Bindandi álit í skattamálum

Þriðjudaginn 17. mars 1998, kl. 18:55:49 (4771)

1998-03-17 18:55:49# 122. lþ. 89.4 fundur 552. mál: #A bindandi álit í skattamálum# frv., SJS
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 122. lþ.

[18:55]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Þetta er að verða heilmikil lota þar sem hæstv. forsrh. og starfandi fjmrh. mælir fyrir hverju skattafrv. á fætur öðru og gerum við að sjálfsögðu ekki neinar athugasemdir við það í ljósi þess hvernig aðstæður eru þó að vissulega sé einnig söknuður að því að hafa ekki hæstv. fjmrh. á meðal vor.

Um meginefni frv. hef ég það að segja að þetta er eitt af nokkrum atriðum sem hafa verið til umræðu á undanförnum árum að brýnt væri að hrinda í framkvæmd og koma á í íslenska skattkerfinu þannig að réttarstaða eða þjónusta við skattgreiðendur kæmist nær því hér að vera sambærileg við það sem gerist og gengur annars staðar og í þeim löndum sem við viljum helst bera okkur saman við. Með öðrum orðum bindandi álit eða forúrskurðir í skattkerfinu eru að sjálfsögðu af hinu góða. Það er mjög eðlileg hugsun í tilviki sem þessu þar sem menn eiga jafnmikið í húfi, ekki bara hvað varðar endanlega framkvæmd og álagningu heldur oft á tíðum einnig túlkun á vafaatriðum, að þeir geti leitað slíkra forúrskurða í skattkerfinu. Við getum tekið aðrar hliðstæður sem eru möguleikar manna til að fá forúrskurði eða a.m.k. ráðleggingar Samkeppnisstofnunar þegar í hlut eiga ákvarðanir í atvinnulífinu sem gætu varðað við ákvæði samkeppnislaga. Þá er hugsað sambærilega fyrir því að menn geti snúið sér til viðkomandi yfirvalds eða viðkomandi stjórnsýsluvalds og fengið álit fyrir fram áður en þeir binda hendur sínar eða verða fyrir óhagræði vegna óvissu sem kann að ríkja um túlkun reglna og útkomu þeirra gagnvart hlutum af þessu tagi. Þá hugsun í þessu frv. styð ég að sjálfsögðu og tel reyndar að það geti varla verið flókið mál að lagfæra þannig framkvæmdaratriði eða einhverja ágalla sem kunna að vera á þessu og voru tilefni orðaskipta áðan á milli hæstv. forsrh. og hv. þm. Ágústs Einarssonar. Ég held að það hljóti að vera hægt að fara yfir það svo sem eins og varðar þessa kærufresti og annað því um líkt.

Ég hef ekki síður áhuga á því að ræða við hæstv. forsrh. sem hefur látið þessi skattamál dálítið til sín taka, ekki bara sem starfandi fjmrh. heldur einnig í eigin nafni sem forsrh. eða stjórnmálamaður og kem ég aðeins að því síðar um fleiri framfaramál af þessu tagi. Ég sakna þess t.d. mjög hversu seint hefur gengið á Íslandi að koma á sjálfvirkum útreikningi eða sjálfvirkri útfyllingu framtala. Það er mál sem hefur verið á dagskrá í mörg herrans ár og ég man eftir því að fljótlega eftir að hæstv. núv. fjmrh. kom í það embætti áttum við um þetta orðaskipti snemma á síðasta kjörtímabili og þá gaf hæstv. fjmrh. undir fótinn með að þetta væri í sjónmáli að hér á landi eins og víðast hvar er erlendis, að á grundvelli fyrirliggjandi upplýsinga, sem oftast liggja allar fyrir hjá hinu opinbera í formi launamiða og annarra slíkra hluta, væri um sjálfvirka útfyllingu að ræða þannig að menn ættu þann valkost að láta þetta gerast sjálfvirkt eða koma viðbótarupplýsingum á framfæri eða reikna þetta út sjálfir.

