Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 17. mars 1998, kl. 18:32:43 (4765)

1998-03-17 18:32:43# 122. lþ. 89.3 fundur 553. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (skatthlutfall fyrirtækja, arðgreiðslur o.fl.) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 122. lþ.

[18:32]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég hef tilhneigingu til að leyfa mér að túlka þessi síðustu orð hæstv. forsrh. þannig að út af fyrir sig standi það opið að menn fari betur yfir forsendur þessara útreikninga og ef t.d. kæmi á daginn að þetta væri ríflega í lagt hvað varðaði það að mæta áhrifum breyttrar skattalegrar meðferðar afgreiðslna fyrir fyrirtækin, þá yrði það endurskoðað og ef útkoman yrði t.d. að það væri nóg að lækka hlutfallið í 31% eða 31,5% þá yrði það látið standa. Það finnst mér einmitt gefa tilefni til þess að við gerum það og tökum menn þá á orðinu hér, ef svo má að orði komast, og segjum: Það er ekki ætlunin að láta þetta valda neinni skattalækkun heldur er þetta eingöngu breyting af þeim toga sem hér hefur verið um rætt.

Það er alveg hárrétt að íslenskt efnahagslíf og atvinnufyrirtæki hafa verið veik og ein eftirköst af óstjórnarárum hér, verðbólgu og óstöðugleika af ýmsu tagi voru að sjálfsögðu þau að lítið var um fyrirtæki með stöndugan efnahag og rekstrartapi í stórum stíl var safnað upp eins og ég fór yfir hér áðan þannig að árum saman hafa fyrirtækin, þrátt fyrir batnandi afkomu, ekki borgað eina einustu krónu í tekjuskatt.

En ef þetta er nú að breytast sem betur fer, þá eru það ekki endilega rök fyrir því að hafa tekjuskattsprósentuna lága og með því lægsta í heiminum. Svo er ekki vegna þess að hún kemur ekki til sögunnar fyrr en fyrirtækin hafa haft alla þá möguleika sem skattalög og starfsumhverfi þeirra að öðru leyti býður þeim upp á til að byggja sig upp, til að fjárfesta og til að fyrna þær fjárfestingar og afskrifa, til að borga hærri laun og draga það frá sem rekstrarkostnað. Það er því eingöngu spurning um nettóskattlagninguna á hagnaðinum sem eftir stendur.

Það hefur verið heilmikil fjármunamyndun í ýmsum þeim fyrirtækjum sem nú eru að fara að borga t.d. tekjuskatt í sjávarútvegi. Þau eru orðin prýðilega stöndug áður en þau fara að borga nokkurn tekjuskatt vegna þess að uppsafnaða tapið var svo mikið. Ég þekki mörg slík dæmi. Menn geta skoðað veltutölur í þeim fyrirtækjum og eiginfjárhlutfall og annað því um líkt og séð að þau eru orðin prýðilega í stakk búin til að borga tekjuskatt.