Bindandi álit í skattamálum

Þriðjudaginn 17. mars 1998, kl. 18:35:31 (4766)

1998-03-17 18:35:31# 122. lþ. 89.4 fundur 552. mál: #A bindandi álit í skattamálum# frv., forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 122. lþ.

[18:35]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um bindandi álit í skattamálum. Frv. er 552. mál og er að finna á þskj. 941.

Með frumvarpi þessu er lagt til að tekið verði upp nýmæli sem verið hefur gildandi í nágrannalöndum okkar um árabil og lýtur að heimild skattyfirvalda til að gefa fyrir fram bindandi álit í skattamálum.

Frumvarpið, sem unnið var í fjármálaráðuneytinu, er að nokkru leyti sniðið að danskri fyrirmynd en Danir settu fyrst lög um bindandi álit árið 1982. Í frv. er gert ráð fyrir að skattaðilar geti óskað eftir því við ríkisskattstjóra að hann gefi bindandi álit um skattaleg áhrif fyrirhugaðra ráðstafana þeirra. Það álit sem þannig er fengið yrði bindandi fyrir skattyfirvöld nema því yrði hnekkt með úrskurði yfirskattanefndar eða með dómi. Meginmarkmið frv. er að auka réttaröryggi skattaðila. Það tryggir einstaklingum og fyrirtækjum rétt til að fá fyrir fram úr því skorið hvernig skattlagningu vegna tiltekinna ráðstafana verði háttað og svigrúm til að taka ákvarðanir og gera ráðstafanir á grundvelli þeirra upplýsinga.

Þá er þess einnig að vænta að úrræði þetta muni leiða til færri ágreiningsmála á síðari stigum, þ.e. fyrir yfirskattanefnd og dómstólum. Bindandi álit eru afmörkuð við skatta og gjöld sem eru á valdsviði skattstjóra eða ríkisskattstjóra og falla undir úrskurðarvald yfirskattanefndar. Gert er ráð fyrir að fyrirspurn um bindandi álit verði beint til ríkisskattstjóra og verður hún að beinast að tiltekinni fyrirætlan skattaðila sem ekki hefur þegar verið ráðist í og ekki hefur áður verið tekin afstaða til með úrskurði eða dómi.

Gert er ráð fyrir að skattaðili sem fengið hefur bindandi álit geti kært það álit til yfirskattanefndar og með niðurstöðu hennar megi fara fyrir dómstóla. Framangreint efni kemur fram í einstökum greinum frv. sem hér greinir.

Í 1. gr. frv. er lýst skilyrðum sem beiðni um bindandi álit þarf að fullnægja. Í 1. mgr. er áskilið að málið geti varðað verulega hagsmuni þess er óskar álits og varði álitamál sem snerta álagningu skatta og gjalda sem eru á valdsviði skattstjóra eða ríkisskattstjóra og falla undir úrskurðarvald yfirskattanefndar. Þá er ekki hægt að óska eftir bindandi áliti um ráðstafanir sem þegar hafa verið gerðar.

2. gr. frv. mælir fyrir um formskilyrði sem beiðni um bindandi álit þarf að fullnægja.

Ákvæði 3. gr. frv. snýr að málshraða. Fyrir fram bindandi álit samkvæmt frv. þessu eru þess eðlis að þau koma að takmörkuðu gagni ef þau eru ekki látin uppi innan skamms tíma eftir að þeirra er óskað. Er því gert ráð fyrir að ríkisskattstjóri láti uppi álit eins fljótt og unnt er. Er reglan í samræmi við ákvæði stjórnsýslulaga hvað þetta snertir.

Í 4. gr. kemur fram að ríkisskattstjóri skuli senda álit sitt bæði til álitsbeiðanda og þess skattstjóra sem kemur til með að byggja ákvörðun um skattlagningu á álitinu.

5. gr. frv. kveður á um kæruheimild og málskotsrétt til yfirskattanefndar eða eftir atvikum dómstóla.

Í 6. gr. frv. er fjallað um réttaráhrif bindandi álita. Skulu skattyfirvöld leggja álit ríkisskattstjóra til grundvallar álagningu gjalda hjá álitsbeiðanda vegna þeirra atriða sem álitið varða.

Í 7. gr. er gert ráð fyrir að lagt verði á gjald til að standa straum af kostnaði sem ríkisskattstjóri hefur af gerð bindandi álita.

Að lokum er í 8. gr. frv. að finna ákvæði um heimild til að birta niðurstöður álita sem hafa almenna þýðingu.

Virðulegi forseti. Ég tel ástæðulaust að fjalla frekar á þessu stigi málsins um frv. en vænti þess að það fái umfjöllun í hv. efh.- og viðskn. þingsins og geri tillögu um að málinu verði vísað til 2. umr. og þeirrar hv. nefndar.