[19:00]

Ég vildi gjarnan sjá fleiri umbótamál af því tagi líta dagsins ljós. Auðvitað er mikilvægt að skattkerfið sé skilvirkt, að sæmilegur friður ríki um tilhögun þeirra mála og skattyfirvöldum sé gert kleift að starfa í sæmilegri sátt við skattgreiðendurna að svo miklu leyti sem menn geta nokkurn tímann orðið sáttir við að borga skatta. Af einhverjum ástæðum er þroski manna, upp til hópa, ekki meiri en svo að fæstir gleðjast yfir því að sinna skyldu sinni og gjalda keisaranum sitt.

Herra forseti. Þar sem svo vel ber í veiði að starfandi hæstv. fjmrh. er hæstv. forsrh., þá leyfi ég mér að taka upp við hann annan þátt sem tengist mjög þessu máli og öðrum sem boðuð eru, m.a. í greinargerðum með þessum frv. Fleiri umbótamál standa fyrir dyrum í skattkerfinu og þá á ég að sjálfsögðu við hugmyndir hæstv. forsrh. um umboðsmann skattgreiðenda, ,,ombudsmand`` fyrir skattgreiðendur landsins. Það vakti athygli svo vægt sé til orða tekið þegar hæstv. forsrh. gekk fram fyrir skjöldu í að gagnrýna skattayfirvöld og reifaði hugmyndir sínar um að stofna embætti umboðsmanns skattgreiðenda.

Sömuleiðis vill svo vel til, herra forseti, að einmitt daginn sem við ræðum þetta frv. kemur í hólf okkar þingmanna skýrsla Ríkisendurskoðunar um skatteftirlit á Íslandi. Það er hið ágætasta plagg. A.m.k. fékk ég þetta ekki í hendur fyrr en í morgun. Það kann að vera vegna þess að ég hafi ekki kíkt í pósthólfið alveg daglega.

Þar er að finna m.a. alllangan kafla um gagnrýni á skattaframkvæmd og skattyfirvöld. Þar er vísað til vinnu á vegum Félags löggiltra endurskoðenda og þar er sérstaklega vitnað í ummæli hæstv. forsrh. og hugmyndir hans um umboðsmann skattgreiðenda. Þar er einnig vitnað í málþing Félags löggiltra endurskoðenda og Lögmannafélags Íslands. Síðan er farið yfir þessa gagnrýni og ýmsa aðra sem beinst hefur að skattyfirvöldum á undanförnum missirum.

Reyndar er það svo, herra forseti, að það er nokkuð sérstök upplifun fyrir þá sem lengi hafa haft starfa af því að fylgjast með framkvæmd skattamála, eins og ræðumaður hefur gert m.a. með því að sitja í efh.- og viðskn. núna bráðum í sjö ár samfellt, að heyra hvernig umræðan hefur á skömmum tíma snúist hér á Íslandi.

Þannig er að í kringum 1990 og einhver ár eftir það gekk mjög mikið fár yfir landið þar sem skattsvik voru í tísku ef svo má að orði komast. Þá þótti mikil íþrótt að ræða um stærð neðanjarðarhagkerfisins og skattsvikin. Skýrslur komu á skýrslur ofan, þar sem reynt var að meta umfang skattsvika. Hverjar voru kröfurnar sem uppi voru í hinni almennu umræðu, bæði hér á Alþingi, í fjölmiðlum og víðar? Þær voru um stórhert skatteftirlit. Þess var krafist að skatteftirlit yrði hert því skattsvikin væru allt of mikil og menn yndu því æ verr að greiða sína skatta vegna vitundarinnar um að aðrir slyppu við það.

Ég leyfi mér að túlka það þannig, herra forseti, að þá voru sökudólgarnir skattsvikararnir og ætlunin að ráðast að skattsvikum. Samúðin var með skattyfirvöldum. Þau þurfti að efla og gera betur kleift að sinna hlutverki sínu og ná sökudólgunum, ná þeim sem væru að draga undan.

