Bindandi álit í skattamálum

Þriðjudaginn 17. mars 1998, kl. 19:30:57 (4776)

1998-03-17 19:30:57# 122. lþ. 89.4 fundur 552. mál: #A bindandi álit í skattamálum# frv., RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 122. lþ.

[19:30]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er hárrétt hjá hæstv. forsrh. að það sem ég var að benda á er einmitt skattafyrirkomulag sem gefur ákveðnum aðilum í okkar þjóðfélagi tækifæri til að vera með ákveðinn skattundanslátt eða skattahagræðingu eða nota sér þau lög sem við höfum sett hér og voru hugsuð í einhverjum öðrum tilgangi, til þess að komast hjá því að greiða sitt til samfélagsins. Það er alveg ljóst að þeir sem eiga meiri möguleika á því að ráða einhverju um það hversu mikið þeir borga í skatt eru þeir sem eru í rekstri. Launamennirnir geta það ekki vegna þess að þeir eru með laun og þetta liggur fyrir klippt og skorið.

Hitt er svo annað mál að einmitt vegna þess hversu þetta hefur verið flókið en það jafnframt blasað við að þarna er munur á, þá er það orðin hugsun hins almenna manns að eðlilegt sé að þiggja þjónustu þó honum sé boðin nótulaus greiðsla fyrir af því að viðkomandi borgar hvort sem er allt af sínum launum í skatta og allir hinir geta hagrætt. En þetta er hugsanagangur sem er mjög hættulegur í okkar þjóðfélagi.