Bindandi álit í skattamálum

Þriðjudaginn 17. mars 1998, kl. 19:32:16 (4777)

1998-03-17 19:32:16# 122. lþ. 89.4 fundur 552. mál: #A bindandi álit í skattamálum# frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 122. lþ.

[19:32]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. fyrir hans ræðu. Mér fannst fengur að því að fá fram skoðanaskipti um þessi mál sérstaklega vegna þess að hæstv. ráðherra hafði úttalað sig þannig að eftir var tekið í fjölmiðlum og þess vegna eðlilegt, úr því að svo vel bar í veiði að hæstv. forsrh. er hér sem starfandi fjmrh., að eiga skoðanaskipti um þetta. Reyndar hef ég haft nokkuð gaman af þessari umræðu. Hún hefur komið inn á ýmsar hliðar og sýnt ágætlega, held ég, hversu margrætt þetta mál er og stutt er á milli hliða í rauninni í því. Samúðin með þeim sem þolendum og framkvæmdaaðilum í þessu máli er auðvitað aðeins sín hliðin hvor á sama peningnum.

Ég held að það verði að segjast að báðir hafa nokkuð til síns máls, þeir sem töluðu fyrir því að gert yrði átak í skattheimtu á sínum tíma og svo hinir sem vara við því að menn fari þar offari. Við getum tekið sem dæmi eitt svið skattheimtu þar sem enginn vafi er á að mikill árangur hefur náðst og þar nefni ég t.d. innheimtu á þungaskatti. Það vissu allir sem eitthvað vissu að stórfelld undanbrögð voru á því að menn greiddu þann skatt. Farið var í aðgerðir til að bæta aðferðir og efla innheimtu. Ríkisskattstjóra var falið það mál og það hefur sannarlega skilað sér í stórbættri innheimtu og að allra mati minni undanskotum og það er vel. Það gerir þá sem greiða skattinn sáttari við að greiða hann að allir taki þátt í því.

Að öðru leyti dró samt hæstv. forsrh. upp nokkra hryllingsmynd af þolendum, litlum fyrirtækjum eða öðrum slíkum. Það minnti mig á dæmið sem hæstv. félmrh. tók forðum af stöðumælasektunum á Akureyri sem fóru úr nokkrum tugum króna upp í 35 þús. kr. eða svo með öllum kostnaði.

En svo er það spurningin um hvernig það er að vera fjmrh., vera ríkisskattstjóri eða vera skattstjóri í umdæmunum þegar þessi umræða fer fram. Talandi um jafnræði, þá held ég að við verðum að gæta jafnræðis og jafnvægis í umfjöllun um þessi mál þannig að þeirra aðstæðum í þessu sambandi sé líka sýnt fullt tillit.