Nú virðast mér verulegir tilburðir í umræðunni til þess að snúa þessu alveg við og færa gagnrýnina yfir á skattyfirvöld. Þau eru sökudólgurinn og óvinurinn sem þurfi að stemma stigu við. Ég hef nokkuð undrast það hvernig málsmetandi menn með sjálfan forsrh. í fararbroddi hafa tekið þátt í umræðunum sem hallast að þessu viðhorfi.

Mér finnst það ábyrgðarhlutur að ganga svo langt að athyglin færist nánast öll yfir á störf skattyfirvalda á grundvelli laga sem við stjórnmálamenn höfum sjálfir sett. Þarna eru beinar afleiðingar af ákvörðunum og gerðum hér á Alþingi, í stjórnsýslunni, í fjmrn. og víðar, gagnrýndar. Þær eru gagnrýndar og þolendum í málinu vorkennt.

Það er einmitt þannig að í skýrslu Ríkisendurskoðunar sem ég veit ekki hvort hæstv. forsrh. hefur haft tíma til að lesa. (Forsrh.: Ég er búinn að lesa skýrsluna.) Þá fagna ég því að hæstv. forsrh. er svona vel lesinn í þessu að hann er þegar búinn að fara yfir hana. (Forsrh.: Ég var veðurtepptur og las hana.) Hann var veðurtepptur og hafði góðan tíma til lestrar. Fátt er svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott.

Í skýrslunni er nefnilega komist að þeirri niðurstöðu æ ofan í æ, að lítið þýði að lemja á skattyfirvöldum fyrir það sem öðrum er um að kenna. Þar er t.d. bent á að langt sé frá því að þær skattalagabreytingar sem síðan kemur í hlut skattyfirvalda að framkvæma séu alltaf nægjanlega vel undirbúnar. Þær eru oftar en ekki, eins og við þekkjum auðvitað mætavel sem hér höfum starfað á þingi, snöggsoðnar. Þær koma kannski til sem hluti af öðrum og óskyldum aðgerðum eins og því að ná kjarasamningum eða ljúga saman fjárlögum. Þá grípa menn til þeirra ráða að að krukka í skattkerfið. Skattkerfinu er svo hent í skattyfirvöld, skattstjórana og ríkisskattstjóra og þeim ætlað að framkvæma þetta gjarnan með sáralitlum undirbúningstíma.

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar segir einnig að gagnrýna megi stjórnvöld og Alþingi fyrir seinagang við endurskoðun skattalaga. Meira að segja er farið nokkuð hörðum orðum um frammistöðu sjálfs fjmrn. Ég vona að það verði ekki enn einu sinni afgreitt þannig að það stríð standi yfir milli fjmrn. og Ríkisendurskoðunar. Að vísu hefur andað köldu milli manna á þeim bæjum en ég held að við hljótum að taka alvarlega þær athugasemdir. T.d. mætti nefna þær athugasemdir sem gerðar eru á bls. 113. Því er haldið fram að dæmi sé um að fjmrn. hafi lagt fyrir skattyfirvöld að virða ekki fordæmisgildi úrskurðar yfirskattanefndar, áður ríkisskattanefndar. Þetta er nokkuð mikið sagt. Er það af því að fjmrh. hafi fundist þeir úrskurðir vitlausir og væru á móti því? Eru menn þarna að brúka kjaft við dómarann? Þarna segir fjmrn.: Það á bara ekki að taka mark á þessum úrskurðum ríkisskattanefndar.

Sama er reyndar sagt um, þó það snúi að öðrum aðilum sem ekki eru hér til standa fyrir máli sínu, endurskoðendur eða þá sem aðstoða við framtalsgerð. Talin eru mikil brögð að því að þeir hafi látið hjá líða að taka tillit til fordæmisgildis úrskurða skattyfirvalda og yfirskattanefndar. Auðvitað er ekki von á góðu ef menn umgangast lögin með þessum hætti.

