðu sér ekki að borga neinn tekjuskatt langt inn í framtíðina. Það hefur að vísu í einstökum tilvikum verið bremsað svolítið af, reglur voru þrengdar og síðan hafa dómar gengið þannig að ekki hefur allt heppnast hjá mönnum sem þeir ætluðu sér í þessum efnum þegar jafnvel gosdrykkjaframleiðendur ætluðu að sleppa við að borga tekjuskatt upp undir áratug síðar vegna þess að þeir höfðu keypt gjaldþrota útgáfufyrirtæki af framsóknarmönnum. Það hefur sem betur fer verið rekið til baka sem eðlilegt er því svo langt er náttúrlega ekki með nokkurri sanngirni hægt að teygja í þessum hlutum.

Nú er hins vegar loksins að hilla undir breytingu í þessum efnum. Ég vænti þess að menn hafi tekið eftir því að hvert sjávarútvegsfyrirtækið á fætur öðru hefur verið að skila ársuppgjöri eða reikningum sínum fyrir sl. ár og í mörgum tilvikum er endanlegur hagnaður fyrirtækjanna lægri svo nemur 50--100 millj. kr., ekki vegna þess að afkoman hafi endilega versnað sem því nemur. Nei, vegna þess að skattgreiðslur eru komnar inn sem áður voru ekki fyrir hendi nema að mjög litlu leyti. Ef menn hafa lagt eyrun við, þá hafa nokkur stór og vel rekin fyrirtæki einmitt verið að birta slíkar tölur, sem segir mér ekkert annað en að í vændum er gjörbreyttur tími hvað þetta varðar. Það eru svo sem engin ný vísindi, það hefur verið fyrirséð að töpin væru að eyðast upp.

Ég held þess vegna að menn þurfi að huga mjög vel að því að hreyfa til almennu tekjuskattsprósentuna núna þegar kannski hillir undir að bætt afkoma í atvinnulífinu gæti farið að skila sér í verulega auknum tekjum inn í ríkissjóð. Ekki með því að menn þurfi að hækka álögurnar á fyrirtækin heldur með því að fyrirtæki sem búa núorðið við batnandi afkomu, hafa nýtt öll uppsöfnuð töp færu að skila skattgreiðslum í verulegum mæli og er þá að sjálfsögðu eðlilegt að þau skili til þjóðarbúsins og borgi eðlilegan hluta af hagnaðinum þangað.

Ég hvet því til þess að farið verði yfir það rækilegar en mér finnst hafa verið gert með þessu frv., jafnvel þó það kosti einhverja frekari gagnaöflun og vinnu hvað varðar að keyra áætlanir um skattskil fyrirtækjanna, og menn eigi náttúrlega að hafa þá til hliðsjónar að hér getur verið meira í húfi en verið hefur undanfarin ár í formi fjárhæða fyrir ríkið út og inn, plúsa og mínusa. Hvert prósentustig í álagningu getur þarna farið að skipta mun hærri upphæðum á komandi árum fyrir ríkissjóð en það hefur gert, vegna þess hvað sáralítið hefur í raun og veru verið um það að fyrirtæki greiddu tekjuskatt.

Ég hef ekki verið mikill stuðningsmaður þess, herra forseti, að menn færu út í einhverja brjálaða skattlagningu t.d. á sjávarútveginn sérstaklega í formi veiðileyfagjalda, sem hefur verið mjög mikið tískufyrirbæri í umræðunni. Ég er hins vegar eindreginn talsmaður þess að sjávarútvegsfyrirtæki, eins og önnur fyrirtæki, borgi eðlilega til samneyslunnar þegar þau hafa afkomu til þess. Það er mín hugmyndafræði í þessum efnum að leggja eigi skattana fyrst og fremst á þá sem geta borgað og skattleggja eigi hagnaðinn þar sem hann er og þegar hann er til staðar og hvorki eigi að leyfa mönnum með óeðlilegum hætti að fresta honum undan skattlagningu né eigi að hlaupa til og lækka prósenturnar þó að horfi til þess að ríkissjóður mundi bæta eitthvað stöðu sína og fá meiri tekjur af hagnaði fyrirtækja á komandi árum. Ekki veitir af. Ég held það væri bara prýðilegt ef við fengjum inn auknar tekjur í einhverjum milljarðavís á komandi árum.

Ég sé heldur ekki, herra forseti, að það séu endilega mikil rök fyrir því að færa enn niður þessa tekjuskattsprósentu, jafnvel þó að breytingarnar á arðgreiðslureglunum mundu þýða einhverja íþyngingu fyrir atvinnulífið. Þá spyr ég á móti, getur það ekki vel borið það? Er ekki komið að því að það fari að skila meiru en það hefur gert undanfarin ár? Er ekki alveg augljóst mál og óumdeilt að atvinnulífinu var hlíft mjög mikið á erfiðleikatímanum?

Niðurfelling aðstöðugjaldsins og umtalsverð lækkun tekjuskattsprósentunnar --- ég er þá ekki að tala um prósentur upp á 50 eins og var á verðbólgutímanum, sú háa tala var fyrst og fremst afsprengi þess að menn reiknuðu inn í verðrýrnun skattgreiðslnanna bara á hálfu ári eða innan árs vegna verðbólgunnar, þó við notum tölur eins og 45 eða 40% eins og voru um skeið áður en lækkunarhrinan hófst sem nú hefur verið.

Að allra síðustu, herra forseti, segi ég það að mér finnst þetta frv., miðað við að það er býsna stórt, a.m.k. hlutar af því sem hér hafa verið gerðir að umtalsefni af mér og reyndar einnig síðasta hv. ræðumanni, gera það að verkum að mikil ástæða sé til að íhuga að fresta afgreiðslu þess, skoða þetta betur, þannig að t.d. efh.- og viðskn. fengi sumarið til að líta betur yfir þessi mál. Frv. er nokkuð seint fram komið, bætist aftan við langan, langan lista af stórmálum sem dælt hefur verið inn og öll á verksviði þessarar nefndar. Mér finnst það þess vegna ekki ósanngjörn krafa að það verði a.m.k. kannað á næstunni að afgreiðslu þessa frv. verði frestað og það fái ítarlegri skoðun.