Mín niðurstaða er sú og ég vildi koma henni á framfæri, að við verðum að varast það, sérstaklega við sem sitjum á Alþingi og setjum lögin sem skattyfirvöld síðan hafa til að vinna eftir, að sakfella þau um hluti sem eru kannski okkur sjálfum að kenna. Kann að vera að lagaundirbúningur hér sé ekki nægjanlega vandaður? Skortir á að nægur aðdragandi sé að undirbúningi framkvæmdar breyttra reglna varðandi skattheimtu o.s.frv.

Það kann vel að vera, herra forseti, að hugmyndin um umboðsmann skattgreiðenda sé góðra gjalda verð.

Ég hef að vísu nokkrar áhyggjur af því að þetta er að komast í tísku. Lagt er til að allir fái umboðsmenn og umboðsmenn verði fyrir þetta og hitt. (Forsrh.: Ég hef ...) Þá hefur Ríkisendurskoðun eitthvað feilað sig því að hún vitnar beint í það. (Gripið fram í.) Hugmyndir um umboðsmann skattgreiðenda er reyndar sagt hér. En einu má gilda og hæstv. forsrh. er til staðar til að útskýra betur.

Það kann vel að vera að þörf sé einhverra aðgerða til að styrkja réttarstöðu þolenda í samstarfi við skattkerfið. Ég ætla ekki að hafna því í öllum tilvikum. En menn verða að gæta hófs í þeirri framgöngu sinni og grafa ekki undan eða veikja stöðu skattyfirvalda. Það er stutt yfir í að umræðan sveiflist yfir á hitt borðið og menn telji þörf á að efla skatteftirlitið svo hægt sé að ná í skottið á skattsvikurunum o.s.frv. Auðvitað er ómögulegt umræðan umpólist með reglulegu millibili og samúðin sveiflist endanna á milli. Þarna verður að gæta eðlilegs jafnræðis og sanngirni í samskiptum aðila. Ég held að almennt hafi staða almennings verið að styrkjast með ýmsum umbótum í okkar stjórnsýslu. Þar hefur þróunin frekar verið í þá átt að tryggja betur réttindi manna. Stjórnsýslan hefur tekið sig á, enda þurfti hún þess og stjórnsýslulögin hafa þar haft áhrif o.s.frv. Sjálfsagt er að fara sambærilega yfir stöðu skattyfirvalda, stjórnsýslunnar í skattamálum. Þar verður hver að líta í eign barm og þýðir ekki að kenna öðrum um eigin mistök.

Herra forseti. Það er spurning um það hve mikill tími vinnst til að skoða þessi mál svo fullnægjandi þyki á þeim fremur skamma tíma sem eftir lifir af þessu þinghaldi.

Ég veit ekki hver afdrif annarra frv. sem hér eru boðuð verða. Að mörgu leyti hefði verið æskilegast að fá allan þennan pakka til skoðunar sem heildstæða úttekt á þessu sviði. Það hefði að mínu mati verið upplagt efni að vinna í milliþinganefnd, þ.e. allar þessar endurbætur og umbætur í skattkerfinu. Margt væri vitlausara en að fara þannig yfir þessi máli. Þá skipti kannski ekki öllu máli hvort þau væru öll komin fram á þinginu eða til umræðu ef þau væru komin það langt í vinnu að þau mætti hafa undir í starfi t.d. efh.- og viðskn. Sú nefnd hefði þá forustu um að stjórna í þeirri vinnu í sumar.

Ég vona, herra forseti, þó að nokkur tími hafi farið í alla þessa skattasúpu í dag og menn séu að verða svangir, að hæstv. forsrh. geti lýst hugmyndum sínum um þær umbætur í skattamálum sem enn hafa ekki komist á dagskrá, áður en við ljúkum umfjöllun um þetta mál.